BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu 2023/24: Breiðablik - Zorya Luhansk

02.10.2023 image

Næsti Evrópuleikur okkar manna er á Laugardalsvelli

Tólfti Evrópuleikurinn á keppnistímabilinu

Fyrsti leikur íslensks karlaliðs í riðlakeppni UEFA á Íslandi

image

Leið Blika í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu

Forkeppni & Undankeppni  - Meistaradeild

Í júní þegar dregið var í forkeppni Meistaradeildarinnar kom liðið Tre Penne frá San Marínó upp úr pottinum sem fyrsti andstæðingur Breiðabliks í forkeppni Meistaradeildarinnar. Forkeppnin fór fram á Kópavogsvelli dagana 27. & 30. júní 2023. Leikurinn við San Marínó liðið var í undanúrslitum. Breiðablik vann leikinn við San Marínó liðið 7:1 og spilaði því úrslitaleikinn gegn Budućnost Podgorica frá Svartfjallalandi. Blikar unnu leikinn gegn þeim 5:0 og tryggðu sér þar með sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar. Breiðablik mætti svo írsku meisturunum Shamrock Rovers í 1.umf í undankeppninni og strákarnir gerðu sér lítið fyrir og slógu þá írsku út með 0:1 sigri í Dublin og 2:1 sigri á Kópavogsvelli. Blikar mættu dönsku meisturunum FC Copenhagen í 2. umfeð. FCK vann báða leikina: 0:2 á Kópavogsvelli og 6:3 á Paken í Kaupmannahöfn.

 

Undankeppni - Evrópudeild

Blikaliðið tók þátt í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar og mætti þar Zrinjski frá Mostar í Bosníu-Hersegóvínu. Fyrri leikurinn í Mostar lauk með stórsigri heimamanna 6:2. Seinni leikurinn var á Kópavogsvelli og lauk með 1:0 sigri okkar manna. Zrinjiski vann einvígið samanlagt 6:3 en Breiðabliksliðið komið í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. 

 

Umspil (play-offs) - Sambandsdeild

Blikamenn mættu FC Struga frá N. Makedóníu í tveimur umspilsleikjum um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu tímabilið 2023/24. Fyrri leikinn gegn Struga, sem leikinn var á Biljanini Izvori vellinum Í Ohrid í N. Makedóníu 24. ágúst, unnum við  0:1. Seinni leikurinn fór fram á Kópavogsvelli viku síðar. Sá leikur vannst einnig 1:0 og Breiðablik þar með búið að trygga sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu keppnistímabilið 2023/24 sem leikmenn fögnuðu vel og innilega með stuðningsmönnum í stúkunni: 

Saga Blika í Evrópukeppnum

image

Karlalið Breiðabliks hefur tekið þátt í Evrópukeppnum í 9 ár af 13 mögulegum þar af 5 síðustu ár í röð - fyrst árið 2010. Leikurinn við Zorya Luhansk á Laugardalsvellinum á fimmtudaginn verður 39. Evrópuleikur Blikaliðsins frá upphafi. 

Þátttaka í Evrópumótum til þessa:

- Meistaradeild: 2023, 2011.

- Evrópudeild: 2023, 2020, 2019, 2016, 2013, 2010.

- Sambandsdeild: 2023, 2022, 2021.

Liðin sem Blikar hafa mætt í Evrópuleikjum:

2023 - Maccabi Tel Aviv - FC Struga - Zrinjski Mostar, FC Copenhagen, Shamrock Rovers, Buducnost Podgorica, Tre Penne.

2022 - Istanbul Basaksehir, Buducnost Podgorica, UE Santa Coloma.

2021 - Aberdeen, Austria Wien, Racing Union.

2020 - Rosenborg.

2019 - Vaduz.

2016 - Jelgava.

2013 - Aktobe, Sturm Graz, FC Santa Coloma.

2011 - Rosenborg.

2010 - Motherwell.

Samtals 38 leikir í 14 löndum - 17 sigrar, 5 jafntefli, 16 töp.

Flestir leikir í Evrópukeppnum:

2023: Í gangiSambandsdeild UEFA: Umspil. FC Struga. Evrópudeild UEFA. Undankeppni: 3 umf. Zrinjski Mostar. Meistaradeild UEFA. Undankeppni: 2.umf. F.C.Copenhagen. 1.umf. Shamrock Rovers. Forkeppni: undanúrslit - Tre Penne og úrslit - Buducnost Podgorica.

2022: Sambandsdeild UEFA. Undankeppni: 3.umf. Istanbul Basaksehir - 2.umf. Buducnost Podgorica - 1.umf. UE Santa Coloma.

2021: Sambandsdeild UEFA. Undankeppni: 3.umf. Aberdeen FC - 2.umf. Austria Wien - 1.umf. Racing Uion.

2013: Evrópudeild UEFA. Undankeppni: 3.umf. FC Aktobe - 2.umf. Sturm Graz - 1.umf. FC Santa Coloma.

Um andstæðinginn

image

Zorya Luhansk rekur sögu sína aftur til ársins 1908, en félagið í núverandi mynd var stofnað árið 1964 með sameiningu liða og varð snemma áberandi í gömlu Sovétríkjunum sem lið í fremstu röð. Zorya þýðir „sólarupprás“ á úkraínsku. Árið 1972 varð Zorya Luhansk fyrsta liðið til að sigra í efstu deild í gömlu Sovétríkjunum sem ekki var frá Rússlandi – og var það ekki lítið afrek. Liðið tók þátt í Evrópukeppninni árið eftir, fyrst úkraínskra liða.

Zorya Luhansk kemur frá borginni Luhansk í Úkraínu – en innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 hefur haft mikil áhrif á liðið eins og geta má nærri. Borgin Luhansk (400.000 íbúar) er í héraðinu Donbas í austurhluta Úkraínu – sem er einmitt sá hluti landsins/hérað sem rússnenski herinn ræður nú að stórum hluta. Þess má geta að frægasti sonur borgarinnar er án efa stangarstökkvarinn Sergey Bubka sem bætti heimsmetið í greininni ósjaldan. Það eru fylkin Donetsk og Luhansk sem mynda Donbas héraðið og í samnefndum höfuðborgum þeirra eru liðin Shakhtar Donetsk og Zorya Luhansk sem leika í úkraínsku deildinni. Þau leika ekki á sínum heimavöllum vegna ástandsins í landinu og Zorya leikur til dæmis í Lublin í Póllandi sína heimaleiki í Sambandsdeildinni. Í fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar gerði liðið jafntefli í Lublin við AA Gent frá Belgíu 1:1 sama dag og Breiðablik lék gegn Maccabi Tel Aviv í Ísrael.

Við hrun Sovétríkjanna árið 1991 tók Zorya sæti í úkraínsku deildinni þar sem liðið hefur leikið síðan. Gengi liðsins var framan af ekki neitt sérstakt en síðan árið 2014 hefur liðið ávallt verið í toppbaráttunni og þar af leiðandi þátttakandi í Evrópukeppnum, lengst af í Evrópudeildinni. 

Árangur Zorya í Evrópumótum UEFA

Alls hefur liðið leikið 50 leiki í Evrópukeppnum og mótherjar liðsins hafa verið margir í sterkari kantinum. Má þar nefna Manchester United, Feyenoord, Athletic Bilbao og fleiri. Árið 2021 komst liðið í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar þar sem mótherjarnir voru meðal annars AS Roma. Í ár tapaði liðið einvígi við Slavia Prag um sæti í Evrópudeildinni og lenti í riðli Breiðabliks í kjölfarið. 

image

Eins og áður segir gerði Zorya Luhansk jafntefli við AA Gent frá Belgíu í fyrstu umferðinni en gengi liðsins í úkraínsku deildinni hefur ekki verið gott í ár. Liðið er þar í næst neðsta sæti og má gera ráð fyrir að ytri aðstæður ráði þar miklu um.  Leikmennirnir eru nær allir heimamenn frá Úkraínu.  Þetta er áhugaverður andstæðingur og ljóst er að það verður hart barist á Laugardalsvellinum fimmtudaginn 5 október.

Breiðablikshópurinn

image

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

image

Dagskrá

Breiðablik og Zorya Luhansk.mætast á Laugardalsvelli í riðlakeppi Sambandsdeildar Evrópu 2023/24. Flautað verður til leiks fimmtudaginn 5. október kl.16:45!

Miðasala á leikinn á fimmtudaginn er hér: Breiðablik - Zorya Luhansk    

Hægt er að kaupa Mótsmiða á alla þrjá leiki Breiðabliks. Fyrsti heimaleikur í Sambandsdsdeildinni á Laugardalsvelli á fimmtudaginn. Með Breiðabliki í riðli eru FC Struga, Maccabi Tel Aviv og KAA Gent og gildir Mótsmiði á alla heimaleiki Breiðabliks í keppninni. Með kaupum á Mótsmiða fæst um 20% afsláttur af miðum í almennri miðasölu. Hægt er að kaupa miða í tveim verðflokkum. Miðakaupendur fá sömu sætin á alla þrjá leikina sem eru:

- Breiðablik – Zorya Luhansk  fimmtudaginn 5.október kl.16:45

- Breiðablik – KAA Gent  fimmtudaginn 9.nóvember kl.20:00

- Breiðablik – Maccabi Tel Aviv fimmtudaginn 30.nóvember kl.20:00

Einnig er hægt að kaupa VIP miða á alla 3 heimaleikina í mótsmiðasölu, verð fyrir VIP miða á alla 3 leikina er 30.000kr. Innifalið í VIP er aðgangur að betri stúku og aðgangur að sal fyrir leik og í hálfleik ásamt léttum veitingum.  

Stöð 2 Sport rás 5 sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. Útsending hefst kl.16:15!

Bein textalýsing UEFA hér. 

Dómarar eru frá Makedóníu. Aðaldómari: Aleksandar Stavrev. Aðstoðardómarar: Dejan Kostadinov og Kushtrim Lika. Fjórði dómari: Igor Stojchevski. Myndbandsherbergi: Harm Osmers og Franziska Wildfeuer frá Þýskalandi.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

image

image

Grafík: Halldór Halldórsson

Til baka