BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tímamótasigur hjá Breiðablik

19.07.2023 image

Það var sólskin og nokkur vindur þriðjudagskvöldið 18. júlí 2023 og það viðraði vel til knattspyrnuiðkunar. Breiðablik var að fara að spila á Kópavogsvelli. 

En þetta var ekki neinn venjulegur leikur.  Sennilega var í vændum mikilvægasti leikur félagsins í 73 ára sögu þess.  Eftir frábæra frammistöðu í forkeppni fyrir undankeppni Meistaradeildar UEFA voru andstæðingar írsku meistararnir Shamrock Rovers frá höfuðborginni Dublin í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu. Dublin hefur alið af sér marga magnaða jöfra í heimsmenningunni.  James Joyce, Oscar Wilde, U2 og Bono auk margra fleiri. Írsk knattspyrnulið hafa ekki verið mjög sigursæl i Evrópukeppnum en þó er Írland hærra skrifað en Ísland í útreikningum UEFA á styrkleika félagsliða.   Shamrock Rovers er sigursælasta knattspyrnulið Írlands.  20 sinnum orðið Írlandsmeistari, þar af síðustu 3 árin og eru efstir í írsku deildinni um þessar mundir. Liðið hefur tekið þátt í Evrópukeppnum óslitið frá árinu 2015 (og reglulega í marga áratugi) og náði að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar á síðasta ári.  Það hefur aldrei tekist hjá íslensku liði.  Fyrirfram bjuggust því flestir við að Shamrock myndi slá Breiðablik auðveldlega út. Blikarnir gerðu sér hinsvegar lítið fyrir og unnu  frækinn sigur á heimavelli Shamrock,  Tallaght Stadium fyrir framan 7.000 stuðningsmenn Shamrock og 70 stuðningsmenn Breiðabliks. Shamrock Rovers tapar helst ekki leik á heimavelli en það var Damir Muminovic sem þaggaði niður í stuðningsmönnum með stórkostlegu marki í fyrri hálfleik.  OWK skrifaði fínan pistil um þennan leik hér.  Þessi sigur var bæði óvæntur – en sanngjarn, þannig að menn voru farnir að láta sig dreyma um að komast í aðra umferð Meistardeildar UEFA. 

 Þetta var því seinni leikur liðanna en og það hafði hlaðist mikil spenna fyrir leikinn með stuðningsmanna Breiðabliks.  Sigurvegarinn úr þessu einvígi myndi fá það verkefni að leika við sennilega öflugasta lið Norðurlanda – FC Köbenhavn. Stórlið í evrópskum fótbolta.   Þjálfararnir og leikmenn (pistlahöfundur hitti þá að störfum á Símamótinu um helgina) voru hinsvegar alveg á jörðinni. Stuðningsmennirnir voru að pukrast með einhverja draumóra að „gaman væri að skella sér og sjá Blikana spila á Parken“ – en drógu í land þegar ímyndunaraflið var komið of langt.  Þetta gat eiginlega ekki verið að gerast. 

En að leiknum sjálfum.   Liðsuppstillingin kom ekki á óvart – en liðið var þannig skipað:

Ekki kannski margt sem kemur á óvart – nema að Kristinn Steindórsson er kannski ekki vanur að spila fremstur þó hann sé markhæstur Blika frá upphafi.  Andri Rafn Yeoman er að finna sig vel í bakverðinum – en við erum með sterka menn á bekknum í margar stöður. Lykilmenn höfðu fengið að hvíla sig í leiknum gegn Fram á föstudagskvöldinu og átti það eftir að skila sér í kvöld.

Það var mjög sérstök tilfinning að heyra Meistaradeildarlagið spilað þegar leikmenn gengu inn á völlinn. Félagið stækkaði einhvern veginn á alla kanta. 

Fyrstu mínúturnar pressaði Shamrock mikið á Blikana. Vörnin var þétt og Anton Ari öruggur í markinu. Útspilið virkaði vel. Á 12 mínútu fengu Blikar hornspyrnu, hún var frábærlega tekin eins og iðulega hjá Höskuldi fyrirliða. Beint á kollinn á Damir sem náði ekki að stýra boltanum í netið heldur framhjá markinu. Algert dauðafæri. Stuttu síðar er Alexander kominn í færi eftir frábæran undirbúning Viktors Karls. Breiðablik var að snúa leiknum sér í hag, knúið áfram af herkænsku Gísla,Viktors og Olivers á miðjunni og aðrir fylgdu með. 

Knattspyrna er íþrótt liðsheildarinnar.  En stundum taka einstaka leikmenn sig til og búa til verðmæti algerlega upp á eigin spýtur.  Jason Daði Svanþórsson gerði stórkostlegt mark með einleik frá miðju – enda enginn leikmaður á Íslandi sem getur gert viðlíka kúnstir á svæði á stærð við frímerki – eða kannski fyrsta dags umslag. Lék á nokkra varnarmenn og lagði boltann í hliðarnetið. Þvílíkur fögnuður sem átti sér stað í troðfullri stúkunni. 

Stuttu síðar á Gísli stórkostlega sendingu á Viktor Karl sem býr til dauðafæri fyrir Kristin en góður markvörður Shamrock náði að loka á hann.  Þarna voru 20 mínútur liðnar af leiknum og Breiðablik átti að vera búið að gera út um hann. 

Írarnir vöknuðu aðeins til lífsins aftur – en það voru Blikarnir sem áttu besta færið þegar Alexander komst í ákjósanlegt færi eftir gott uppspil hægra megin en markmaður andstæðinganna varði vel. Shamrock átti líka færi en Anton stóð vaktina vel – sem hann gerði í öllum leiknum.

Það var glaðværð í leikhléinu meðal stuðningsmanna – tveggja marka forysta í einvíginu en þetta var alls ekki komið í höfn. Einn ágætur maður maður fór að tala um ferð til Kaupmannahafnar – en viðkomandi fékk illt augnaráð og hann skipti um umræðuefni – fór að tala um nýja væntanlega stjórn Íslandsbanka og stöðuna í eldgosinu.  45 mínútur eftir ennþá.

Shamrock hóf seinni hálfleikinn eins og þann fyrri með miklum látum. Anton varði vel í tvígang og þeir voru líklegri fyrstu 10 mínúturnar.  Jason sleppur hinsvegar í gegn á 56 mínútu en markvörðurinn varði frábærlega frá honum. Blikar fengu hornspyrnu. Viktor og Höskuldur tóku hana stutt, léku sama leik og á skólalóðinni í Kársnesskóla í den. Höskuldur á frábæra fyrirgjöf sem reyndar endaði í markvinklinum. Stórkostlegt mark og staðan orðin 3-0 í einvíginu.  Það varð allt bókstaflega snarvitlaust í stúkunni Blikamegin.

Eðlilega færðust Blikar aftar á völlinn og Shamrock fékk ódýra vítaspyrnu eftir VAR yfirlegu á 64 mínútu og leikmaður nr 10 Graham Burke skoraði örugglega.  Sessunautur minn á leiknum Björn Bergsteinn Guðmundsson var með sterkar skoðanir á þeim leikmanni.  Hann taldi augljóst að hann ætti að fá Grímuna fyrir leiktilburði og fékk ófáar aukaspyrnur þar sem hann féll með miklum tilþrifum. Björn ætti að þekkja þennan vettvang vel – hefur fengið margar Grímur en hann er ljósameistari í Þjóðleikhúsinu og afar fær sem slíkur.

Eftir þetta sigldu Blikarnir sigrinum heim – og þegar sænski dómarinn flautaði leikinn af tók við fögnuður hjá stuðningsmönnum Breiðabliks, fölskvalausari en nokkru sinni fyrr. Oliver stýrði partýsöngnum að venju og gleðin var alltumlykjandi. 

Það er ósanngjarnt að taka einhvern leikmann sem stóð upp úr hjá Breiðablik í þessum leik. Allir áttu sinn virkilega góðan dag. Anton steig ekki feilspor í markinu. Vörnin var frábær. Viktor Örn og Damir eru að verða sterkasta miðvarðapar landsins og það er magnað að sjá hvað Viktor hefur vaxið sem varnarmaður og aldrei verið betri. Höskuldur var frábær og Andri Rafn er auðvitað sér kapítuli út af fyrir sig. Hann er lang leikjahæsti leikmaður Breiðabliks með 420 leiki.  Hann hefur verið á skýrslu í öllum Evrópuleikjum félagsins – 31 að tölu frá árinu 2010. Þetta er mögnuð tölfræði. Tekið þátt í öllum nema fjórum – og í gær barðist hann eins og ljón allan tímann og gaf ekkert eftir í hörku návígjum. Frábær fyrirmynd sem þessi geðþekki umhverfisverkfræðingur er.

Áður er minnst á miðjuleikmennina og Jason er magnaður. Kristinn stóð sig líka afar vel – sem og varamennirnir Davíð, Ágúst og Klæmint sem leystu sitt hlutverk vel. Það er gott að vita af þessari breidd – enda mun álagið verða gífurlegt á næstu vikum.

Vi er fyr og flamme – vi kommer med det samme

Eftir leikinn braust út mikill fögnuður og það opnuðust allar flóðgáttir í umræðu í þá veru að nú skyldi halda til Kaupmannahafnar og sjá Breiðablik spila gegn FC Köbenhavn í Parken.  Sá sem hafði haft sig í frammi í hálfleiknum vitnaði í Lars Himmelbjerg úr kvikmyndinni góðu „Með allt á hreinu“  og sagði hátt og snjallt: „Köbenhavn:  – Vi er fyr og flamme – Vi kommer med det samme“  

Fyrri leikurinn í einvíginu verður á Kópavogsvelli í næstu viku – þrðjudaginn 25. júlí.  En síðari leikurinn verður viku síðar, miðvikudaginn 2 ágúst í Kaupmannahöfn.  En það sem meira er – þessi sigur tryggir Breiðablik að lágmarki 6 leiki til viðbótar í Evrópukeppnum næstu vikurnar.  Þetta er gríðarlega góður árangur og tímamót hjá íslensku liði í Evrópukeppnunum.  Stórkostlegur sigur. Til hamingju strákar, við stuðningsmennirnir erum gríðarlega stoltir af ykkur. Sömuleiðis fylgja hamingjuóskir til Óskars þjálfara og liðsstjórnarinnar allrar. Það er ólýsanlega gaman að vera Bliki á stund sem þessari

Er Kópavogsvöllur boðlegur?

Það er einn lærdómur sem við getum dregið af kvöldinu.  Kópavogsvöllur er því miður of lítill til að vera boðlegur á þessu leiksviði sem Breiðablik er komið á.  Það þarf að hugsa allt Breiðablikssvæðið upp á nýtt.  Breiðablik er stærsta félag landsins og til að standast þær kröfur sem gerðar eru til árangurs liðsins þá þarf að uppfæra umgjörðina þannig að við getum verið þátttakendur á þeim standard sem við viljum vera.  Auðvitað var uppselt á leikinn og svo verður væntanlega á þeim leikjum sem framundan eru í Evrópukeppnunum. Mjög margir fengu ekki miða á völlinn og er það dapurlegt.  Nú þurfa allir hagsmunaaðilar sem málið snertir að setjast niður og marka stefnu um hvernig uppbyggingin á Breiðablikssvæðinu á að vera til framtíðar. 

En fyrst og fremst skulum við njóta þessa frábæra árangurs hjá liðinu – og við stuðningsmennirnir  ætlum að vera með í þeirri vegferð.

Áfram Breiðablik

-HG

Til baka