BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ferðabók, fótbolti og listin að stíga ekki á Strik

04.08.2023 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Það kom flatt upp á okkur tvo þegar við vorum beðnir um rita pistil um leik FCK og Breiðabliks á Parken. Beiðnin kom deginum áður en leikurinn fór fram og því lítill tími til ritæfinga og undirbúnings. Þrátt fyrir að tala gjarnan digurbarkalega og hljóma gáfulega þá höfum við ekki hundsvit á fótbolta og því fannst okkur augljóst að þarna væri verið að falast eftir ferðasögu, en ekki beittri analýsu á leik og taktík liðanna tveggja.

image

Greinarhöfundar: Fjalar Sigurðarson og Bjarni Hrafn Ingólfsson

En ef þið viljið heyra um stemmingu, Kaupamannahöfn og almenningssamgöngur, þá skuluð þið endilega lesa áfram.

Verðugur og spennandi andstæðingur

Sama hvernig er á það litið þá datt Breiðablik í lukkupott þegar ljóst varð að liðið ætti að mæta sjálfum risunum frá kóngsins Kaupinhafn, FCK í undankeppni meistaradeildar Evrópu. Sama hvernig færi í fyrri leiknum, þá yrði það alltaf stór stund að sjá liðið á þessum stóra velli og ekki verra að nátengdir Íslendingar væru í liðinu, það gerði þetta allt enn meló-dramatískara.

Til að fræðast nánar um hið fræga lið FCK og sögu þess er vert að benda á leikskýrslu fyrir leiki liðanna en þar er sögu FCK gerð góð skil. Breiðablik átti nokkuð marga öfluga og góða kafla í fyrri leiknum og þrátt fyrir eitt „gjafamark“ fór leikurinn ekki verr en raun bar vitni. Spenningurinn var því mikill og eftir leikinn heima fóru margir símar á loft til að panta flug og gistingu og greinilega stór hópur sem vildi upplifa léttleikandi Blika á hinum stórglæsilega og sögufræga velli Parken í gömlu höfuðborginni.

Spenningurinn fyrir leikinn á Parken var meira að segja svo mikill að þótt leikurinn ætti ekki að fara fram fyrr en í ágúst voru nokkrir áhangendur úr Kópavoginum mættir út til Kaupmannahafnar í júlí. Þar kom þó kannski til sú staðreynd að upphafleg dagsetning leiksins á Parken var 1. ágúst sem seinna breyttist í 2. ágúst. Veðrið í Kaupmannahöfn vikurnar á undan hafði verið óákveðið að sögn heimamanna, eins og guðirnir vissu aldrei alveg hvort þeir vildu láta sólina skína á réttláta og rangláta eða hvort hella ætti úr skálum skýjanna yfir borgarbúa. Niðurstaðan var einhver meðalvegur þar sem hlýr dagur með sólskini var annað veifið rofinn af smá skvettu sem þornaði samt fljótlega.

Að stíga ekki á Strik

Þeir sem þetta rita mættu snemma í borgina og stunduðu þar ákveðinn samkvæmisleik af mikilli list, en sá leikur nefnist „að stíga ekki á strik“. Réttara væri að rita það „ að stíga ekki á Strik“ því tilgangur leiksins er sá að vera ferðalangur og upplifa sem mest af borginni, án þess að stíga svo mikið sem litlu tá á Strikið. Galdurinn að góðri heimsókn til Köben hefst á því að sækja DOT-appið í símann, hvar hægt er að kaupa svokallaðan City-Pass í almenningssamgöngur borgarinnar. Þar er hægt að velja um gildistíma og svæði og er nóg að velja innri bæinn til þess að komast á alla helstu staði borgarinnar. Almenningsamsöngur borgarinnar hafa ávallt verið til fyrirmyndar en eftir tilkomu nýjustu neðanjarðarlínunnar M3 (og M4) þá eru ferðir innanbæjar jafn áreynslulitlar eins og að renna sér í smjöri. Þannig má fá skyndihugdettu á Ráðhústorginu, vera kominn upp í Frederiksberg Alle eftir örskamma stund og rölta um á „stjörnugangstétt“ Danmerkur fyrir framan hið fornfræga kaffihús Promenaden. Þar er hella tileinkuð hverjum leikara ársins allt fá árinu 1997 til 2022 og þar þekkja Íslendingar orðið vel flest nöfnin eins og Mads og Lars Mikkelsen bræður, Iben Hjelje, Ghita Nörby og Sidse Babett Knudsen, svo fáir séu nefndir. Svo má skjótast upp úr Metro á Gammel Strand og heilsa upp á fornfrægan son Íslands, sjálfan Thorvaldsen myndhöggvara en við hlið Kristjánsborgarhallar og Stórþingsins er athyglisverð og litrík bygging sem reist var utan um verk þessa stórkostlega listamanns með íslenska upprunann en vann sín stærstu afrek í Danmörku og fyrir danska þjóð. Það er einhver vísun fólgin í því!  En nóg um almenningssamgöngur, leikara og listamenn. Nú var mál málanna að sjálfsögðu fótbolti.

Grænkar í Kaupmannahöfn

Á leikdegi var veðrið bjart og fagurt og ekki laust við spenning í borginni. Blikar höfðu flestir hverjir mælt sér mót á rúmgóðum pöbb í miðbænum sem nefndist The Old Irish Pub. Gallinn við hann var sá að salernin höfðu séð betri daga og virtust niðurnídd – en kosturinn var sá að Carlsberg á krana kostaði einungis 20 kr. danskar sem telst gjöf en ekki gjald. (Eftir á að hyggja kunna að hafa verið tengsl á milli verðlags á bjór og ástandsins á salernunum.) Strax um klukkan fjögur var orðinn þétt setinn bekkurinn inni sem úti og stemmningin orðin mikil. Létt var yfir mannskapnum og greinilegt að þarna voru allir mættir með þann einbeitta vilja að hafa gaman af ferðinni og leiknum. Formaður knattspyrnudeildar, Flosi Eiríksson, átti dásamlegt gullkorn þegar hann mætti á svæðið og lýsti sínum spenningi fyrir leik Breiðabliks gegn KFC! Var þetta mismæli um FCK hugsanlega úthugsuð móðgun um að þar færu óttalegir kjúklingar eða var formaðurinn kannski bara svangur? Hver veit…

image

Þegar nær dró leik steig fulltrúi þjálfarateymisins á stokk og renndi yfir liðsskipan FCK annars vegar og Breiðabliks hins vegar. Til þess að blása mönnum keppnisanda í brjóst steig hinn ungi og öflugi Stefán, leiðtogi Kópacabana á svið og tók smá upphitun með mannskapnum. Old Irish Pub nötraði af kröftugum hrópum grænklæddra, kannski ekki í fyrsta sinn, nema nú voru þetta íslensk hróp og enginn St. Patrick nálægur, bara öflugur íþróttaandi Kópavogsdalsins sem sveif yfir vötnum.

M3 neðanjarðarlestin sem tekin var í notkun 2019 kom sér vel þegar um 200 grænklæddir Íslendingar renndu sér hratt og örugglega neðanjarðar frá Ráðhústorginu, fram hjá Gammel Strand, Kongens Nytorv, Marmorkirken og Österport til þess að flæða síðan „skipulega“ upp úr lestarstöðinni á Trianglen sem er nánast við hliðina á Parken. Íslensku stuðningsmennirnir höfðu fengið úthlutað svæði sem nefnist A11. Þegar til átti að taka var það efst og yst í aðalstúkunni og þótti mörgum nóg um tröppufjöldann á leiðinni upp og hæð yfir sjávarmáli þegar gengið var út í stúkuna. En þvílík gryfja sem Parken er! Þarna eru háar og brattar stúkur á alla fjóra kanta og mynda þvílíka veggi allt í kring um völlinn. Völlur á borð við Anfield virkar lágur og gisinn í samanburði við þessa stemmingu sem þarna myndast með arkítektúrnum einum saman.

Ekki minnkaði andaktin þegar hvítir og bláir stuðningsmenn FCK hófu sín hopp og takföstu hróp. Svo aftur sé gripið til líkingar við Anfield, þá eru stuðningsmenn Kop eins og fúlir nöldurseggir sem tuða ofan í kaffibollann, ef borið er sem saman við kraftinn í FCK stuðningsliðinu. (Þetta segjum við sem gallharðir Púllarar!) Menn, kunnugir staðháttum, segja að FCK séu duglegir að smala saman ungu og hressu fólki í stuðningsliðið, ekki endilega þeim sem mestan áhuga hafa á boltanum, heldur þeim sem treystandi er til að hrífast með, láta hátt í sér heyra og hafa úthald í að hoppa í 90 mínútur. Svo rammt kveður að hoppinu að iðulega þarf að hasta á fólk og stöðva hoppin þegar menn telja mannvirkjum ógnað af tíðninni! Sem dæmi eru FCK liðar núna í skammarkróknum í minnstu stúkunni til enda eftir að hafa verið settir í bann í stóru endastúkunni hinum megin.

Stefán í Kópacabana og aðrir gallharðir Blikar gerðu allt hvað þeir gátu til þess að láta rödd okkar heyrast á vellinum, en um 400 manns í Blikastúkunni máttu sín skiljanlega lítils gegn nær 20.000 manns sem klæddust hvítu og bláu.

Leikmenn Breiðablik létu þessar ógnvekjandi aðstæður samt ekki trufla sig teljandi því þeir byrjuðu af krafti og strax á 9. mínútu fengu stuðningsmenn Blika heldur betur tækifæri til að láta í sér heyra þegar Jason Daði Svanþórsson setti boltann í net heimamanna eftir stoðsendingu frá Oliver Sigurjónssyni.

Sama hvað mundi gerast eftir þetta, Breiðablik hafði skorað á Parken og það fyrsta mark leiksins. Þótti mörgum sem þarna væri að einhverju leyti hefnt fyrir 40 sekúndna skellinn í Kópavogi. Það heyrðist að minnsta kosti meira í þessum 2-300 í grænu fötunum en öllum hoppandi þúsundunum í bláu og hvítu sem voru reyndar steinhættir að hoppa. Hver veit nema þyngdaraflið og Breiðablik geti fengið FCK til að standa sem steinrunna?  Fyrstu 30 mínútur leiksins höfðum við sem horfðum á leikinn trú á því allt gæti verið að fara að gerast. Blikar ógnuðu sífellt og með ögn af heppni hefði staðan allt eins geta verið orðin 0-2. Heimamenn voru orðnir ögn pirraðir (þeir eru farnir að rífast!) og það voru undarleg göt í liðsskipan FCK.

Þá tók þjálfari FCK til þess að skipta um leikmann á 28. mínútu og taka út af veikasta hlekkinn í keðjunni. Sú sérstaka skipting hafði vissulega áhrif en hún hefði alls ekki þurft að hafa svona mikil áhrif. Á hræðilegum 4 mínútna kafla frá 33. mínútu til 37. mínútu fengu Blikar á sig 3 mörk í beit. Hvíti og blái veggurinn fór hamförum og sjá mátti vonbrigðatár á hvarmi í hæstu hæðum í stúku A11. Þetta var svo sárt eftir þessar frábæru fyrstu 30 mínútur. Til að strá salti í sárin endaði þjálfarasonurinn fyrri hálfleik á því að skora sitt fyrsta mark í leiknum. Þótt 3-1 liti illa út var 4-1 orðið að ansi stórum bita að kyngja. Heimamenn höfðu enda sótt mikinn styrk í þessi þrjú mörk og voru orðnir mun sprækari og sjálfsöruggari en fyrstu þrjátíu mínúturnar.

image

Í byrjun seinni hálfleiks kom í ljós að kraftaverkamaðurinn Elias Achouri, sem kom inn á 28. mínútu og skoraði annað mark FCK, hafði verið tekinn út af aftur eftir 15 mínútur, áður en hann gat sagt svo mikið sem „Ingi Björn Albertsson“!  Ekki vitum við hverjar ástæður þjálfari FCK hafði fyrir þessu en þetta kom ekki að neinni sök fyrir liðið því Orri nokkur Óskarsson var ennþá inni á vellinum. Eftir að hafa átt stoðsendingu í þriðja marki FCK og skorað það fjórða, gerði hann sér lítið fyrir og bætti tveimur mörkum við sinn reikning á 47. mínútu og þeirri 56.

Gleði heimamanna var þó ekki fölskvalaus  því Blikar áttu sín augnablik sem gleymast ekki. Þegar Kristinn Steindórsson skoraði eftir stoðsendingu frá Andra Rafni varð allt vitlaust í A11. Það skipti nákvæmlega engu máli þótt staðan væri 5-2 og 7-2 að samanlögðu – þessi mörk Kidda og Jasons Daða voru skoruð og verða ekki af okkur (eða þeim sem sagt) tekin. Það hlýtur að vera stórkostlegt augnablik fyrir knattspyrnumann frá Íslandi að setja mark á Parken, það gegn FCK og í sjálfri Meistaradeild Evrópu! Því fögnuðu stuðningsmenn Blika enda hátt og vel.

Hápunkturinn í seinni hálfleik kom síðan, að mörgum öðrum augnablikum ólöstuðum, á 75. mínútu.  Höskuldur Gunnlaugsson sýndi þá enn og sannaði hvers konar snillingur hann er í aukaspyrnum. Hárbeitt og hárnákvæmt hjá hárprúðum hægri bakverði! (Svona mörkum er bara ekki hægt að gera skil nema með hroðalegri ofstuðlun!) Og er þá varla hægt að lýsa því hversu kátt var í A11 þegar aukaspyrnan söng í netinu og markvörður FCK vissi ekki hvort hann var að koma eða fara.

Þegar dómarinn flautaði til leiksloka var nokkuð stórt tap í heildina orðin staðreynd. En við vitum ekki til þess að einn einasti áhangandi Blika sem lagði á sig þessa ferð sjái eftir einu augnabliki af þessari upplifun. Þetta kvöld var töfrum líkast, völlurinn, andstæðingurinn og Meistaradeild Evrópu eru samsetning sem menn muna.

Við erum orðin vön því að Breiðablik stefni hátt og þannig á það að vera. Það felst engin minnimáttarkennd í því að sætta sig við tap gegn firnasterku liði á borð við FCK og það telst heldur ekki óraunsætt að á góðum dögum gæti Breiðablik náð að sigra. (Undirritaðir höfðu það reyndar í flimtingum í leikslok að í þessum leik hefðu Íslendingar gert 6 mörk og Danir 3. Einn Íslendingurinn hefði bara verið í röngu liði.)

Ævintýrin gerast enn og það höfum við séð bæði hjá Breiðablik og öðrum liðum sem ná lengra en nokkurn óraði fyrir. Sjáið bara vinabæ Kópavogs í Færeyjum, Klakksvík, sem gerði sér lítið fyrir og sló út sjálfa sænsku meistarana í Häcken! Grænir Blikar mættu færeyskum bláum á flugvellinum og óskuðu þeim innilega til hamingju.

Ferðalagi Breiðabliks í Evrópu er ekki lokið á þessu tímabili og við bíðum spennt eftir sigursælu framhaldi á næstu vikum. Áfram Breiðablik!

Sagan um 14-2 og búningana

Fyrir tæpum sextíu árum síðan, árið 1967 var faðir annars ritaranna; Sigurður Grétar Guðmundsson, á ferð í Kaupmannahöfn sem liðs- og fararstjóri með ungt knattspyrnulið Breiðabliks sem hafði verið að keppa í borginni um svipað leyti og hinn sorglegi og sögufrægi 14-2 leikur landsliðsins fór þar fram. Þegar Sigurður Grétar mætti í þvottahús með græna og sveitta búninga til þrifa var spurt af forvitni hvaðan þetta lið væri. Þegar svarað var „frá Íslandi“ kom grínaktug spurning með stóru og breiðu glotti: Er det måske landsholdet? Liðstjórinn svaraði hraustlega: „Nej, det er ikke landsholdet, vi er meget bedre. Vi heder Breiðablik!“

image

Grafík: Halldór Halldórsson

Til baka