BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - Fylkir

09.06.2021 image

Loksins rúllar Pepsi MAX deildin 2021 aftur af stað eftir landsleikjahlé. Þar var okkar maður Gísli Eyjólfssion þáttakandi. Við óskum honum að sjálfsögðu með þessa tvo landsleiki, gegn Mexíkó og Póllandi. Gísli er fullbólusettur og því tilbúinn í slaginn gegn Fylki á laugardaginn. 

Áttunda umferð Pepsi MAX karla 2021 verður leikinn um helgina og á miðvikudaginn. Á laugardaginn fáum við Fylkismenn í heimsókn á Kópavogsvöll.

Flautað verður til leiks kl.14:00! Leikurinn verður sýndur í beinni á stöð2.is

Svona lítur stöðutaflan út eftir 7 umferðir - leik Blika í 7. umferð gegn KA fyrir norðan hefur verið frestað til 29. júlí.

image

Sagan

Leikurinn á laugardaginn er 63. mótsleikur Blikamanna gegn Fylki frá fyrsta leik liðanna árið 1978. Blikamenn hafa yfirhöndina með 32 sigra gegn 16 sigrum gestanna. Jafnteflin er 13.

Það stefnir í markaleik ef tekið er mið af úrslitum í mótsleikjum liðanna undanfarin ár. Úrslit mótsleikja undanfarin tvo ár hafa verið 4:1, 4:3, 4:2 og 4:3.

Síðustu 5 á Kópavogsvelli

Leikmenn

Þrír leikmenn í núverandi liði Fylkismanna  hafa spilað í grænu treyjunni. Arnór Gauti Ragnarsson á 36 mótsleiki og 9 mörk að baki með Breiðabliki á árunum 2015-2019. Arnór leikur núna, sem lánsmaður frá Fylki, hjá uppeldisfélaginu Aftureldingu. Markvörður Árbæjarliðsins, Aron Snær Friðriksson, var í okkur röðum árin 2015 og 2016 en flutti sig í Árbæinn fyrir keppnistímabilið 2017. Og Arnar Sveinn Geirsson á 16 leiki að baki með Breiðabliki á árunum 2019 og 2020. 

Leikmannahópur Breiðabliks 2021:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 8. umferðar er Kópavogsbúum að góðu kunn. Enda segist hún sjálf vera Bliki númer eitt. Það er þó óljóst hvort það eigi við nokkur rök að styðjast lengur. Hún er Kópavogsbúi (og þá erum við að tala um 200 Kópavogur) fram í fingurgóma og á tæpum 58 árum hefur hún samtals eytt 18 mánuðum með lögheimili utan Kópavogs. Hún hefur verið sæmd heiðurstitlinum Gullbliki (2020), Silfurbliki (1997) og fékk félagsmálabikar Breiðabliks (1996). Við erum að tala um Ingó, Ingibjörgu Hinriksdóttur, sem var uppá sitt besta undir lok síðustu aldar en eftir því sem árin hafa skollið á henni hefur áherslan færst frá Select fótbolta yfir á Callaway Supersoft golfbolta. En áhuginn er alltaf til staðar og ástríðan fyrir Breiðabliki ótæmandi. Við fengum Ingó til að spá fyrir um leikinn gegn Fylki í 8. umferð.  

Ingó hvernig fer leikurinn? 

Þetta er spurning þar sem réttast er að hafa almennilega tónlist undir og þá kemur ekkert annað en Hr. Hnetusmjör og Eitt fyrir klúbbinn!  Ertu inni eða úti? Breiða, Breiða, Breiða, blik, blik, blik! Ég er Breiðablik 😊

Úrslitin - Við vinnum – engin spurning.  

Strákarnir okkar eru að koma sér á beinu brautina eftir snúna byrjun sem má segja að hafi verið eðlileg eftir það sjokk að vera spáð titlinum.  

Fylkismenn hafa ekki verið að ríða feitum hestum frá sínum leikjum undanfarið og þeir munu klárlega reyna hvað þeir geta til að stoppa okkar menn með truntuskap en fimir og léttleikandi Blikar munu verjast og slá í sína klára.  

Blikar byrja leikinn af krafti og ef Óskar hefur rænu á að láta Alexander Helga byrja inn á þá mun hann taka góða rispu og skella í eitt stórglæsilegt mark áður en korter verður liðið af leiknum. Fylkismenn munu sækja þétt eftir markið en okkar öflugasti  maður Damir Muminovic stoppar allar sóknir þeirra í fæðingu – Damir ber höfuð og herðar yfir alla varnarmenn á Íslandi og er ekki amalegt að eiga hann í okkar vopnabúri (e. Arsenal).  

Í seinni hálfleik munu okkar menn taka öll völd á vellinum, Árni Vill, Kiddi Steindórs og Höski munu setja sitt markið hver áður en dómarinn flautar til leiksloka. Já 4-0 verður niðurstaðan, okkar mönnum í vil og í klefanum eftir leikinn tekur Freddie Mercury og vinir hans í Queen lagið Don‘t stop me now!  

image

SpáBliki 8. umferðar er Ingibjörg Hinriksdóttir

Dagskrá

Kópavogsvöllur getur tekið á móti 1100 gestum í þremur hólfum í aðalstúkunni og einu hólfi í gömlu stúkunni.

Miðaverð: Fullorðnir 2.000kr, Börn fædd 2005-2014 500kr, börn fædd 2015 og yngri frítt. 

Blikaborgararnir verða á sínum stað í sjoppunni.

Við minnum á að það er grímuskylda á þessum viðburði.

Miðasala á Tix.is

image

Fimm mörk voru skoruð þegar Fylkismenn mættu á Kópavogsvöll í fyrra. Þetta reyndist síðasti leikur liðanna í Pepsi Max 2020:

Til baka