BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Árbæjardraugurinn er lífsseigur

02.09.2019

Það var ekki fyrir taugaveiklaða né hjartveika að fylgjast með lokamínútum leiks Blika og Fylkis í Pepsi MAX deild karla í gær. Eftir að okkar drengir höfðu yfirspilað Árbæjarliðið nánast allan leikinn og komist í 4:0 hikstaði Blikavélin heldur betur. Skiptingar, vafasamt rautt spjald og taugatitringur var næstum því búið að kosta okkur stigin þrjú.

En sem betur fer héldum við það út og 4:3 sigur staðreynd!

Leikskýrsla KSÍ       Úrslit.net

Liðsuppstilling

Í umfjöllun um fyrri viðureign þessara liða á Kópavogsvelli í sumar sögðum við frá Sigurði Arasyni bónda í Árbæ sem var tekinn af lífi í Kópavogi árið 1704. Honum var gefið að sök af hafa myrt Sæmund Þórarinsson, nágranna sinn, að áeggjan Steinunnar konu hans. Sigurður var hálshöggvinn en Steinunni var drekkt í Kópavogsllæknum. Fornminjarannsóknir hafa leitt í ljós að höfuðið á Sigurði var ekki grafið með skrokknum heldur dysjað ekki langt frá. Það var gert til að Sigurður myndi ekki ganga aftur og ofsækja þá sem báru ábyrgð á þessum dómi.

En engu var líkara en Sigurður heitinn hefði snúið á böðla sína og snúið aftur undir lok leiksins í gær. Blikastrákarnir voru ekki líkir sjálfum sér eftir að hafa átt frábæran leik í um 65 mínútur.  Þetta ástand er þekkt í mörgum íslenskum draugasögum þar sem fólk lýsir því að það eigi erfitt með andardrátt og óskiljanlegur doði leiðir út í útlimi. Það er því nokkuð ljóst að Sigurður Árbæjarmóri lagði leið sína á Kópavogsvöll í gær til að aðstoða sitt lið. En sem betur dugði það ekki til! Hins vegar er kominn tími til að við særum þennan Árbæjarmóra aftur niður í jörðina því þetta er allt of erfitt fyrir dauðlega menn að fylgjast með svona leik.

Það var þó einn maður sem Árbæjarmóra tókst ekki að ná heljataki á. Það var snillingurinn Andri Rafn Yeoman. Oft hefur hann yljað áhorfendum með snilli sinni en í gær héldu honum engin bönd. Bæði skoraði hann glæsilegt mark og svo var hann eins og hvirfilbylur um allan völl. Blikamenn völdu hann mann leiksins.

Myndaveisla í boði BlikarTV

Reyndar voru margir leikmenn að spila mjög vel lungan af leiknum. Höskuldur vex með hverjum leik og er smám saman að nálgast sitt besta form. Mark hans var líka algjört augnakonfekt. Thomas Mikkelsen skorði geggjað mark og er nú orðinn markahæstur í deildinni með 12 mörk. ,,Sænska“ ungstirnið Alfons Sampsted var eins og hraðlest upp og niður kantinn og skoraði fyrsta meistaraflokksmark sitt fyrir Blika eftir frábæran undirbúning Brynjólfs Willumssonar.

Öll mörkin úr leiknum í boði Visir.is/sjónvarp

Í raun var allt Blikaliðið að spila snilldarbolta bolta þar til Elfari Frey og Guðjóni Pétri var skipt út af. Elfar Freyr var búinn að halda Castillion sóknartrölli Fylkismanni algjörlega í skefjum en svo var fjandinn laus þegar Árbæingurinn var laus í heljargreipum Kársnesingsins.

Það er áhyggjuefni hver Blikaliðið virtist missa einbeitingu við þessi skipti. Ekki er þó við strákana að sakast sem komu inn á því þeir voru að leggja sig fram. En rauða spjaldið á Viktor Örn spilaði þar stóra rullu og er sérkapítuli út af fyrir sig. Fylkismaðurinn bakkar af ruddalega inn í hann og gefur honum olnbogaskot. Það eru eðlileg viðbrögð að ýta mönnum frá sér eftir slíkar trakteringar. Dómarinn sér hins vegar ekkert athugavert við fólskuverk Árbæingsins og gefur okkar kurteisasta manni rautt spjald og dæmir víti eftir ábendingu fjórða dómara langt fyrir utan völl.

Pepsi Max-mörkin: Örlagaríkar skiptingar Blika og umdeilt rautt spjal. Sjá má umræðuna, rauða spjaldið og mörkin í innslaginu hér.

Lukkudísirnir voru hins vegar með okkur í liði og sáu til þess að stigin þrjú urðu eftir í Kópavogi þrátt fyrir aðstoð frá lifendum og dauðum. Við höldum því enn í vonina að Íslandsmeistaratitillinn endi í Kópavogi. Baráttan milli góðs og ills er ekki búin fyrr en feita konan syngur eins og í öllum góðum óperum. Vonandi verður lokaarían í Kópavogi gegn KR laugardaginn 28. september jafn dramatísk og lokasenan í Töfraflautunni eftir Mozart. Sjá hér

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar alveg fram á síðasta keppnisdag!

-AP

Umfjallanir netmiðla,

Thomas og Höskuldur skoruðu báðir. 

Til baka