BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – Fylkir í PEPSI miðvikudaginn 3. ágúst kl. 19:15

02.08.2016

Leikur Breiðabliks og Fylkis í PEPSI-deild karla​ á miðvikudagskvöldið á Kópavogsvelli verður 52. viðureign liðanna í opinberri keppni og 28. viðureign liðanna í efstu deild. Leikurinn er þriðji leikur liðanna á þessu ári. Fyrsti leikur Blika í Lengjubikarnum 2016 var gegn Fylki. Og fyrri leik liðanna í PEPSI-deildinni í Árbænum í byrjun maí lauk með 1-2 sigri okkar manna. Það voru Arnþór Ari Atlason og Damir Muminovic sem skoruðu. 

Heilt yfir hafa liðin mæst 51 sinnum í opinberum leikjum. Blikar hafa sigrað 26 sinnum, Fylkir 13 sinnum og 12 sinnum hefur orðið jafntefli. Liðin hafa verið mjög iðin við að gera jafntefli undanfarin ár því réttur helmingur jafnteflanna, frá því liðin mættust fyrst árið 1978, er niðurstaðan undanfarin 4 ár: Tvö jafntefli í fyrra, tvö jafntefli 2014 og tvö jafntefli 2012. Félögin hafa mæst 27 sinnum í efstu deild, fyrst árið 1996. Blikar hafa unnið 12 leiki, Fylkir 8 og 7 leikir hafa endað með jafntefli. Markaskorun er 77 mörk sem skiptist þannig að Fylkir hefur skorað 39 mörk gegn 38 mörkum Blika. 

Heimavöllurinn er liðunum ekkert sérlega hliðhollur því samkvæmt tölfræðinni eru Blikar mikið líklegri til að ná hagstæðum úrslitum í Árbænum en á Kópavogsvelli - Blikar hafa ekki tapað deildarleik í Árbænum síðan árið 2000. En það er árangur okkar á Kópavogsvelli sem þarf að breytast - við höfum ekki unnið Fylkismenn á Kópavogsvelli síðan 22. maí 2011! Í fyrra unnu Fylkismenn 0-1 sigur á Kópavogsvelli. Heimaleiknum árið 2014 lauk með 2-2 jafntefli. Árið 2013 töpuðum við leiknum á Kópavogsvelli stórt 1-4. Og leikurinn árið 2012  endaði með 1-1 jafntefli. Árin 2009 til 2011 höfðu Blikar hins vegar góð tök á Fylkismönnum og unnu alla leikina á Kópavogsvelli nokkuð sannfærandi.

Stuðningur áhorfenda skiptir miklu máli.  Kópacabana hópurinn lét vel heyra í sér í Ólafsvík í síðasta leik og ætlar að fjölmenna á leikinn.

Heyrst hefur að von sé á öflugum stuðningi á miðvikudaginn af frægum einstaklingum en það verður auglýst sérstaklega.​

Það verður því hart barist innan vallar sem utan á Kópavogsvelli þegar flautað verður til leiks klukkan 19.15 á miðvikudaginn.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka