Mikilvægt í Mostar!
08.08.2025


Í gamla íslenska ævintýrinu um Búkollu og strákinn segir frá baráttu sveitapilts og belju við ógurlega tröllskessu. Í einni frægustu setningu sögunnar segir Búkolla við drenginn „Taktu hár úr hala mínum og leggðu það á jörðina“. Bætti svo við „Legg ég á og mæli ég um að þú verðir að svo stóru fjalli sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi.“ Varð þá hárið að svo háu fjalli að karlsson sá ekki nema upp í heiðan himininn. Segja má að varnarveggur Blikaliðsins hafi verið þetta háa fjall sem Bosníumennirnir komust aldrei almennilega yfir. Niðurstaðan var 1:1 jafntefli sem lofar góðu fyrir seinni leikinn í Kópavogi á fimmtudaginn kemur. Þar verða allir sannir Blikar að mæta!
Í frábærum pistli PMÓ frá fyrri leik þessara liða í Bosníu árið 2023 (hvers úrslit við ákveðum ekki að nefna) er fjallað um sögu borgarinnar og hvernig ákveðin brú í Mostar hefur táknræna merkingu fyrir borgarbúa. Mostari á serbó-króatísku þýðir sá sem gætir brúarinnar. Á margan hátt má segja að Blikar hafi lagt liðsrútunni við brúna ( eða fjallið ef við vísum í ævintýrið góða) og varið það vígi með kjafti og klóm.
Hrósa verður öllu Blikaliðinu og þjálfarateymi þess fyrir vel útfært leikskipulag. Öllum hugmyndum um léttleika og ,,finesse“ var varpað út í hafsauga og allt gert til að ná í hagstæð úrslit. Það er eina vitið þegar svona mikið er í húfi! Stillt var upp í fimm manna varnarlínu þar sem Damir, Viktor Örn, Kiddi Jóns og Valgeir stönguðu og spörkuðu öllu í burtu með gríðarlegri elju. Fyrir framan þá hlupu menn úr sér lungun í næstum því 30 stiga hita og raka. Þvílík frammistaða! Zrinjskipiltarnir léku knettinum fram og aftur en fundu enga glufu á þessum ókleyfa múr sem þeir grænklæddu höfu reist.
Auðvitað var smá heppni með okkur í liði í þessum leik. En eins og pistlahöfundur sagði í síðustu umfjöllun þá skapa menn sér sína eigin heppni! Endurtekin vítaspyrna færði okkur forystu í leiknum. Danska dýnamítið Tobias Thomsen kom knettinum í mark heimapilta í þriðju tilraun. Smá einbeitingarleysi í seinni hálfleik varð hins vegar til þess að Ágúst Orri skriplaði á skötu og var óheppinn að fá dæmda á sig vítaspyrnu. En í heildina var þetta mjög gott hjá okkar piltum. Ekki má til dæmis gleyma því að undir lok leiksins varði snillingurinn Anton Ari gríðarleg vel frá einum Bosníumanninum þegar hann komst óvænt í vænlegt skotfæri. Það voru því þreyttir og sælir Kópavogsdrengir sem gengu út af leiknum í Mostar í gærkvöldi.
En ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið! Seinni leikurinn er eftir og þar verður ekkert gefið eftir. Ef við hins vegar vísum aftur í Búkolluævintýrið góða þá muna flestir Íslendingar eftir því hvernig það endaði. Skessan boraði gat á fjallið, en varð of bráð á sér þegar hún sá í gegn, og tróð sér inn í gatið, en það var of þröngt svo hún stóð þar föst og varð loks að steini í gatinu og er þar enn. Við þurfum öll að sjá til þess að Bosníuskessan sitji fast í gatinu og það gerum við með því að mæta með hávaða og læti á Kópavogsvöll fimmtudaginn 14. ágúst kl.17.30!
AP