BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þeir gættu brúarinnar

10.08.2023 image

Þegar maður röltir um miðborg Mostar, svo ekki sé minnst á það þegar farið er í gamla hverfið frá tímum Ottómanveldisins og þaðan yfir brúna frægu fer ekki hjá því að hugurinn leiti aftur til þess tíma þegar Júgóslavía liðaðist í sundur og þjóðir á Balkanskaga háðu hatrammt stríð – Bosníu-stríðið. Í stein við brúna hefur verið höggvið: DON‘T FORGET ’93 en þann 9. nóvember það ár var brúin sprengd í tætlur. Ottómanveldið byggði brúna yfir ána Neretva á 16.öld og var hún talin vera glæsilegt dæmi um byggingarlist múslima á Balkanskaga. Most á serbó-króatísku merkir brú. Mostari þýðir þeir sem gæta brúarinnar og af því dregur borgin nafn sitt. 

image

Brúin hafði öldum saman verið tákn um umburðarlyndi og friðsæla sambúð mismunandi þjóðarbrota. Þarna við brúna bjuggu saman í sátt og samlyndi Serbar, Króatar og íslamskir Bosníu-menn. Af þeim sökum lögðu hinar stríðandi fylkingar svo mikla áherslu á að ná borginni á sitt vald í hildarleiknum mikla þegar þjóðir gömlu Júgóslavíu bárust á banaspjót. Brúin hefur nú verið endurreist, meðal annars með því að hífa brot úr upprunalegu brúnni upp úr ánni. Talið er að um 100.000 manns hafi látið lífið í átökunum í Bosníu.

image

Verstu fjöldamorð í Evrópu frá lokum seinna heimsstyrjaldar voru framin í Srebrenica í Bosníu sumarið 1995 en þá myrtu Serbar um sjö þúsund múslimska karlmenn í bæ sem átti að njóta verndar Sameinuðu þjóðanna.

Lið Luka Modric

Í byrjunarliði Mostar Zrinjskí í leiknum við Blika í undankeppni Evrópudeildar UEFA var aðeins einn Serbi.

Nú gæti einhver haldið að tíðindamaður Blikar.is hafi ferðast með liðinu í leikinn mikilvæga á Balkanskaganum, rölt með þeim um miðborgina og sagt þeim eitt og annað um sögu lands og þjóðar. Svo er ekki. Hann fór í könnunarferð til borgarinnar fyrir fáeinum árum og sá hvar sundurskotnar byggingar bíða þess að vera endurreistar, kúlnaför afmáð af veggjum húsa – með öðrum orðum: uppbyggingunni var á þeim tíma fjarri því lokið. Afleiðingar stríðsins blöstu hvarvetna við. 

Þrátt fyrir 26 stiga hita á vellinum og 41% raka gátu Blikar ekki vænst þess að lið heimamanna tæki þá einhverjum vettlingatökum. Luka Modric sem var eitt tímabil hjá Mostar Zrinjskí fyrir nákvæmlega tuttugu árum sagði síðar að sá sem hefði leikið í bosnísku deildinni gæti spilað hvar sem er.

Hinn júgóslavneski bræðslupottur

En þá er kannski rétt að snúa sér að því sem máli skiptir – knattspyrnunni. Lið okkar manna sem gekk inn á völlinn í Mostar var þannig skipað:

Á Balkanskaganum er knattspyrna ekkert gamanmál eins og bosnísk-serbneski rithöfundurinn Sasa Stanisic lýsir eftirminnilega í skáldævisögu sinni Uppruni. Þar skrifar hann meðal annars um það þegar hann ekur með föður sínum yfir hálfa Júgóslavíu til Belgrad (í Serbíu) á leik Rauðu stjörnunnar á móti Bayern München í undanúrslitum Evrópukeppni meistaraliða:

„Á meðan landið var til leit ég á mig sem Júgóslava. Eins og foreldrar mínir sem voru úr serbneskri (faðirinn) og bosnísk-múslímskri fjölskyldu (móðirin). Ég var barn fjölþjóðaríkisins, afrakstur og játning tveggja manneskja sem löðuðust hvor að annarri og hinn júgóslavneski bræðslupottur hafði frelsað undan hömlum ólíks uppruna og trúar,“ skrifar Sasa. 

Hjólbeinóttasti maður alheimsins

Lið Rauðu stjörnunnar í leiknum fræga var skipað Svartfellingum, Serbum, Króötum, sumir áttu serbneska móður og króatískan föður, þarna var Makedóníumaður, Bosníumaður („hjólbeinóttasti maður alheimsins“) osfrv.

„Þvílíkt lið! Annað eins verður aldrei framar mögulegt á Balkanskaganum. Eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur urðu í hverju ríki til nýjar deildir með slakari lið, bestu leikmennirnir fara núorðið ungir til útlanda.“ 

Þegar Rauða stjarnan jafnaði 2-2 og var að tryggja sig í úrslitaleikinn varð allt vitlaust á pöllunum: 

„Þegar þarna var komið sögu – þetta var á nítugustu mínútu – stóðu allir, öll stúkan stóð, kannski stóð meira að segja allt landið í síðasta sinn með einhverju.“ 

Tveimur mánuðum síðar kviknaði bálið á Balkanskaganum sem átti eftir að loga næstu ár með hroðalegum afleiðingum.

Of mikill uppbótartími

En sem sagt. Knattspyrna er ekkert gamanmál í ríkjum fyrrum Júgóslavíu. Sasa Stanisic sýndi það meira að segja sjálfur (því miður!) í leik útgefenda og rifhöfunda á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík fyrir tveimur árum. En í kvöld gengu inn á völlinn undir merkjum Mostar Zrinjskí sjö Króatar, þrír Bosníumenn og einn Serbi. Þéttir að baki þeim stóðu stuðningsmennirnir, Ultras, og sungu og trölluðu allan leikinn.

Það er skemmst frá því að segja að leikurinn byrjaði ekki vel fyrir gestina. Þegar 1.53 stóð á klukkunni var staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn. Þeir höfðu góð tök á leiknum en okkar menn voru kannski heldur hjálplegir við þá. Anton Ari átti vonda sendingu sem gaf heimamanni færi á að skjóta í slá á 20. mínútu sem endaði í horni og upp úr því kom annað markið. Níu mínútum síðar var vandræðagangur við vítateigslínu okkar manna sem endaði með skoti og marki og staðan orðin 3-0. Eins og okkar menn hefðu ekki þolað nóg þá bættist seinna gula spjaldið hjá Viktori Karli við og Blikar einum færri. Þá liðu tvær mínútur og staðan orðin 4-0 og á 39. mínútu bættist fimmta markið við. Dómarinn bætti við fjórum mínútum við venjulegan leiktíma sem mörgum fannst óþarft, enda lítið að gerast hjá okkar mönnum, t.d. áttu þeir ekkert skot á markið og fengu ekkert horn í fyrri hálfleik.

Landið rís

Heimamenn héldu áfram í upphafi síðar hálfleiks þar sem frá var horfið og eftir tíu mínútur var staðan orðin 6-0. En þá var eins og Breiðabliksliðið eins og við þekkjum það mætti til leiks. Á 63. mínútu prjónuðu okkar menn sig í gegnum vörnina og Anton Logi vippaði snyrtilega yfir markmanninn. 6-1 er strax miklu skárra en 6-0.

Fimm mínútum síðar var Ágúst Eðvald á leið í gegn en var stöðvaður með ólöglegum hætti. Þá kom fyrsta hornspyrna okkar manna og við það skapaðist mikill darraðardans í teignum sem lauk með bakfallsspyrnu Olivers sem var varin. Á 74. mínútu átti Klæmint, sem kom inn á í hálfleik, glæsilega sendingu á Gísla sem braust fram hjá teimur og lúðraði boltanum í vinkilinn. 6-2 og landið heldur betur tekið að rísa aftur.

Það sem eftir lifði leiks áttu okkar menn nokkrar hættulegar sóknir – heimamenn að vísu líka – en síðasti hálftíminn vakti vonir um framhaldið. Það er mun skárra að fara heim fjórum mörkum undir en sex. „Þeir sem gæta brúarinnar“ vörðu svo sannarlega vígið í Mostar kvöld. En við eigum líka okkar vígi í Smáranum. Sasa Stanisic sá hvernig Rauðu stjörnunni tókst hið ómögulega, að leggja Bayern München að velli í undaúrslitum Evrópukeppninnar fyrir rúmum þrjátíu árum. Hví skyldu okkar menn ekki vera færir um eitthvað slíkt á Kópavogsvelli fimmtudaginn 17. ágúst? Fyrir leikinn höfðu liðin náð jafn góðum árangri í Evrópukeppnum. Nú þurfum við að ná þeim aftur. En fyrst eru það KA-menn fyrir norðan á sunnudaginn í Bestu deildinni. 

PMÓ

Til baka