BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grjóthart gegn Gróttu

24.02.2024 image

Blikarstrákarnir unnu öruggan 0:5 sigur gegn Gróttu í Lengjubikarnum á Vivaldivellinum í gærkvöldi. Eins og staðan gefur til kynna þá var sigurinn aldrei í hættu. Ungt Gróttulið barðist vel í leiknum en átti aldrei möguleika gegn sterku Blikaliði. Það voru þeir Kristinn Steindórsson (2), Damir Muminovic, Arnór Gauti Jónsson og Dagur Fjeldsted sem settu mörkin fyrir okkur að þessu sinni.

Að vanda var nokkkur útsynningur á Gróttunni en leikmenn létu það ekki á sig fá. Góð barátta var í leiknum og gáfu menn sig allir í verkefnið. Kiddi Steindórs var funheitur í fyrri hálfleik og setti tvo kvikindi.  Í síðari hálfleik skoraði Damir gullfallegt skallamark, Dagur virðist ekki geta hætt að skora og setti knöttinn í netið eftir að hafa sólað bláklædda Gróttumenn upp úr skónum. Og síðan skoraði Arnór Gauti sitt fyrsta keppnismark fyrir Blikaliðið. Fyrir áhugamenn um ættfræði þá er Arnór Gauti í langfeðratalið kominn af miklum Blikum. Afi hans Ríkharður Jónsson lék 103 leiki fyrir Breiðablik á árunum 1968-1975 og skoraði í þeim 9 mörk. Sjá nánar hér.

Næsti leikur Blikaliðsins er gegn nýliðum Vestra og verður sá leikur á Kópavogsvelli sunnudaginn 3. mars kl.12.00. Þar mæta allir sannir Blikar!

-AP

Til baka