BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Lengjubikarinn 2024: Grótta - Breiðablik

22.02.2024 image

Þriðji mótsleikur okkar manna á þessu ári kallar á ferðalag alla leið út á Seltjarnarnes til að mæta liði Gróttu í 3. umferð Lengjubikikarsins 2024. Gróttumenn sitja á botni riðilsins eftir tapleiki gegn Suðurnesja liðunum Grindavík og Keflavík. 

Flautað verður til leiks á Vivaldivellinum föstudagskvöldið 23. febrúar kl.19:00!

Þetta verður fyrsta heimsókn Dóra Árna sem aðalþjálfara á Seltjarnarnesið síðan hann var aðstoðarþjálfari þegar hann og Óskar Hrafn fóru með Gróttu liðið upp um tvær deildir árin 2018 og 2019. Dóri þekkir því hvern krók og kima á Gróttusvæðinu - bæði sem leikmaður heimaliðsins í 5 ár og aðstoðarþjálfari í 2 ár.

Staðan í riðlinum eftir 2. umferðir:

Blikar unnu góðan 4:0 sigur á Grindvíkingum í Lengjubikarnum á Kópavogsvelli 2, umferð. Aron Bjarnason og Dagur Örn Fjeldsted voru í miklum ham í sókninni hjá Blikum og settu báðir tvö mörk í sitt hvorum hálfleiknum. Blikaliðið átti flottan leik og var sigurinn síst of stór. Blikar tefldu fram elstu og reyndustu varnarlínu landsins þegar Damír, Viktor Örn, Höskuldur og Kiddi Jónsson byrjðu leikinn. Á sama tíma var sóknarlínan ung og fersk með þá Dag Örn, Eyþór Aron og Tuma Fannar í hörkuformi. Þetta var góð blanda sem skilaði þessum góða sigri.

Viðtalið

Tíðindamaður blikar.is hafði samband við Eyjólf Heðinsson aðstoðarþjálfara og lagði fyrir hann nokkrar spurningar:

Hvernig leggst leikurinn við Gróttu í þig?

Leikurinn við Gróttu leggst mjög vel í mig. Menn eru að komast í betra stand og frammistaðan gegn Grindavík á laugardaginn var til fyrirmyndar. Við erum búnir að æfa mjög stíft í þessari viku og klárum ansi strembna viku með þessum leik á föstudagskvöldið. Við ætlum okkur í undanúrslit í þessu móti og því kemur ekkert annað en sigur til greina. Ég hlakka mikið til leiksins og hvet alla Blika til þess að mæta og styðja við bakið á strákunum.

Hvað stendur uppúr eftir fyrsta árið í þjálfarateymi meistaraflokks karla?

Fyrir ári síðan var ég að stíga mín fyrstu skref sem knattspyrnuþjálfari og ég hefði ekki getað lent í betri skóla en að vera með Óskari Hrafni og Halldóri í teymi. Tveir frábærir þjálfarar. Því er óhætt að segja að síðasliðið ár hafi verið mjög lærdómsríkt fyrir mig.

Þátttakan í Evrópukeppninni stendur klárlega uppúr. Stórkostlegt að hafa verið partur af liði sem tryggði sér réttinn í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, fyrst íslenskra larla liða. Vonandi verður áframhald á góðu Evrópugengi Blika í ár, samhliða því að ná góðum árangri á innlendum vettvangi.

Hverjar eru þínar aðal áherslur sem aðstoðarþjálfari?

Ég er hluti af fimm manna teymi, sem samanstendur af Halldóri aðalþjálfara, Eiði afreksþjálfara, Helga Jónasi styrktarþjálfara og Haraldi markmannsþjálfara. Samvinnan okkar er ansi náin og snýst að miklu leyti um að skiptast á skoðunum og komast að niðurstöðu sem menn geta sæst á.

Mitt hlutverk er því að koma með hugmyndir og deila skoðun minni á leikfræði, leikmönnum, æfingum, umgjörð o.fl., og reyna þannig eftir fremsta megni að betrumbæta það sem við erum að gera.

Þá ber ég ábyrgð á uppsteningu og framkvæmd æfinganna í samvinnu við hina þjálfara teymisins, greina okkur og tilvonandi andstæðinga, halda fundi fyrir og eftir leiki og margt fleira.

Hver er Eyjólfur Héðinsson?

Ég ólst upp í Seljahverfi og þar liggja rætur mínar. Fór upp yngri flokka ÍR og alla leið í meistaraflokk, áður en ég skipti yfir í Fylki. Þaðan hélt ég erlendis, þar sem ég spilaði í tæpan áratug. Kom svo aftur heim til Íslands og spilaði með Stjörnunni í nokkur ár, en lokaði svo hringnum og tók eitt tímabil með æskufélaginu mínu, áður en skórnir fóru upp í hillu.

Samhliða fótboltanum kláraði ég félags-og fjölmiðlafræði í Háskóla Íslands og styrktarþjálfaranám í Keili. Nú er ég að mennta mig í þjálfarafræðum hjá KSÍ og er þar á góðri leið.

Eftir að hafa gegnt stöðu afreksþjálfara hjá Breiðabliki í eitt ár, gerðist ég aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla, í nóvember síðast liðnum. Þannig að lífið hefur og heldur áfram að snúast að miklu leyti um fótbolta.

Stærsta verkefnið mitt er þó að ala upp börnin mín tvö, Elísu og Nökkva. Það geri ég í náinni samvinnu við Fanndísi kærustuna mína og gengur það verkefni glimrandi vel.

Innbyrðis vorleikir Gróttu og Breiðabliks

Þegar flétt er upp í gagnagrunni Blikar.is kemur m.a. í ljós að innbyrðis vorleikir liðanna eru aðeins fjórir - þrír í Deildabikar KSÍ/Lengjubikarnum og einn í Litla bikarnum.

25.04 22:44
1993
Breiðablik
Grótta
7:0
2
Litli Bikarinn | Riðill
Vallargerðisvöllur | #

26.02 19:00
2010
Grótta
Breiðablik
0:2
1
Deildabikar KSÍ | 2. umferð
Kórinn | #

01.04 18:00
2011
Breiðablik
Grótta
4:0
1
Deildabikar KSÍ | 7. umferð
Kórinn | #

Síðasti mótsleikur liðanna var Bestu deildinni í lok ágúst 2020. Blikar unnu þá nauman 0:1 sigur í leik sem dæmdar voru 2 vítaspyrnur á Gróttu og þeir missa mann útaf með rautt á 36. mín. 

Flautað verður til leiks á Vivaldivellinum kl.19:00, föstudag 23.febrúar. 

Áfram Blikar!  Alltaf - alls staðar!

-PÓÁ

Til baka