BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fátt er hollara en að vinna leik

16.04.2023 image

„Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en missa föður sinn." Svona byrjaði Halldór Laxness Brekkukotsannál og vitur maður hefur sagt að næst því að tapa fyrsta leik á heimavelli sé fátt hollara spáðum Íslandsmeisturum en að tapa fyrir HK á heimavelli. Þannig var bragurinn á Breiðabliki á þeim erfiða útivelli Hlíðarenda í kvöld.

Sjálfur mætti ég snemma. Valsari sem ég vinn með hafði gert hosur sínar sérstaklega grænar fyrir mætingu minni í Fjósið löngu fyrir leik þar sem fram færi meðal annars uppáhaldsíþrótt mín; spurningaleikur. Þar sem pöbbkvissið var um fótbolta hugsaði ég mér gott til glóðarinnar en synir mínir tveir eru einstakir sérfræðingar á því sviði og hafa borið heim ómælda lítra af bjóri eftir afrek á fórboltapöbbkvissum. Hvorugur átti þó heimangengt þannig að ég stóð bara í bakgrunni og hjálpaði tveimur ungum Völsurum með að jú, hvorir tveggja Arnar og Siggi Grétars hefðu þjálfað bæði lið og svona ýmislegt. Svo hitti ég soldið spældan gaur sem sagði að spurningahöfundar væru á þvílíku gelgjuskeiði að þeir áttuðu sig ekki á því að Hörður Hilmars og Ingi Björn hefðu gert það líka.

Þeir mættu báðir í Fjósið fyrir leik, Óskar Hrafn og Addi, og það var tvennt augljóst af því spjalli; gagnkvæmt virðing þjálfarana fyrir andstæðingnum og ótti Valsara við Jason Daða.

Þetta var annars byrjunarliðið sem Valsarar óttuðust svo mjög.

image

Nóg um aðdragandann, ég stika í stúkuna úr Fjósinu og nú mættu leikmenn Breiðabliks ferskari til leiks en ég, ólíkt HK-leiknum á dögunum. Ákveðni, einbeiting og sigurvilji skein af mannskapnum frá byrjun. Tæklingarnar, nándin við andstæðinginn og vel heppnuð há pressa þannig að sá ágæti Bandaríkjaleikmaður Aron Jóhannsson sást ekki framan af leik. Á sama tíma var fótavinnan í vörninni hjá okkur þannig að ágætlega gekk að spila út í gegnum pressu Valsaranna.

Gísli Eyjólfs var meira í því að leggja upp í fyrra en að skora. Nú skorar hann í hverjum leik og strax á 7. mínútu í þessum. Faglega gert. Dugnaðurinn var áfram mikill en svo kom svona korter upp úr miðjum hálfleiknum að menn hættu að vera jafn duglegir við að hlaupa út úr varnarstöðum, gáfu meira pláss og Valur er með frekar flinka fótboltamenn sem geta gert allskonar fínirí sé þeim leyft það.

Talandi um hvað er leyft, þá ákvað dómarinn að láta hlutina ganga nokkuð þokkalega, þrátt fyrir pústra á báða bóga, og okkar menn réðu betur við það en Valsarar. Pirruðu sig síður og Haukur Páll fékk sitt hefðbundna spjald í fyrri hálfleik. Við bröttuðumst undir lokin og hefðum getað sett annað, en féll ekki.

Kíkti á formanninn í hálfleik og það var spjallað um Breiddina og breiddina. Hann, brúarsmiðurinn, ræddi meira skrúfur og vinkla en breiddin í hópnum kom sér vel í seinni hálfleiknum, sýndist mér.

Við byrjuðum hann ágætlega og höfðum sömu undirtök og lengst af fyrri hálfleiknum. Lok-lok-og-læs-og-allt-í-stáli á flestum svæðum. Tvöföld skipting Valsaranna reyndist hinsvegar sterkari en fyrstu skiptingar okkar. Þeir fengu aftur sitt korter þar sem við hefðum svosem alveg getað fengið mark á okkur, en dugnaðurinn í öftustu fjórum og nennan í miðjumönnum að fylgja sínum mönnum var önnur og meiri en á Kópavogsvelli á dögunum og þess vegna fengu andstæðingarnir ekki færi í öllum seinni hálfleiknum, flinkir menn og baráttufúsir sem hreinlega mættu sínum ofjörlum.

Patrik var í basli mestallan leikinn. Var snoturlega settur upp einu sinni í fyrri hálfleiknum en skothreyfingin var of skjót, ofþorsti í mark og boltinn fór hátt yfir. Þar vantaði meiri ró sem mér fannst endurspegla svolítið óþolið eftir HK-tapið. Að stilla sig rétt en þetta lið, sem síðan refsaði Völsurum með öðru marki eftir þeirra ákefð, getur betur. Það er geggjað að eiga það allt inni eftir því sem líður á sumarið. Vellíðunin í stúkunni þegar Stefán Ingi afgreiddi hann svo snyrtilega í netið, var ótrúlega ljúf. Hann hafði verið hrikalega ógnandi frá því hann kom inn á og breiddin, sem við ræddum í hálfleiknum, kann að koma sér ákaflega vel. Ég sá ekki betur en þrjár af fjórum skiptingum okkar manna hefðu verið vegna meiðsla eða eymsla.

Hafandi mætt tiltölulega snemma á Valssvæðið nú í kvöld og spjallað talsvert við vini og kunningja sem verið hafa rauðklædd frá fæðingu, þá er fátt hollara en að vinna fjárans leikinn.

Eiríkur Hjálmarsson

image

Til baka