BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikum refsað á stóra sviðinu

26.07.2023 image

Blikar mættu í kvöld FCK í fyrri viðureign liðanna í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Það er óhætt að segja að mikil eftirvænting hafi ríkt í aðdraganda þessa leiks enda ekki á hverjum degi sem lið af þessari hlaupvídd kemur í heimsókn í dalinn græna. FCK sannarlega verið fremst meðal jafningja í Skandinavíu í s.k Evrópubolta undanfarin ár og tók við kyndlinum af vinum okkar í Rósenborg sem léku reyndar líka á Kópavogsvelli í sömu keppni 2011 og lutu í gras í eftirminnilegum leik.
Tilhlökkun á hverju andliti á vellinum fyrir leik og fólk mætti snemma. Veðrið með allra besta móti, næstum alskýjað og hiti um 16°c. Löngu uppselt á völlinn og góð stemmning frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu enda Hilmar Jökull mættur í bæinn og gaf ekkert eftir.
Lið Blika var þannig skipað;

Svo hófst nú þessi leikur, og það hefði hann nú kannski betur ekki gert fyrr en allavega mínútu seinna, því hann var ekki nema 40 sekúndna gamall eða þar um bil þegar ógæfan dundi yfir og leikmaður gestanna renndi boltanum í tómt markið eftir slæm mistök hjá Blikum. Anton hikaði og var u.þ.b. 1 sekúndu of seinn að fara út í bolta sem sendur var inn fyrir vörnina og spyrna hans lenti í sóknarmanni gestanna sem átti auðveldan eftirleik og Blikar lentir undir, eiginlega áður en leikurinn hófst. Markið sannkallað reiðarslag fyrir Blika og er óhætt að segja að það sló augnabliks þögn á dalinn utan hvað gestirnir fögnuðu innilega. Þetta var nú ekki alveg byrjunin sem fólk sá fyrir sér. En það voru fleiri í gjafastuði og skömmu síðar fengu Blikar fínt færi eftir mistök í vörn gestanna en markmaðurinn sá við Gísla og varði skotið. Næstu mínútur var leikurinn frekar opinn og bæði lið áttu álitlegar sóknir en náðu ekki að gera sé almennilegan mat úr. Litlu mátti muna þegar Damir bjargði á síðustu stundu þega gestirnir voru að sleppa í gegn eftir einfalt þríhyrningsspil. Allt of einfalt hjá Dönunum þarna og Blikar ekki alveg á tánum, en sluppu með skrekkinn. Næstu mínútur héldu Blikar boltanum en sendingar voru ekki góðar á milli manna, of lausar og mikið þvert og til baka þegar hægt var að spila í gegnum pressu gestanna að manni fannst. Kannski smá skrekkur í mönnum eftir markið. Allavega fannst manni boltinn ekki ganga nógu hratt oft á tíðum og Danirnir áttu ekki í miklum vandræðum með að loka svæðum og komast aftur fyrir boltann, auk þess sem þeir hreinlega átu fjölda sendinga sem voru hvoru tveggja í senn, of lausar og fyrirsjáanlegar. En af og til settu Blikar í gírinn og náðu hraða í spilið eða unnu boltann hátt uppi á vellinum og þá kom fjör í þetta og eftir eina slíka lotu fengu Blikar hornspyrnu. Spyrnan kom á fjærstöng þar sem Viktor Örn reis manna hæst og skallaði boltann fyrir markið og manni virtist boltinn vera á leið i netið. Gísli kom á ferðinni og fleygði sér á boltann en á einhvern undraverðan hátt náði markaskorari gestanna að bjarga  á marklínu með bakfallsyrnu og hirti boltann nánast af enninu á Gísla..! Þarna voru Blikar hársbreidd frá jöfnunarmarkinu og það hefði ekki verið gegn gangi leiksins ef þeir hefðu jafnað metin. Nei-nei, þess í stað voru það gestirnir sem áttu næsta leik og eftir snaggaralegt þríhyrningsspil og hælspyrnu voru þeir allt í einu sloppnir í gegn og ekki að sökum að spyrja, boltinn í netinu. 0-2 og brekkan orðin ansi brött hjá okkar mönnum. Slakur varnarleikur atarna og allt of auðvelt fyrir Danina að labba í gegn.
Og til að kóróna ógæfuna rákust svo tveir Blikar saman þegar báðir voru í álitlegu færi eftir góða sókn á lokamínútum hálfleiksins og færið rann út í sandinn.

Í stuttu máli má lýsa fyrri hálfleiknum þannig að hann hafi verið stöngin út hjá okkar mönnum. Hvort það var einbeitingarskortur, stress eða eitthvað annað sem olli er ekki gott að segja. Eftir erfiða byrjun náði liðið hins vegar ágætis dampi en fór illa með færin sem gáfust þegar búið var að opna vörn gestanna og jafnvel komin yfirtala á móti þeim. Þar voru Blikar sjálfum sér verstir.
Stemmningin í hálfleiks kaffinu eilítið dempaðri en fyrir leik og svekkelsi með að Blikar skyldu ekki hafa náð setj´ann í fyrri hálfleiknum. Stuðningsmennirnir samt vongóðir um að betur gengi í þeim síðari.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað og fátt tíðinda fyrr en Blikar fengu horn eftir flott spil. Höskuldur tók stutt á Jason og fékk boltann aftur inni í teig og lét vaða á markið en boltinn hárfínt yfir markið. Næstu mínútur voru Blikar meira með boltann en náðu ekki að opna að ráði. Gísli næstum sloppinn í gegn þegar Jason komst inn í spil þeirra dönsku út úr vörninni, en var tæklaður löglega á síðustu stundu. Og áfram puðuðu okkar menn og reyndu allt hvað þeir gátu en gestirnir jafnan stórhættulegi i skyndisóknum og Andri Yeoman og Anton Ari báðir í blússandi akkorði við að moka upp og bjarga á elleftu stundu. Hinumegin var Jason næstum búinn að koma kollinum í boltann eftir sendingu Olivers en Danir náðu að bjarga. Þegar 15 mínútur lifðu leiks kom Ágúst Eðvald inn fyrir Alexander og skömmu síðar komu Klæmint og Davíð inn fyrir Andra Rafn og Kristinn. Áfram hélt leikurinn en það var lítið að frétta og enn minna um færi. Anton Logi kom inn fyrir Oliver. Þegar skammt var til leiksloka fóru Blikar illa að ráði sínu og sneru rassinum í í sóknarmann gestanna sem gerði sér lítið fyrir og sendi fyrir mark beint á koll samherja sem skallaði boltann yfir markið í úrvalsfæri. Þar sluppu okkar menn með skrekkinn eftir dapran varnarleik. Blikar áttu svo síðasta færið þegar Ágúst Eðvald átti hörkuskot á mark en markvörðu gestanna náði einhvern veginn að verja með veseni.

Og þar með lauk þessum leik 0-2 fyrir gestina og það verður að segjast að er svekkjandi niðurstaða því Blikar fengu sannarlega færi til að gera betur eftir afleita byrjun. Blikar geta gert betur og verða að gera betur ætli þér sér lengra í þessari keppni. Á þessu sviði geta menn hvorki leyft sér að fara svona illa með sóknarfærin eða verjast jafn dapurlega og stundum í kvöld. Það verður fróðlegt að sjá seinni leikinn sem fram fer á Parken  2.ágúst.
Þangað ætla Blikar að fjölmenna, en áður en til þess kemur mæta okkar menn Stjörnunni n.k. laugardag kl. 18:15 á Kópavogsvelli í 17. umferð Bestu deildarinnar. Það er von á hörkuleik og okkar menn verða örugglega í gírnum eftir svekkelsið í kvöld.

Mætum á völlinn for helvede!

Áfram Breiðablik! 

-OWK

Til baka