Besta deildin 2025: Breiðablik - ÍBV
13.09.2025
Breiðablik - ÍBV
Ljóst er að Breiðablik endar í 4. sæti eftir 22 umferðir en 7 af efstu 8 efstu liðunum geta færst til um sæti í lokaumferðinni. Breiðablik verður lið númer 4 í töfluröð úrslitakeppninnar og því hægt að sjá jafn óðum á morgun, sunnudag, hvaða liðum við mætum í úrslitakeppninni:
Visir.is: Sturluð lokaumferð fyrir skiptingu: Hvaða lið enda fyrir ofan strik?
Uppfært á sunnudagskvöldi. Leikjaröðun okkar manna í úrslitakeppninni verður svona - að því gefnu að við vinnum stig í leiknum gegn ÍBV: 1.umf. Valur - Breiðablik / 2.umf. FH - Breiðablik / 3.umf. Breiðablik - Fram / 4.umf. Breiðablik - Víkingur R. / 5.umf. Stjarnan - Breiðablik.
Leikur Breiðabliks og ÍBV verður á mánudag kl.18:00!
Styrktarleikur fyrir Ljósið – Frítt inn en tekið við frjálsum framlögum við innganginn
Leikurinn gegn ÍBV verður spilaður til styrktar Ljóssins en í ár viljum við vekja athygli á starfi ungra karla í Ljósinu. Frítt á völlinn en tekið verður við frjálsum framlögum við inngang. Uppboð á treyjum leikmanna – allur ágóði rennur óskertur til Ljóssins. Litla Ljósabúðin verður með sölu á varningi Ljóssins. Mætum á völlinn, hvetjum Blika og styrkjum Ljósið!
Fyrir þau sem ekki geta mætt á völlinn er einnig tekið við frjálsum framlögum hér: 0133-15-013080 Kt:4102841389. Uppboð er hafið á treyjum sem leikmenn meistaraflokks karla spila í í Styrktarleik fyrir Ljósið. Allur ágóði af sölunni mun renna til Ljóssins. Einstakt tækifæri til að fá sérhannaða treyju og styrkja gott málefni um leið - einungis 26 treyjur í boði! Smelltu HÉR til að setja inn boð!
Kópacabana
Kópacabana sveitin með Hilmar Jökul í fararbroddi mætir í stúkuna og keyrir upp stemminguna.
Til upprifjunnar frá fyrri leik liðanna í sumar, þá verður innkoma Kópacabana sveitarinnar með Herjólfi inn í Vestmanneyjahöfn lengi í minnum höfð.


Sagan & Tölfræði
Fyrsti leikur Breiðabliks og ÍBV var æfingaleikur sem leikinn var í Vestmannaeyjum sumarið 1958 þegar Breiðabliksliðið var að stíga fyrstu skrefin á knattspyrnuvellinum. Knattspyrnudeild Breiðabliks var stofnuð 1957.
Leikur ÍBV og Breiðabliks á mánudaginn verður 105. mótsleikur liðanna frá fyrsta mótsleik árið 1960. Eyjamenn leiða með 43 sigra gegn 39 og jafnteflin er 20. Til viðbótar þessum 104 innbyrðis leikjum eru margir óskráðir leikir liðanna í svonefndri Bæjarkeppni - keppni sem var leikin vor og haust í mörg ár í kjölfar eldgossins í Eyjum 1973 - enda mikill vinskapur milli Kópavogsbæjar og Vestmannaeyja.
Efsta deild
Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild frá upphafi eru 65. Blikar leiða með 27 sigra gegn 22 - jafnteflin eru16.
Efsta deild í Kópavogi
Innbyrðis leikir liðanna í Kópavogi eru 32. Blikar leið með 19 sigra gegn 9 - jafnteflin er 4.
Síðustu 5 heimsóknir ÍBV á Kópavogsvöll í efstu deild. Eyjaliðið ekki í efstu deild 2024, 2021 og 2020:










Leikmannahópurinn
Í leikmannahópi ÍBV liðsins er það Omar Sowe sem hefur spilað með Breiðabliki. Hann kom til Breiðabliks fyrir Íslandsmeistaraárið 2022 og spilaði 24 mótsleiki og skoraði 4 mörk með Blikum. Omar, sem kom til ÍBV frá Leikni R., varð fyrir því óláni að slíta krossband í leik með ÍBV undir lok maí og leikur því ekki meiri knattspyrnu á þessu ári. Í Breiðablikshópnum er það Aron Bjarnason sem hefur leikið með Eyjaliðinu. Hann spilaði tvö keppnistímabil með Eyjapeyjum árin 2015 og 2016 en gekk svo til liðs við Breiðabik fyrir keppnistímabilið 2017.
Leikmannahópur Breiðabliks
Breiðabliksteymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Brynjar Dagur Sighvatsson og Dagur Elís Gíslason.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki leiksins gegn ÍBV mætti í Kópavoginn 1998 til að spila Körfubolta með Blikum og gerði það í tvö vetur, en lagði svo skóna á hilluna og fór að gera annað. Þegar dóttir blikans mætti heim einn daginn í grænum búningi árið 2011 var ekki aftur snúið - blikinn orðinn fótbolta pabbi og félagið mitt var Breiðablik! Mynd: Írena og Héðinn á Goðamótinu á Akureyri kringum 2013.
Okkur hefur alltaf liðið vel í Breiðablik og þegar stelpan var kominn á fulla ferð þá var ég dreginn inní að dæma, að sjálfsögðu. Síðan var ég kominn í stjórn barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar þar sem ég var í nokkur ár, þar sem verkefnið var aðallega dómgæsla og umsjón leikja í Símamótinu.
Nýjasta verkefnið er öryggisgæslan á Kópavogsvelli á öllum heimaleikjum meistarflokks karla og kvenna, með frábærum félögum mínum, Jóa og Mána.
Það er mikill heiður að starfa fyrir Breiðablik og sjá árangurinn á vellinum, já og fylgjast með dóttirinni vaxa og ná árangri í fótboltanum. Það hefur verið mikil upplifun að standa á hliðarlínuni og sjá stelpuna og vinkonur hennar í boltanum, koma með nokkra titla í hús í gegnum árin og síðan ekki síst þegar hún vann sig inn í meistaraflokkinn og fór að spila þar.
Héðinn Gunnarsson - Hvernig fer leikurinn?
Leikir við Eyjamenn eru alltaf hörkuleikir, þeir gefa ekkert eftir, staða þeirra í deildinni segir allt sem segja þarf, þetta er hörkulið. Þetta eru erfiðir leikir og fast spilað. Framundan er úrslitakeppninn og allir leikir skipta máli, hvert stig skiptir máli. Ég spái því að við vinnum þennan leik nokkuð örugglega 3-1. Guðmundur Magg er að fara að setja fyrstu 2 mörkinn sín og Kristinn setur 1.
Áfram Breiðablik!
SpáBlikinn Héðinn Gunnarsson á góðum degi í lok keppnistímabilsins 2024
Dagskrá
Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.18:00 á mánudaginn.
Leikurinn er til styrktar Ljóssins – Frítt inn en tekið verður við frjálsum framlögum við inngangginn inn á Kópavosgvöll.
Blikaborgarar á grillinu. Kaffi og góðgæti í Blikasjoppunni. Græna stofan opin.
Mætum í stúkuna á Kópavogsvelli og hvetjum okkar menn til sigurs.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ
Mörkin frá síðustu efstu deildar heimsókn ÍBV á Kópavogsvöll árið 2023