BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Turnarnir tveir sökktu ÍBV!

21.07.2023 image

Blikar unnu baráttusigur á Eyjamönnum 3:1 á Kópavogsvelli í Bestu deild karla í kvöld. Sigurinn var nokkuð harðsóttur en góður fyrri hálfleikur tryggði okkur stigin þrjú. Við getum einkum þakkað turnunum tveimur í vörninni, Damir og Viktori Erni, sigurinn. Þeir skoruðu tvö mjög góð mörk í fyrri hálfleik sem  í raun slógu gestina út af laginu. Einnig var þriðja markið sem færeyski prinsinn Klæmint Olsen skoraði einnig í fyrri hálfleik mjög gott.

image

Fyrsti byrjunarliðsleikur Ágústar Orra í Bestu deildinni.

Okkar drengir voru nokkuð gjafmildir í byrjun leiks og færðu þeim hvítklæddu að minnsta kosti tvo mjög góð færi. En sem betur fer kunnu gestirnir ekkert að meta þessa gjafmildi og þáðu ekki gjafirnar! Þar gátum við Blikar þakkað Antoni Ara í markinu fyrir að verja vel! En smám saman náðum við tökum á leiknum og tættum framliggjandi sóknar- og miðjulínu Eyjapilta í okkur. Þrátt fyrir að við næðum að koma okkur nokkrum sinnum í góð tækifæri þá vantaði að reka endahnútinn á sóknina. Það var ekki fyrr en Damir skoraði með hörkuskalla eftir snilldarhornspyrnu Höskuldar að álögunum létti. 

Og skömmu síðar sendi Viktor Karl fína sendingu inn í teiginn og þar reis nafni hans Viktor Örn manna hæst og saltaði varnalínu Eyjaliðsins. Fyrsta mark Viktors í sumar. Staðan orðin 2:0 og glöddust Blikar um allt land yfir stöðunni. Ekki versnaði skapið þegar snilldarsókn Blika endaði með frábærri sendingu Jasons Daða inn fyrir vörnina og þar kláraði Klæmint færið af senterasið.

Aðeins dróg úr ákafanum í síðari háfleik enda álagið á liðið verið mikið að undanförnu. Bæði Viktor Karl og Gísli yfirgáfu völlinn með smávægileg meiðsli en vonandi verða þeir klárir í FCK slaginn á þriðjudaginn. Við áttum hins vegar að bæta við fleiri mörkum en aðeins vantaði á reka endahnútinn á margar fínar sóknir. Þess í stað fengum við á okkur mark en það skipti ekki miklu máli því við vorum betra liðið allan tímann. Við sigldum þvi öruggum 3:1 sigri í hús sem er mjög gott miðað við það mikla álag sem er á Blikaliðinu þessa dagana.

Áhorfendur hafa oft verið fleiri en á þessum leik. En staðreyndin er sú að föstudagsleikir hjá öllum liðum í deildinni eru flestir frekar illa sóttir. Það var hins vegar ekki möguleiki að spila þennan leik á öðrum tíma og við verðum við að lifa með því. Yngri deild Kópacabana stóð vaktina með sóma að vanda. Heyrðis vel i þeim þrátt fyrir María söngkennari í Kópavogsskóla hefði sjálfsagt verið ósátt við tóntegundina sem heyrðist úr gjallarhorninu af og til. En eldri deild Kópacabana með Blaz Roca fremstan i flokki er búin að boða koma sína með bravör á FCK leikinn á þriðjudagskvöldið. Þá má búast við miklu stuði!

Því miður fengu ekki allir stuðningsmenn Blika miða á leikinn enda seldist allir miðarnir upp á 15 mínútum. Það er hins vegar lúxusvandamál sem við lifum vel með! Sjáumst í svaka stuði á þriðjudaginn þegar leikurinn gegn danska stórveldinu FCK fer fram!

-AP

image

Alexander Helgi var kosinn Grazie Trattoria maður leiksins eftir sigurinn á ÍBV í kvöld.

Til baka