BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2023. Úrslitakeppni. Breiðablik - Stjarnan

06.10.2023 image

Breiðablik - Stjarnan

Síðasti leikur okkar manna í Bestu deild karla á þessu ári er gegn spræku liði Stjörnunnar. Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunnudaginn.kl.14:00!

Miðasala á leikinn er á: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Staðan í efri hluta Bestu deildar karla fyrir lokaleikinn 2023 á sunnudaginn. Blikasigur tryggir okkur bronsið: 

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Stjörnunnar frá upphafi (1970) eru 70. Blikar eru með yfirhöndina: 32 sigrar gegn 26 – 12 jafntefli

Efsta deild

Innbyrðis leikir liðanna í efstu, fyrst árið 1991, eru 38. Staðan er okkar mönnum í vil: 20 sigrar gegn 10 - jafnteflin eru 8.  Markaskorun í þessum 37 leikjum er: Breiðablik 78 Stjarnan 51.

Leikir liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli eru 20. Blikar leiða með 12 sigra gegn 4 - jafteflin er 4, en þetta eru síðusu 5 leikir í efstu á Kópavogsvelli:

Leikmannahópurinn

Aðalþjálfari gestaliðsins, Jökull Ingason Elísarbetarson, hefur spilað í grænu Breiðablikstreyjunni. Jökull lék 116 mótsleiki með Blikum á árunum 2010-2013. Jökull varð Íslandsmeistari með Blikaliðinu 2010. Uppalinn Bliki, Guðmundur Kristjánsson, leikur nú með Stjörnunni. Guðmundur spilaði 136 mótsleiki og skoraði 36 mörk með Breiðabliki á árunum 2006-2012 og var sterkur póstur í Bikarmeistaraliði Breiðabliks 2009 og Íslandsmeistaraliðinu 2010. Og Sindri Þór Ingimarsson er uppalinn hjá Breiðabliki. 

Í þjálfarateymi Breiðabliks er það Eyjólfur Héðinsson sem leikið hefur með Stjörnumönnum en hann á 126 leiki að baki með Garðabæjarliðinu á árunum 2016 – 2021.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins er borinn og barnfæddur Breiðhyltingur en í honum rennur þó blóð af Digranesveginum hvar faðir hans Gissur Pétursson sleit barnsskónum. Blikinn er alinn upp í Seljahverfinu í Breiðholti, steinsnar frá hinu fræga upptökusvæði Breiðabliks. ÍR-ingar hafa eins og önnur félög notið góðs af fjölmennu starfi Breiðabliks og hafa margir leikmenn komið úr Kópavoginum og kennt okkur stutta spilið og grunntæknina sem þarf til að komast af inni í Fífunni. Einn af leikmönnum tímabilsins í ár hjá ÍR í ár var einmitt Ágúst Unnar Kristinsson sem ber með sér þennan eftirsóknaverða Blikaþokka. Uppáhalds Bliki okkar ÍR-inga fyrr og síðar er vafalaust Reynir Magnússon en hann vann hug og hjörtu Breiðhyltinga á árunum 2012-2014 áður en hann hélt út í atvinnumennsku.

Blikinn er starfsmaður knattspyrnudeildar, deildarstjóri barna- og unglingastarfs. Ég hóf að starfa á skrifstofu Breiðabliks fyrir rétt tæplega tveimur árum og það hefur verið ómetanleg reynsla að vera partur af þessu stóra félagi. Það eru mýmörg verkefnin sem lenda á borði manns á degi hverjum og aldrei er neinn dagur eins og sá fyrri. Nú síðast hefur fyrsti heimaleikur okkar í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar verið fyrirferðamikill og gaman að fá að starfa í kringum það verkefni. En eins og maður er fljótur að átta sig á, þá er meginþungi félagsins hið fjölmenna starf yngri flokkanna, enda um langstærstu knattspyrnudeild landsins að ræða.
Að fá að starfa í kringum jafn reynslumikla menn og Hákon Sverrisson og Úlfar Hinriksson, svo einhverjir séu nefndir, eru forréttindi en einnig er allt annað starfsfólk og þjálfarar innan félagsins jákvætt og duglegt og ekki annað hægt en að hrífast með.“

Ísleifur Gissurarson - Hvernig fer leikurinn?

Ég er spenntur fyrir leiknum á sunnudag og held að hann verði fjörugur. Stjarnan er kannski með skemmtilegasta lið deildarinnar um þessar mundir og það er gaman að fylgjast með þeim. Þetta verður markaleikur á báða bóga en ég hef trú á því að Blikarnir sigli heim sigrinum og þar með þriðja sætinu í Bestu deildinni þetta árið.

Það sem veitir okkur forskotið í leiknum á sunnudag er að við eigum Eyjólf Héðinsson í þjálfarateymi Breiðabliks en hann þekkir Garðabæinn eins og hægri lófann á sér (hann er rétthentur). Það verða einhverjar pælingarnar frá honum sem munu rugla í rými Stjörnumanna og tryggja okkur stigin þrjú.

Leikurinn fer 3-2 fyrir Breiðablik á sunnudag. Ef ég á að giska þá segi ég að Höskuldur skori eitt með skalla, Gísli eitt með hægri, og að Viktor Margeirs hnoði honum inn með utanverðu lærinu eftir klafs í teignum.

Þetta verður svakalegt – áfram Breiðablik!

image

Ísleifur Gissurarson SpáBliki ásamt föður sínum á Breiðabliksleik á Laugardalsvelli

Dagskrá

Græna stofan opnar upp úr kl.13:00, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunnudag kl.14:00! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Svipmyndir frá heimsókn Stjörnumanna á Kópavogsvöll fyrr í sumar:

Til baka