BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2023: FH - Breiðablik

07.06.2023 image

FH - Breiðablik

Á mánudagskvöld unnu Blikar harðsóttan 3:1 sigur á FH í 8-liða úrslitum Mólkurbikarkeppni KSÍ. Leikurinn var mjög kaflaskiptur. Við náðum litlum takti í fyrri hálfleik en komum sterkir til leiks í síðari hálfleikinn og unnum að lokum verðaskuldaðan sigur. Þar með er Blikaliðið komið í undanúrslit í bikarnum og verða andstæðingar okkar þar KA á Greifavellinum á Akureyri.

Næsti leikur okkar manna er aftur gegn FH en nú á erfiðum grasvelli þeirra í Kaplakrika á laugardaginn kl.15:00!

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan í deildinni fyrir leiki helgarinnar:

image

Sagan & Tölfræði

Heildarfjöldi innbyrðis mótsleikja FH og Breiðabliks í A & B deild, bikar, deildabikar og litla bikarnum, eru 121 leikir.

Blikasigrar eru 45 gegn 53 - jafnteflin eru 23.

Leikir í A-deild eru 56. Blikasigrar eru 23 gegn 21 sigri FH - jafnteflin eru 12.

Í leikjunum 56 hafa liðin skorað 170 mörk - Blikar með 90 mörk gegn 80 mörkum FH-inga

Síðustu 5 í efstu deild í Kaplakrika - allt hnífjafnt:

Leikmannahópurinn

Í liði heimamanna eru tveir leikmenn sem hafa spilað í grænu Breiðablikstreyjunni.  Finnur Orri Margeirsson söðlaði um 2022 og gekk til liðs við Hafnarfjarðarliðið. Það gerði einnig Ólafur Guðmundsson í júlí glugganum 2021. 

Í liði okkar manna eru það Kristinn Steindórsson sem hefur leikið með FH-ingum. Davíð Ingvarsson spilaði með yngri flokkum FH frá 2011 til 2014. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 11. umferðar flutti í vesturbæ Kópavogs 8 ára gömul og fór beint í Kársnesskóla. SpáBlikinn bjó á Borgarholtsbrautinni og voru æskuárin í Kópavogi einstaklega ljúf og þar var yndislegt að alast upp. Blikinn fór svo í Kvennaskólann 12-16 ára en kom svo heim aftur til að fara í Menntaskólann í Kópavogi. Um 11 ára aldurinn var byrjað að mæta á æfingar hjá Breiðablik á Vallargerðisvellinum - með meistaraflokki því það voru engir yngri flokkar. Pabbi blikans þjálfaði karlaliðið á þessum tíma. Bróðir blikans æfði fótbolta og mamma varð síðar liðsstjóri hjá meistaraflokki kvenna. Það snerist allt um fótbolta á þessum tíma. 

Blikalið kvenna var ansi sigursælt á þessum tíma og varð Íslands- og bikarmeistarar þrjú ár í röð. Blikakonur voru ekkert smá stoltar þegar 8 leikmenn úr Breiðablik voru valdir í fyrsta landslið kvenna gegn Skotlandi árið 1981.

Blikinn vann á Vallargerðisvellinum frá 13-14 ára aldri og síðar á Kópavogsvelli. Á þessum upphafsárum var gott fólk sem studdi leikmenn Breiðabliks og þar var hann Valdi okkar vallarvörður á Vallargerðisvelli, Valdimar Kr. Valdimarsson fremstur i fararbroddi. Alltaf mættur með bros á vör, hvetjandi og sá til þess að okkur liði sem best. SpáBlikinn þjálfaði 2. flokk kvenna um skeið með Rósu Valdimarsdóttur þegar sá flokkur var stofnaður um 1980.

Farsælum,18 ára knattspyrnuferli blikans, lauk árið 1995 - þá orðin 32 ára og farin að eignast börn. Mótsleikirnir í grænu Breiðablikstreyjunni urðu alls 173 og mörkin 46. Auk þess 12 landsleikir og 4 mörk. Á vorhátið Breiðabliks 2016 var Blikakonan, ásamt Guðmundi Þórðarsyni, tekin inn í Frægðarhöll Breiðabliks, Fyrir þar voru blikarnir Ásta B. Gunnlaugsdóttir og Sigurður Grétarsson. Nánar hér. 

Um 1995 flutti fjölskyldan í Lindasmára í Kópavogi eftir nokkur ár í Reykjavík. Svolítið skondið en samt svo gaman að fara með börnin á leikskólann Smárahvamm þar sem æfingasvæði okkar Blikanna hafði verið áður og engin byggð nálægt. Nú nokkrum árum seinna er lífið bara ljúft og ég bý með sambýlismanni mínum, Marin sem er spænskur/rúmenskur í Mosfellsbæ og á eina dóttur, Svönu Birnu Pétursdóttur sem er nú reyndar nýflutt að heiman. Ég starfa í mennta- og barnamálaráðuneytinu og hef verið þar lengi og líkar vel.  Svana stelpan mín var auðvitað send á æfingar hjá Breiðabliki þegar hún var 5 ára og vissi ekki í hvort markið hún átti að skora. Fljótlega fluttum við í Grafarvog þar sem hún skipti þá yfir í Fjölni og spilaði þar í nokkur ár og var efnileg og lærði í hvort markið átti að skora. Mamman og pabbinn (Pétur Árni Rafnsson sem spilaði lengi með Old boys í Breiðablik) voru svolítið æst á hliðarlínunni þegar stelpan spilaði. Það var svo gaman að komast aftur í snertingu við þennan heim og ég sá um sjoppuna á Fjölnisvelli fyrir stelpuleikina og var það foreldri sem alltaf var mætt að aðstoða á mótum.  Afinn, Reynir, gamli Framarinn, mætti líka á alla leiki hjá barnabarninu og hefði viljað mæta á æfingar líka og mamma Svanfríður, studdi barnabörnin eins og hún hafði gert með okkur Gaua svo lengi. Dóttir mín hætti iðkun fótbolta við fermingu en þá tók við ræktin og Cross Fit og hún er núna menntuð íþróttakennari frá Háskólanum í Reykjavík og kennir í Klébergsskóla.    

image

Fjölskyldan: Marin, Ásta María og Svana Birna.

Ásta María Reynisdóttir - Hvernig fer leikurinn?

Er svo stolt að fá að spá um úrslit í leiknum á móti FH. Hef fulla trú á okkar mönnum og tel þá hafa alla burði til að verða ofarlega í sumar, svo ég segi og skrifa að við vinnum þennan leik 3-1.

FH- ingar hafa verið að hiksta í vor og ekki alveg sannfærandi á meðan strákarnir okkar eru taplausir í síðustu 8 leikjum í deildinni. Höldum áfram þessari sigurgöngu og í þessum mikilvæga leik trúi ég að okkar menn gefi allt í leikinn og vinni í Kaplakrika.

ÁFRAM BREIÐABLIK

image

SpáBliki 11. umferðar, Ásta María Reynisdóttir, var fyrirliði Breiðabliks Íslandsmeistaraárið 1990.

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði kl.15:00 á laugardaginn.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Mætum í stúkuna í Krikanum og hvetjum okkar menn til sigurs. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Umfjöllun, klippur, atvik og mörkin úr síðustu viðureign liðanna á Kóapvogsvelli fyrr í vikunni

Til baka