BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: FH - Breiðablik

15.09.2021 image

Þá er komið að síðasta útileiknum hjá okkar mönnum í Pepsi Max 2021. Næsta viðureign er gegn margföldum Íslandsmeisturum FH á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði. Flautað verður til leiks kl.16:15. Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki geta mætt í Krikann.

Bæði lið hafa skorað mikið af mörkum í síðustu umferðum: FH unnu 0:4 sigur í síðasta leik. Og FH vinnur leiki sína í 17. og 18. umferð með 5 mörkum gegn engu. En Blikar skora mest - vinna síðasta leik 3:0 og leikinn þar á undan 0:7 enda Blikaliðið búið að skora 52 mörk - lang mest allra liða í deildinni þegar tvær umferðir eru eftir - og eru með 32 mörk í plús. Markamet Blika - 47 mörk Íslandsmeistaraárið 2010 - er því fallið. 

Til fróðleiks og samanburðar þá er markaskorun liða (50+ mörk) í lok móts í 12 liða efstu deild frá 2008 þessi:

2020: Valur 50
2018: Valur 50
2013: KR 50
2012: FH 51
2009: KR 58 og FH 57
2008: KEF 54 og FH 50

Markamet efstu deildar frá upphafi er ótrúlegur árangur Skagamann árið 1993 þegar ÍA skorar 62 mörk - í 10 liða deild.

Verður partý í súkunni?

Staða liðanna fyrir leiki helgarinnar er þessi. Blikar leiða stigatöfluna með 44 stig og geta með sigri á sunnudaginn tryggt Íslandsmeistaratitilinn 2021 þegar ein umferð er eftir - ef Reykjavíkur Víkingar ná ekki sigri gegn KR í Frostaskjólinu.

FH-ingar sigla lygnan sjó. Eru með 29 stig í 6. sæti og verða þar áfram - sama hvernig fer hjá þeim gegn okkur á sunnudaginn og KA fyrir norðan í síðustu umferðinni.

Svona lítur stöðutaflan út eftir 20 umferðir:

image

Sagan

Breiðablik og FH eiga að baki 115 mótsleiki frá upphafi. Í öllum 115 skráðum mótsleikjum liðanna frá 1964 til 2021 sigra Blikar 42 leiki, jafnteflin eru 22 og FH vinnur 51 viðureign.

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru 53. Jafnræði er með liðunum. Blikar hafa unnið í 22 leiki og FH 20. Jafnteflin er 11. Blikar hafa skorað 87 mörk gegn 79 mörkum FH-inga.

Í 26 efstu deildar leikjum liðanna á Kaplakrikavelli frá upphafi hafa Blikar vinninginn með 11 sigra gegn og 8 sigrum heimaliðsins og 7 sinnum er jafntefli niðurstaðan. Meira>

Síðustu 5 í Kaplakrika

Síðasti leikur

Breiðablik vann öruggan 4:0 sigur á FH á Kópavogsvelli í 9. umferð Pepsi Max deildar karla 2021. Kristinn Steindórsson, Jason Daði Svanþórsson, Viktor Karl Einarsson og Árni Vilhjálmsson skorðu mörkin. 

Leikmenn

Nokkrir núverandi leikmanna FH eiga rætur sínar að rekja í Kópavoginn. Fyrstan ber að nefna Ólaf Guðmundsson sem gekk til liðs við Fimleikafélagið í júlíglugganum. Ólafur var á láni hjá Keflvíkingum í fyrra og lék sem lánsmaður með Grindvíkingum fram að félagaskiptunum til FH um miðjan júlí. Hann hefur spilað 11 mótsleiki fyrir Breiðablik og skorað í þeim eitt mark. Guðmundur Kristjánsson lék 136 leiki og skoraði 23 mörk með Blikum á árunum 2006-2012. Guðmann Þórisson spilaði 96 leiki með Blikum á árunum 2005-2009. 

Í leikmannahópi Blika eru tveir leikmenn sem hafa verið hjá FH. Eftir keppnistímabilið 2014 söðlaði Finnur Orri Margeirsson um gekk til liðs við Hafnarfjarðarliðið. Hann gerði svo samning við Lilleström fyrir keppnistímabilið 2015 og náði því ekki að spila mótsleik með Fimleikafélaginu. Og markahrókurinn okkar Kristinn Steindórsson lék með FH-liðinu 2018 og 2019 en kom svo heim í Kópavoginn.

Leikmannahópur Breiðabliks:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 21. umferðar er borinn og barnfæddur Kópavogsbúi en býr í Hafnarfirði. Hann vinnur fyrir eitt elsta fyrirtæki Kópvogs - BYKO. Hann hefði með réttu á að verða vélsmiður en er í einhverju allt öðu hjá BYKO enda sjá bræður hans um vélsmíðina, já og forðuðu honum frá smiðjunni til hann gæti sinnt sinni skyldu. SpáBlikinn æfði og spilaði 116 fótboltaleiki með Breiðabliki en hefur hæð til að verða körfuboltamaður. Blikinn er virkur þáttakandi í Ungmennafélaginu Dúddi sem er tippklúbbur sem hittist í Smáranum á laugardögum og reynir að safna peningum til góðra verka. SpáBlikinn er mjög liðtækur golfari en aðal áhugamálið er að sinna félagstörfum fyrir Breiðablik sem tengjast margmiðlun eins og t.d. BlikarTV.

Heiðar B. Heiðarsson - Hvernig fer leikurinn?

Kópacabana

Stuðningsmannasveitin Kópcabana ætlar að fjölmenna í stúkuna í Krikanum á sunnudaginn og halda uppi stuði allan leikinn - eins og þeir gerðu svo vel á leiknum gegn Val um síðustu helgi.

Dagskrá

Flautað verður til leiks kl.16:15 á sunnudaginn 19. september.

Tryggið ykkur miða tímanlega, 

Miðasala er á Stubbur

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Ekki missa af upphitun BlikarTV:

Til baka