BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2023: Breiðablik - Keflavík

19.08.2023 image

Breiðablik - Keflavík

Næsti leikur Blika í Bestu deild karla er við lið Keflvíkinga á sunnudaginn. Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.18:00!

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan í deildinni fyrir 20. umferð:

image

Sagan & Tölfræði

Lið Keflavíkur (áður ÍBK) er sá andstæðingur sem Breiðablik hefur oftast leikið gegn frá upphafi. Leikurinn á sunnudag verður 131. mótsleikur liðanna frá upphafi.

Fyrsti innbyrðis leikur liðanna var í gömlu 2. deildinni á Njarðvíkurvelli í lok júní árið 1957. Leikurinn var annar mótsleikur Breiðabliks frá upphafi - knattspyrnudeild Breiðabliks var stofnuð 1957. Fyrsti innbyrðis leikur liðanna í 1. deild var á Keflavíkurvelli um miðjan júní árið 1971 - árið sem Breiðablik lék fyrst í efstu deild. 

Heildarfjöldi mótsleikja liðanna í deildum, bikar, deildabikar og litlu bikarkeppninni eru 130 leikir. Blikasigrar eru 51 gegn 55 - jafnteflin eru 24. Nánar.

Efsta deild

Innbyrðis leikir í A-deild frá upphafi eru 62 leikir. Blikasigrar eru 23 gegn 24 - jafnteflin eru 15. Í leikjunum 62 hafa liðin skorað 200 mörk - Blikar með 97 mörk gegn 103 mörkum Keflvíkinga. 

Síðustu 5 leikir liðanna á Kópavogsvelli í efstu deild: 

Leikmannahópurinn

Tveir núverandi leikmenn Keflavíkurliðsins hafa spilað með Breiðabliki. Erni Bjarnason er uppalinn Bliki. Hann lék 24 mótsleiki með Blikum á árunum 2013 til 2017. Sindri Snær Magnússon kom til Blika frá ÍR fyrir keppnistímabilið 2012. Hann spilaði 26 mótsleiki með Blikum 2012/2013. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson var ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 20. umferðar er borinn og barnfæddur Kópavogsbúi og bjó fyrstu 25 árin sín í bænum. Hann segist aldrei hafa getið neitt í fótbolta. Hann hefði eins og margir strákar í Kópavoginum, verið í sveit á sumrin að reka kýr og stússa í rollum, meðan gömlu skólabæðurnir Valdi Vald, Óli Björns, Sigurjón Rannvers o.fl. kappar æfðu sig í fótbolta eins og andskotinn væri á eftir þeim. SpáBlikinn starfar nú sem ráðuneytisstjóri í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

image

Úr Víghólaskóla fyrir 45-50 árum.  Á myndinni má m.a. greina blikana Benedikt Guðmundsson, Birgi Teitsson og Guðmund Jónsson. SpáBlikinn er þessi með sögina.

Gissur Pétursson - Hvernig fer leikurinn?

Það var mikil upplifun fyrir gamlan Kópavogsbúa að fylgjast með okkar mönnum spila á Parken í Kaupmannahöfn um daginn.  Fyrstu 25 mínúturnar voru sérlega skemmtilegar og þó svo að úrslitin hafi ekki verið eins og maður hefði helst óskað – þá stóðu Blikar fyrir sínu frammi fyrir þúsundum áhorfenda.

Það er mikið vatn runnið til sjávar síðan leikið var á mölinni í Vallargerði og flestir leikmenn illa lemstraðir eftir hvern leik.

Leikurinn gegn Keflavík á sunnudaginn verður ekki auðveldur en honum mun ljúka með öruggum sigri, þremur mörkum okkar manna gegn einu 3-1.  Keflavík hefur nefnilega ekki getað neitt síðan Rúnar Júl. hætti að spila með þeim.  Á sama tíma var hann í landsliðinu í fótbolta, spilaði í vinsælustu hjómsveit landsins og átti kærustu sem hafði verið kjörin fegurðardrottning.  Það eru komin nokkur ár síðan en þetta hefur enginn leikið eftir.  Þó svo að menn toppi ekki þessa frammistöðu hjá Rúna Júl.  þá erum við með flotta stráka í hópnum núna sem eiga eftir að koma sterkir inn núna seinni hluta sumarsins og setja pressu á liðin í efstu sætum deildarinnar.

Leikurinn á sunnudag mun gefa tóninn fyrir það sem framundan er.  Nýir menn fá að spreyta sig og standa sig vel og hvetja með því þá sem fyrir eru til að standa sig enn betur.

Áfram Breiðablik!

image

SpáBliki leiksins Gissur Pétursson

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunnudag kl.18:00! 

Völlurinn opnar kl.17:00, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Mörk og atvik frá síðstu heimsókn Keflvíkinga á Kópavogsvöll í boði Blikar TV:

Til baka