BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Keflvíkingar kafsigldir

05.08.2015
Blikar unnu öruggan 4:0 sigur á lánlausum Keflvíkingum á Kópavogsvelli. Blikar voru betri á öllum sviðum hinnar fögru íþróttar og áttu Suðurnesjapiltarnir í raun aldrei von gegn léttleikandi Kópavogsbúum. Það voru þeir Jonathan Glenn, Höskuldur Gunnlaugsson 2 og Arnþór Ari Atlason sem settu mörk okkar pilta.
 
Veðrið var frábært til knattspyrnuiðkunar, norðan andvari og hiti um 11 stig. Stuðningsmenn Blika mættu vel til leiks en aðeins hörðustu Suðurnesjamenn létu sjá sig í kvöldsólinni í Kópavogi. Arnar og Kristófer gerðu nokkrar breytingar frá KR-leiknum enda komnir í þá lúxusaðstððu að hafa úr sterkum hópi að velja. Glenn kom inn í byrjunarliðið upp á topp og Ellert fór út á kantinn. Höskuldur kom inn í byrjunarliðið að nýju og átti frábæran leik. Guðjón Pétur kom inn í uppáhaldsstöðu sína á miðjunni og ríkti þar eins og kóngur í ríki sínu.
 
En byrjunarliðið var þannig.
1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m) 
3. Oliver Sigurjónsson 
4. Damir Muminovic 
5. Elfar Freyr Helgason 
7. Höskuldur Gunnlaugsson 
8. Arnþór Ari Atlason 
10. Guðjón Pétur Lýðsson 
17. Jonathan Ricardo Glenn 
22. Ellert Hreinsson 
23. Kristinn Jónsson 
29. Arnór Sveinn Aðalsteinsson 
 
Sjúkralisti: Engin
Leikbann: Engin
Leikskýrsla: Breiðablik - Keflavík 5.8.2015
BlikarTV: Útvarpslýsing
 
Blikar byrjuðu leikinn með nokkrum látum og sóttu stíft á gestina. Boltinn var látinn ganga vel á milli manna og réðu bakverðir Keflvíkinga lítið við Höskuld og Kristinn Jónsson á vinstri kantinum. Samt sem áður vorum við ekki að skapa nægjanlega mikið af færum enda var sóknaruppbygging okkar stundum dálítið hæg. Gestirnir tóku smá kipp eftir rúmlega 30 mínútna leik og sköpuðu sér 1-2 hálffæri. En svo kom náðarhöggið rétt fyrir leikhlé. Kristinn fékk frábæra sendingu frá Guðjóni Pétri og renndi sér inn í teig andstæðinganna. Þar átti hann hárnákvæma sendingu á markahrókinn Jonathan Glenn sem setti knöttinn í netið með kassanum. Örfáum mínútum síðar kom fallegasta mark leiksins. Guðjón Pétur fékk góða þversendingu frá Ellerti á hægri kantinum, skallaði knöttinn ákveðið til Höskuldar sem setti hann í markið sem þéttingsfastri spyrnu. Staðan orðin 2:0 og leikurinn í raun búinn.
 
Yfirburðir Blikar í síðari háflleik voru miklir. Sóknirnar buldu á ráðviltum gestunum og Arnþór Ari skoraði glæsilegt mark með fastri kollspyrnu eftir frábæran undirbúning Kristins frá vinstri. Höskuldur bætti síðan öðru marki við með flottum skalla eftir aukaspyrnu frá Guðjóni Pétri.  Guðmundur Friðriks, Atli Sigurjóns og Andri Rafn komu inn á síðustu 20 mínúturnar og stóðu sig með sóma. Atli meiddist reyndar skömmu fyrir leikslok og þurfti að yfirgefa leikvöllinn. Vonandi er hann ekki alvarlega slasaður. Við slökuðum á síðustu 10 mínúturnar og leyfðum þeim dökkklæddu að dútla aðeins með boltann. En aðstoðardómarinn kom okkur til aðstoðar þegar hann flaggaði af mark sem gestirnir settu undir lok leiksins. En við áttum hvort sem er inni síðan í fyrri leiknum! Þar að auki var Keflavíkingurinn rangstæður!
 
Erfitt er að gera upp á milli leikmanna Blikaliðsins í þessum leik. Höskuldur var að vísu valinn maður leiksins en það hefðu Kiddi Jóns og Guðjón Pétur líka átt skilið. Kiddi var frábær á vinstri vallarhelmingnum og samvinna hans við Höskuld var snilld. Guðjón Pétur deildi og drottnaði á miðjunni og átti sendingar til vinstri og hægri allan leikinn. Gulli greip inn í réttum augnablikum og varði tvisvar frábærlega. Jonathan Glenn var sífellt ógnandi, átti marga skallabolta og skoraði gott mark. Ellert blómstraði á kantinum og vantaði herslumuninn að setja 1-2 mörk. Þau fara að detta inn hjá honum í næstu leikjum.
 
En það þýðir ekkert að gleyma sér í fagnaðarlátunum. Næsti leikur Blikaliðsins er 6 stiga leikur gegn Val í Laugardalnum á mánudaginn kl.19.15. Vinir okkar í Þrótti hafa lánað okkur félagsheimili sitt og við ætlum að mæta þar frá kl.17.30 til að hita upp með hamborgurum og léttum veigum. Þar verða allir sannir Blikar að mæta!
 
-AP

Til baka