BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Djúpur á skökkum stað

20.04.2022 image

Djúpur maður á skökkum stað

Áhorfendur streymdu á Kópavogsvöll í vorblíðunni þriðjudagskvöldið 19. apríl. Blíða er kannski heldur djúpt í árinni tekið, enda hitinn ekki beinlínis kæfandi. Það var engu að síður eftirvænting og spenna í loftinu, Besta deildin að fara í gang eftir langan og umhleypingasaman vetur. Keflvíkingar voru mættir til að etja kappi við Blika. Tvö sögufræg lið; Breiðablik einu bikarmeistararnir sem teflt hafa fram fyrrverandi atvinnumanni í tennis í sínu liði og Keflavík einu Íslandsmeistararnir sem hafa verið með bassaleikara Hljóma í sínu liði.

Byrjunarlið Blika var nánast skipað sömu leikmönnum og í fyrra – aðeins Ísak Snær Þorvaldsson var nýr í sókninni á iðagrænum Kópavogsvelli. Lið okkar manna var sem sagt þannig skipað:

Fyrir leik fékk Davíð Ingvarsson verðskuldaðan blómvönd fyrir að vera kominn í hundrað leikja klúbbinn hjá félaginu og leikmenn og áhorfendur klöppuðu í eina mínútu til minningar um Blikagoðsögnina Einar Ragnar Sumarliðason. Dómarinn flautaði síðan til leiks og tíðindamaður Blikar.is hugsaði með sér: Ísak Snær í sókninni? Nefndur skrifari, sem leggur jafnan í mikla rannsóknarvinnu fyrir hvern leik, hafði heyrt sparkspekinga fjasa yfir því að hann skyldi vera látinn spila framarlega á vellinum, hann væri vaxinn eins og djúpur miðjumaður, nefndu í því samhengi Yaya Touré og fleiri snillinga. Þar sem ég rifjaði þessi ummæli upp á fyrstu mínútu leiksins bjó Höskuldur sig undir að taka hornspyrnu. Og hver skallaði boltann í netið af harðfylgi eftir 34 sekúndur? Hver nema Ísak Snær. 1-0 á töflunni og almenn gleði í stúkunni.

image

Fyrir leik afhenti Flosi Eiríksson formaður knattspyrnudeildar Davíð Ingvarssyni verðskuldaðan blómvönd og viðurkenningarskjal fyrir að vera kominn í 100 leikja klúbbinn!

Átti eitt mark að duga?

Nokkrum mínútum síðar var Ísak – sem er víst fæddur til að vera aftarlega á vellinum – felldur inni í teig þegar hann var að komast í gegn en ekkert dæmt. Fannst öllum réttsýnum mönnum það undarleg ráðstöfun.

Fljótlega varð ljóst að Keflavík voru ólíklegir til að sækja gull í greipar okkar manna á þessu andkalda vorkvöldi. „Þeir ná ekkert að spila,“ sagði sessunauturinn í stúkunni en hann hefur marga fjöruna sopið. En Blikar voru heldur ekkert að skapa, haukfrán augu tíðindamannsins námu nokkrum sinnum fimm heimamenn sem lágu í öftustu línu gestanna en færin létu á sér standa. Voru okkar menn hættir? Átti eitt mark að duga? En þá gerðist það að Jason Daði náði vonlausum bolta úti á kanti, sendi á Viktor Karl sem gaf svona líka ljómandi fallega fyrir. Og hver var þar mættur og skallaði boltann af stakri snilld í netið? Enginn annar en maðurinn sem samkvæmt spekingum átti alls ekkert að vera inni í teig. 2-0 og tíðindamaðurinnn var enn að pára hjá sér eitthvað um Ísak Snæ, djúpan mann á skökkum stað, þegar Gísli sendi á Jason sem kassaði boltann á Viktor sem renndi honum í netið. 3-0.

Það er óhætt að segja að það hafi aðeins eitt lið verið á vellinum það sem eftir lifði af fyrri hálfleik. Viktor Karl skaut yfir á 31. mínútu, Kristinn Steindórsson sendi boltann framhjá undir lok fyrri hálfleiks, Gísli átti skot sem stefndi í vinkilinn en fór í varnarmann og í horn. Eftir hornið skapaðist mikill darraðardans í teignum en ekkert varð úr.

image

Ísak Snær skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik með Blikum í efstu deild.

Síld og reknetaveiði

Í hálfleik voru menn brattir yfir kaffinu og fannst Blikaliðið líta vel út. En hvar var Keflavík? Eins og fyrr segir leggur tíðindamaðurinn mikla áherslu á rannsóknarvinnu fyrir pistlana og svarið við spurningunni er að finna í fortíðinni. Sögulega séð hefur verið vonlaust að spila fótbolta suður með sjó svona snemma vors. Í raun var aðeins hægt að spila knattspyrnu tvö stutt tímabil á árinu, eins og sagði í blaðinu Faxa árið 1951, „en það er á vorin, áður en síldarvertíðin fyrir Norðurlandi hefst og svo á haustin, þegar henni er lokið. Þó er það svo núna, að þegar menn koma af vertíðinni fyrir Norðurlandi, tekur við reknetavertíðin sunnanlands, sem stendur fram á vetur.“ Það má því telja líklegt að hópur Keflvíkinga hafi verið þunnskipaður af þessum sökum en í júní verði allt annað upp á teningnum. Keflavík á sér enda merkilega knattspyrnusögu. Árið 1959 komust til dæmis 5., 4. og 3. flokkur í úrslitakeppni Íslandsmótsins og urðu þeir meistarar í fjórða flokki. Uppskeran lét ekki á sér standa því að fimm árum síðar urðu þeir Íslandsmeistarar – með Rúnar Júl á bassanum. Kannski ekki ósvipað og hjá Breiðabliki sem hampaði Íslandsmeistaratitlum í 5., 4. og 3. flokki á Melavellinum árið 1974. En við þurfum að bíða öllu lengur en Keflvíkingar eftir uppskerunni.

Óskar Hrafn með takta

En þessar djúpu vangaveltur tíðindamannsins virtust ekki halda vatni þegar síðari hálfleikur hófst því að Keflavík mætti miklu sterkari til leiks. Eins og allir væru komnir af sjónum, reknetaveiðum eða síld, eða hvar sem þeir höfðu haldið sig, og hefðu öðlast trú á því að þeir gætu snúið blaðinu við. En Adam var ekki lengi í Paradís – þegar 52 mínútur stóðu á klukkunni óð Höskuldur upp hægri kantinn, gaf út á Jason Daða sem „flæktist í gegnum vörnina,“ sagði sessunauturinn – dansaði í kringum varnarmennina, sagði aftur á móti hinn hlutlausi tíðindamaður. Það var engu líkara en Jason Daði hefði sótt danstíma til Keflavíkurdrottningarinnar Hennyjar Hermanns fyrir tímabilið. Staðan orðin 4-0 og leikurinn í raun búinn. Nokkrum mínútum síðar skaut Kristinn Steindórsson í varnarmann, Gísli þrumaði rétt framhjá eftir hraða sókn, Óskar Hrafn kassaði boltann utan vallar á samherja með tilþrifum við mikil fagnaðarlæti í stúkunni.

Upp úr þessu hófst tímabil skiptinga. Sölvi Snær og Omar Sowe komu inn á fyrir Ísak Snæ og Jason Daða, skömmu síðar fóru Oliver og Viktor Karl út fyrir Anton Loga og Dag Dan og síðan kom Andri Rafn inn fyrir Kristin Steindórsson. Við þetta riðlaðist leikur okkar manna og Keflvíkingar virtust aftur hafa skipt út klofstígvélum fyrir takkaskó og tóku að herja á Blika.

image

Fyrsti leikur Omar Sowe og Dags Dan í efstu deild í grænu Blika treyjunni.

Adam og Paradís

Ég nefndi Adam og Paradís áðan. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sagði í viðtali að hann hefði lánað Keflvíkingum Adam Ægi Pálsson svo að þeir gætu tekið stig af hinum toppliðunum. Adam Ægir sýndi hvað í honum býr þegar hann lagði upp mark fyrir færeysku markamaskínuna Patrik Johannessen undir lok leiksins. Í kjölfarið varði Anton Ari í tvígang en við það vöknuðu okkar menn aftur til lífsins og Sölvi Snær gerði í þrígang harða hríð að marki gestanna í uppbótartíma án þess þó að skora.

Þar með lauk þessum fyrsta leik Blika í Bestu deildinni fyrir framan þétt setna stúku og er óhætt að segja að okkar menn hafi staðist prófið með sóma. Þeir yljuðu áhorfendum með stuttu spili og fallegum mörkum – sem er alltaf góð taktík – og veitti ekki af á í svalanum í Kópavogsdal. Sigurinn var í raun aldrei í hættu, liðið lék frábærlega fyrstu 65 mínútur leiksins, var þá eins og vel smurð vél sem hikstaði aldrei. Framundan er aftur á móti alvörupróf, þegar okkar piltar etja kappi við KR-inga vestur í bæ. Þá kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir, eins og góður þjálfari sagði gjarnan. Kannski verður þar aftur einn djúpur á skökkum stað.

PMÓ

PS Það skal tekið fram að þessar sögulegu upplýsingar um knattspyrnu í Keflavík eru fengnar úr Sögu Keflavíkur – fjórða bindi eftir Árna Daníel Júlíusson, sem nú er í prentun, en útgáfa bókarinnar er mér ekki með öllu ótengd.

Myndaveisla í boði BlikarTV

Umfjallanir netmiðla. 

Breiðablik vann 4-1 sigur á Keflavík í 1. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Mörkin má sjá hér:

Klippur í boði Blikar TV:

Til baka