BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2023: Breiðablik – Fylkir

06.07.2023 image

Blikaliðið situr í þriðja sæti stigatöflunnar með 24 stig fyrir leikinn gegn Fylkismönnum á Kópavogsvelli á föstudaginn. Blikaliðið hefur skorað 25 mörk og fengið á sig 20 mörk. Tveir Blikar eru á lista yfir sex markahæstu leikmenn til þessa: Okkar maður Stefán Ingi Sigurðarson leiðir listann með 10 mörk og Gísli Eyjólfsson er einn af fjórum leikmönnum með 6 mörk.

Fylkismenn eru í 11. sæti stigatöflunnar með 12 stig og 8 mörk í mínus - hafa skorað 20 mörk og fengið á sig 28 mörk. 

Staðan í Bestu deild karla fyrir leikinn gegn Fylki:

image

Breiðablik – Fylkir

Leikurinn á föstudag verður 65. mótsleikur liðanna frá upphafi. Fyrsti mótsleikur liðanna var  árið 1978 í 16-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ.

Blikar hafa yfirhöndina í þessum mótsleikjum með 35 sigra gegn 16 - jafnteflin er 13.

Leikir í efstu deild eru 37. Sagan er með Blikum með 19 sigra gegn 10 - jafnteflin eru 8.

Blikar hafa skorað 64 mörk gegn 50 mörkum Fylkis. 

Síðustu 5 viðureignir liðanna á Kópavogsvelli:

Leikmannahópurinn

Olgeir Sigurgeirsson - næst leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi - er aðstoðarþjálfari Fylkis. Olgeir, eða Olli, spilaði 321 leiki og skoraði 39 mörk í grænu Breiðablikstreyjunni á 13 árum frá 2003 til 2015. Hann var lengi vel leikjahæsti leikmaður meistaraflokks karla eða allt þar til Andri Rafn Yeoman spilaði sinn 322. mótsleik fyrir félagið í júlí 2019, en  Andri Rafn er nú lang leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi með 416 mótsleiki. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 17. umferðar er fæddur og uppalinn í Kópavogi, nánar tiltekið í grundunum við hliðina á Snælandsskóla. Á uppvaxtarárum hans var stórglæsilegur malarvöllur þar sem gervigrasvöllurinn í Fagralundi er nú. Spáblikinn tárast hreinlega af minningunum sem skjóta upp þegar hann hugsar til baka um malarvöllinn góða.  Spáblikinn æfði knattspyrnu með Breiðabliki upp í 3. flokk þegar önnur og óhollari áhugamál náðu yfirhöndinni.

Á glæstum knattspyrnuferli sem spannaði um áratug náði SpáBliki leiksins að afreka einn Íslandsmeistaratitil í 4. flokki.

image

Fjölskylda Blikans hefur öll klæðst grænu treyjunni. Eiginkona hans var að hans sögn skíðadrottning Breiðabliks á sínum yngri árum og börn þeirra spiluðu knattspyrnu með félaginu upp alla yngri flokkana. Þegar þau fóru að nálgast fullorðinsárin hóf Blikinn að skipta sér af meistaraflokki karla sem hann hefur gert í um áratug. Við mismikla ánægju enda er hann ekki allra, að eigin sögn.

Ef SpáBlikinn er ekki á Kópavogsvelli að horfa á fótbolta er hann mjög líklega að veiða sér til matar.

image

Snorri Arnar Viðarsson - Hvernig fer leikurinn?

Ég minnist þess ekki að hafa spáð fyrir um röng úrslit í leik og nú verður engin undantekning á. Menn eru vel stemmdir og vilja sýna sínar bestu hliðar á kjaftfullum Kópavogsvellinum svona rétt áður en Evrópa verður sigruð í næstu viku. Mínir menn mæta grjótharðir til leiks og setja fjegur mörk gegn engu marki andstæðinganna. Nei, ekki nokkru einasta helvítis marki andstæðinganna takk. Damir minn mun setja eitt.

Menn ættu að setja töluverða peninga á þessi úrslit enda auðveldasta leiðin til að fara með slatta af Cold, Hard Cash inn í helgina.

Áfram Breiðablik!

image

SpáBlikinn Snorri Arnar Viðarsson klár í stuðning á leik Breiðabliks einhversstaðr í Evrópu.

Dagskrá fyrir leik

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á föstudag kl.19:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Svipmyndir frá fyrri leik liðanna í sumar:

Til baka