Dagskráin fyrir leik > Blikasigur 2021 í 4 marka leik > Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið!" /> Dagskráin fyrir leik > Blikasigur 2021 í 4 marka leik > Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið!">

BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta Deildin 2022: Víkingur R. - Breiðablik

13.05.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Sjötti leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar eru taplausir á toppnum > Skellum okkur í Fossvoginn > Miðasala á Stubbur > Sagan: 87 mótsleikir > Gamli leikurinn: Víkingur - Breiðablik 1980  > Blikahópurinn 2022  > SpáBlikinn er Helgi "Basli" Helgason > Dagskráin fyrir leik > Blikasigur 2021 í 4 marka leik > Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið!

Víkingur R. - Breiðablik

Næsti leikur okkar manna í Bestu 2022 er gegn Íslandsmeisturum Víkings á þeirra heimavelli í Víkinni.

Flautað verður til leiks á Víkingsvelli kl.19:15 á mánudagskvöld. 

Miðasala er á Stubbur app

Bílastæðamál - Víkingur  er ekki svo lánsamur að vera með mikið af bílastæðum. Nánar HÉR um nokkur bílastæði sem eru innan kílómeters fjærlægð frá vellinum ( 10-15 mín labb á völlinn ).

Staðan eftir 5 umferðir - Blikar taplausir á toppnum:

image

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá Blika í stúkunni með í stuðið!

image

Saga & Tölfræði

Inbyrðis viðureignir liðanna frá 1957 eru 87 leikir. Deildarleikir eru 67: 45 leikir í A-deild og 22 leikir í B-deild.

Jafnt á öllum tölum

Liðin skipta sigrum bróðurlega á milli sín. Hlutfall 87 mótsleikja er: 33-21-33. 

Í efstu deild munar aðeins einum leik sem Blikar hafa vinninginn: 16 Blikasigrar, 14 jafntefli og 15 sinnum hafa Víkingar sigrað. 

Og skorið í efstu deild er líka jafnt. Mörkin 128 sem liðin hafa skorað skiptast jafnt: 64 vs 64. 

Vetrarleikir liðanna eru tveir:

Fyrri leikurinn var úrslitaleikur Bose mótsins á Kópavogsvelli í desember 2021. Blikar unnu nokkuð auðveldan 5:1 sigur. Nánar. 

Seinni leikurinn var í Meistarakeppni KSÍ. Leikið var í Vikinni og það voru Víkingar sem fóru með sigur af hólmi 1:0. Nánar. 

Síðustu þrír leikir í efstu deild í Víkinni:

Gamli leikurinn

Leikur Víkinga og Breiðabliks á Laugardalsvelli 8. júní 1980 varð fyrir valinu sem Gamli leikurinn.

Saga innbyrðis viðureigna liðanna nær alla leið til fyrsta keppnistímabils Blika í knattspyrnu árið 1957. Fyrsti leikur liðanna var í gömlu annarri deildinni og fór fram á Melavellinum 17. júlí 1957. Leiknum lauk með stórsigri Víkinga 6:2. Fyrsti sigur okkar manna á Víkingum á útivelli kom 1962 í annarri deild. Leikið var á Melavellinum 1. júlí 1962. Leiknum lauk með 1:2 sigri Breiðabliks. 

Gamli leikurinn er fyrsti sigur okkar manna á Víkingum í A-deild - 8. júní 1980:

Fyrsti sigur Blika gegn Víkingum á útivelli í efstu deild

"Ég er mjög ánægður með strákana ... nú börðust þeir allir og það uppskar sætan sigur" sagði Jón Hermannson, þjálfari Blika eftir leikinn við blaðamann Tímans. 

Blikar fengu óskabyrjun. Strax á 6. mín komust 3 Blikar í gegn. Sigurður Grétarsson lét vaða á markið en Diðrik varði. Boltinn hrökk að markinu þar sem Ingólfur Ingólfsson kastaði sér fram og stangaði boltann yfir marklínuna. Víkingar voru fljótir að jafna metin með marki frá Þórði Marelssyni. Sigurmark Sigga Grétars á 63. mín. var stórglæsilegt. Siggi fékk sendingu út á vinstri kantinn frá Þóri Hreiðarssyni, þar sem hann skaut viðstöðulausu skoti að marki Víkinga. Boltinn í netinu og fyrsti sigur á Víkingum á útivelli í efstu deild í höfn. 

"Blikarnir léku oft á tíðum mjög vel - sérstaklega Sigurður Grétarsson, Vignir Baldursson og Einar Þórhallsson, þá varði Guðmundur Ásgeirsson mjög vel í markinu - hann var besti maður vallarins. Hinrik Þórhalsson var besti leikmaður Víkinga." SOS.

Lið Breiðabliks í leiknum var þannig skipað:

Guðmundur Ásgeirsson (M) - Helgi Helgason - Tómas Tómasson - Einar Þórhallsson - Valdimar Valdimarsson - Vignir Baldursson - Þór Hreiðarsson - Sigurjón Kristjánsson - Helgi Bentsson - Sigurður Grétarsson - Ingólfur Ingólfsson - Ólafur Björnsson (VM). 

Meistaraflokkur Breiðabliks árið 1980

Blikahópurinn 2022

Leikmannahópur Breiðabliks keppnistímabilið 2022 (smella á mynd).

Í leikmannahópi Víkinga eru tveir leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki.

Karl Friðleifur Gunnarsson er uppalinn Bliki. Hann skrifaði undir samning við Breiðablik í desember 2017. Hann spilaði 17 mótsleiki í grænu treyjunni. Karl var lánsmaður hjá Gróttu 2020 þar sem hann spilaði 17 leiki og skoraði 6 mörk. Víkingur R fékk hann til sín sem lánsmann 2021 og gerði svo samning við hann fyrir keppnistímabilið 2022. 

Davíð Örn Atlason söðlaði um úr Víkinni og gerði samning við Breiðablik fyrir keppnistímabilið 2021. Í nóvember 2021 náðu félögin samkomulagi um félagaskipti hans yfir í Fossvoginn aftur. Davíð Örn lenti í slæmum meiðslum og spilaði því mun minna í græna búningnum en ætla mætti. Í heild lék hann 16 leiki með Breiðabliki síðasta sumar - 10 leiki í deildinni, 5 evrópuleiki og 1 bikarleik.

Í þjálfarteymi Víkinga er markmannsþjálfarinn Hajrudin Cardakilja sem varði mark Blika með góðum árangri frá 1992 til 1996. Kardaklía kom til Breiðabliks frá Bosníu fyrir keppnistímabilið 1992 og spilaði 107 leiki með Breiðabliki. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 6. umferðar er fæddur 1952 og hefur búið alla tíð í Kópavogi. Hann fór snemma að leika sér í fótbolta. Lék 167 meistaraflokksleiki í grænu treyjunni en endaði svo í meistaraflokki við hliðina á Gulla bróður. SpáBlikinn endaði knattspyrnuferilinn með Augnablik þar sem hann lék nokkur ár, þar til sjálfhætt var. Eftir grunnskóla lá leiðin í gamla kennó og síðan í Háskóla Íslands. Hann kenndi fyrst í Kársnesskóla og síðan í Snælandsskóla. Síðustu 17 árin var hann svo deildarstjóri á mið- og unglingastigi Snælandsskóla en fór á eftirlaun fyrir 3 árum og hefur aldrei haft það eins notarlegt. Blikinn á 3 börn, tvö þeirra hafa leikið fótbolta með Blikum, það yngsta er reyndar enn að. Tómstundir eru nokkrar, hjólreiðar og útivera, tónlist, myndlist o.fl. Er núna aðallega bara að lifa lífinu áhyggjulaus, enda að verða dökkhærður aftur (er að yngjast svo mikið).

Helgi "Basli" Helgason – Hvernig fer leikurinn?

Fékk þá skemmtilegu beiðni, að gerast "spábliki" væntanlegs leiks okkar við Víking vegna tengsla minna við bæði lið, eins og það var orðað. Ég uppaldi Blikinn gerðist nefnilega svo djarfur hér á árum áður að leika með Víkingi í heil 4 tímabil. Þetta var á þeim árum þegar það töldust "drottinssvik" að leika með öðru félagi en uppeldisfélagi sínu. Slíkum gjörningum fylgdi þá nánast alltaf eilíf útskúfun og hneykslan. Í dag er öldin önnur og nú þykir ekki tiltökumál þó leikmenn skipti um lið nokkrum sinnum á stuttum ferli. Við eigum í dag fjöldann allan af uppöldum Blikum í mörgum af bestu liðum landsins og nægir þar að nefna t.d. lið eins og FH, KR og að sjálfsögðu Íslandsmeistara Víkings.

Ég hef verið mjög sáttur við hvernig leikur okkar manna hefur verið að þróast upp á síðkastið og árangurinn er eftir því. Þegar þessi orð eru skrifuð sitjum við á toppi deildarinnar með langflest mörk skoruð og fæst mörk fengin á okkur. Það sem gleður mig þó mest þessa dagana er hversu beinskeittir við erum orðnir fram á við og fljótir í okkar sóknaraðgerðum um leið og boltinn vinnst. Ég er ekki hrifinn af 15-20 sendinga bolta milli manna til þess eins að sniglast fram yfir miðjulínuna, vitandi að þá verða allir liðsmenn andstæðinga okkar búnir að "leggja rútunni" í eigin vítateig. Ég vil hafa sóknir okkar snöggar, stuttar og snarpar og enda þær með skotum að marki. Þetta hefur mér einmitt fundist vera að gerast núna í byrjun þessa Íslandsmóts og þess vegna er ég svo brosmildur þessa dagana. Með þetta í farteskinu geri ég ráð fyrir hörkuleik sem við vinnum 2-0

Blikakveðja

Basli

image

Basli SpáBliki segist bara lifa lífinu og vera að yngjast eins og myndin sýnir og sannar.

Dagskrá

Víkingar ætla að opna völlinn kl: 17:30, kveikt verður í grillinu hjá þeim og það verður boðið uppá hamborgara og pizzur á leiknum. Kveikt verður á tónlist fyrir leik og reynt að búa til smá stemmingu. Flautað verður til leiks á Víkingsvelli kl.19:15 á mánudagskvöld. 

 

Bílastæðamál - Víkingur  er ekki svo lánsamur að vera með mikið af bílastæðum. Nánar HÉR um nokkur bílastæði sem eru innan kílómeters fjærlægð frá vellinum ( 10-15 mín labb á völlinn ).

Miðasala er á Stubbur app

Leikurinn verður sýndir á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Síðasta deildarleik liðanna lauk með 4:0 sigri okkar manna: 

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum Blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

Til baka