BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Svart og hvítt

11.04.2022 image

Blikar urðu að bíta í það súra epli að tapa 0:1 fyrir Víkingum í leiknum ,,Meistarar meistaranna“ í gær á Víkingsvellinum. Leikurinn var eins og svart og hvítt þar sem heimapiltar voru mun betri í fyrri hálfleik en við í þeim síðari. Okkur var hins vegar fyrirmunað að koma tuðrunni í markið og því fór sem fór. 

11 fyrstu og bekkur:

image

En í haust mun engin muna eftir þessum leik og við munum sýna okkar rétta andlit í 90 mínútur þegar Besta deildin byrjar í næstu viku. Víkingar byrjuðu mun betur í leiknum og vorum við eitthvað áttavilltir í byrjun. Við náðum ekki upp okkar hraða og árangursríka spili og öflugir Fossvogspiltar áttu svör við öllum okkar sóknartilburðum. Sendingarnar okkar voru ekki heldur nákvæmar og vorum við í raun heppnir að vera bara einu marki undir í leikhléi.

Það var hins vegar allt annað Blikalið sem mætti í seinni hálfleikinn. Við tókum strax yfir leikinn og gerðum harða hríð að marki heimapilta. Af einhverjum undarlegum orsökum dæmdi dómarinn ekki vítið þegar markvörður Víkinga felldi Jason innan vítateigs og hvað eftir annað vörðu varnamenn Fossvogsliðsins skot Kópavogsdrengjanna.

Kristinn Steindórsson átti síðan hörkuskot sem Ingvar markvörður varði á ótrúlegan hátt.

En smám saman fjöruðu sóknartilburðir okkar út. Þrátt fyrir að Víkingar misstu mann af velli tókst okkur ekki að skora mark og Víkingar því sigururvegarar í þessari keppni.

Síðari hálfleikur lofar hins vegar góðu um baráttuna framundan. Við þurfum hins vegar að byrja frá fyrstu mínútu því það gengur ekki að spila bara vel í 45 mínútur.

Liðið hefur nú rúma viku til að fínpússa sig fyrir fyrsta leikinn sem verður gegn Keflvíkingum á Kópavogsvelli þriðjudaginn 19. apríl kl.19.45!

-AP

image

Karl Friðleifur og Davíð Ingvars sem var að spila hundraðasta mótsleikinn fyrir Breiðablik. Mynd: KSÍ

Til baka