BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Breiðablik - Víkingur R.

12.08.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Sautjándi leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar með 8 stiga forskot á toppnum > Fáum Reykjavíkur Víkinga í heimsókn á Kópavogsvöll > Miðasala á Stubbur > Sagan: 88 mótsleikir > Gamli leikurinn: Breiðblik - Víkingur 1976 > Blikahópurinn 2022  > Sverrir D. Hauksson er SpáBliki leiksins  > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Breiðablik - Víkingur R.

Næsti leikur Breiðabliks í Bestu deild karla er heimaleikur okkar manna gegn Reykjavíkur Víkingum.

Bæði liði voru í eldlínunni í Sambandsdeild UEFA á fimmtudagskvöld.

Blikamenn lögðu hálfa Evrópu undir fót og ferðuðust liðlega 8000 km fram og til baka til Istanbul í Tyrklandi til að spila seinni leikinn við Basaksehir í 3. umferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA 2022/2023. Blikar áttu við ofurefli að etja - töpuðu leiknum 3:0 og rimmunni samanlagt 6:1. Fyrir þáttökuna í Sambandsdeild Evrópu 2022/203 var mesti árangur Blikamanna í Evrópukeppnum að klára 3 umferðir árið 2013 og í fyrra. Markmið næsta árs hlýtur að vera að klára a.m.k. 3. umferðir - þriðja árið í röð.

Andstæðingar okkar á Kópavogsvelli áttu kappi við Lech í 3. umferð Sambandsdeildar Evrópu á Stadion Poznań vellinum í Póllandi. Leikur Víkinga fór í framlengingu og lauk með 4:1 sigri Lech og samanlagt 4:2. Þáttöku Reykjavíkur Vikinga í Evrópukeppnum í ár er því einnig lokið. 

Flautað verður til leiks gegn Víkingum á Kópavogsvelli kl.19:15 á mánudagskvöld. 

Miðasala er á Stubbur app

Græna stofan opnar 18:00, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Leikurinn verður sýndur í beinni á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki komast á völlinn. 

Kópacabana menn munu keyra upp stemninguna í stúkunni. Við hvetjum alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kópavogsvelli.

Staðan í Bestu deild karla eftir 16 umferðir - Blikar með 8 stiga forskot á toppnum, en Víkingar eiga leik til góða. 

image

Sagan & tölfræði

Inbyrðis viðureignir liðanna frá 1957 eru 88. Deildaleikir eru 68: 46 leikir í A-deild og 22 leikir í B-deild.

Liðin skipta sigrum nokkuð bróðurlega á milli sín. Hlutfall allra 88 mótsleikja er: 34 - 21 - 33 Blikum í hag. 

Í efstu deild er staðan jöfn. Bæði lið hafa unnið 16 leiki og 14 sinnum hafa liðin gert jafntefli.

Mörkin eru samtals 131 sem skiptast þannig að Blikar hafa skorað 67mörk gegn 64 mörkum Víkinga.

Síðustu 4 leikir í efstu deild á Kópavogsvelli (heimaleikur okkar 2020 féll niður vegna Covid-19):

Gamli leikurinn

Gamli leikurinn að þessu sinni er frá 1976. Sem sagt fyrsti sigurleikur okkar manna á Víkingum á Kópavogsvelli. Völlurinn nýr (vígður 1975) og Blikar í stuði og vinna leikinn 3:1. 

21.07 20:00
1976
Breiðablik
Víkingur
3:1
6
A-deild | 10. umferð
Kópavogsvöllur | #

Fyrirsagnir blaðanna daginn eftir leik: Þjóðviljinn "Víkingur úr leik". Vísir "Nú sýndu blikarnir víkingum klærnar". Tíminn "Blikarnir skelltu Víkingum". Morgunblaðið "Blikarnir bundu enda á vonir Víkinganna" og Dagblaðið "Breiðablik batt endi á meistaravonir Víkings!"

"Víkingur hefur einfaldlega misst af möguleikanum á Íslandsmeistaratign í ár eftir tap í gærkvöld fyrir Breiðablik á Kópavogsvelli 3-1." - og -  "Þegar á heildina er litið er sigur Blikanna sanngjarn. Liðið gerði sér mun gleggri hugmyndir en Víkingar hvernig á að sækja - skemmtilega útfærðar skyndisóknir komu Víkingum oft í vandræði. Blikunum hefur farið mikið fram frá byrjun móts þegar liðið virkaði nánazt sem meðal 2. deildarlið. Bestu menn Blikanna voru þeir bræður Einar Þórhallsson og Hinrik, sem með leikni sinni og hraða gerði oft usla vörn Víkings. Eins kom Gísli Sigurðsson vel frá leiknum, mjög leikinn og skemmtilegur leikmaður. Já; ég held að ég megi fullyrða að Blikarnir hafi átt sinn bezta leik í sumar" skrifar Hallur Halls hjá Dagblaðinu. 

Mörk Blika skoruðu:

1:0. Hinn leikni Gísli Sigurðsson skoraði þarna eitt glæsilegasta mark sem sést hefur á Kópavogsvelli. Fær sendingu sem hann vippar með hælnum inn í vítateig Víkings og skorar svo með þrumuskoti - óverjandi fyrir Diðrik markvörð Víkings. 2:0. Vignir Baldursson með skota af 20 metra færi sem breytir um stefnu af varnarmanni og bæng! 3:1. Blikar fá hornspyrnu sem Einar Þórhallsson skallar fyrir fætur Hinriks Þórhallssonar sem skorar af stuttu færi. 

Valur varð Íslandsmeistari 1976 með 25 stig. Fram fylgdi fast á eftir með 24 stig. Víkingur R. og Breiðablik enduðu um miðja deild með 18 stig í 4. og 5. sæti. Þróttur R. féll með 4 stig. 

Tvennir bræðu tók þátt í leiknum. 

image

Bestu menn Blikanna í leiknum voru þeir bræður Einar og Hinrik Þórhallssynir

image

Bræðurnir Gunnlaugur og Helgi Helgasynir voru andstæðingar í leiknum. Helgi (Basli) spilaði að sjálfsögðu með Breiðabliki til margra ára. Gulli er sá vinstra megin og Basli hægra megin á myndinni. Mynd: Þjóðviljinn, Einar

Blikahópurinn 2022

Í leikmannahópi Víkinga eru tveir leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki.

Karl Friðleifur Gunnarsson er uppalinn Bliki. Hann skrifaði undir samning við Breiðablik í desember 2017 og spilaði 17 mótsleiki í grænu treyjunni. Karl var lánsmaður hjá Gróttu 2020 þar sem hann spilaði 17 leiki og skoraði 6 mörk. Víkingur R fékk hann til sín sem lánsmann 2021 og gerði svo samning við hann fyrir keppnistímabilið 2022. 

Davíð Örn Atlason söðlaði um úr Víkinni og gerði samning við Breiðablik fyrir keppnistímabilið 2021. Í nóvember 2021 náðu félögin samkomulagi um félagaskipti hans yfir í Fossvoginn aftur. Davíð Örn lenti í slæmum meiðslum og spilaði því mun minna í græna búningnum en ætla mætti. Í heild lék hann 16 leiki með Breiðabliki síðasta sumar - 10 leiki í deildinni, 5 evrópuleiki og 1 bikarleik.

Danijel Dejan Djuric á 2 leiki með meistarflokki í Fótbolta.net mótinu 2018 og nokkra tugi leikja með yngri flokkum Breiðabliks á árunum 2014 - 2018. 

Í þjálfarteymi Víkinga er markmannsþjálfarinn Hajrudin Cardakilja sem varði mark Blika með góðum árangri frá 1992 til 1996. Cardakilja  kom til Breiðabliks frá Bosníu fyrir keppnistímabilið 1992 og spilaði 107 leiki með Breiðabliki. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 17. umferðar er búinn að vera Bliki í ein 57 ár eða þar um bil. Stundaði knattspyrnu með yngri flokkunum, en varði þó fleiri stundum við stjórnunarstörf fyrir félagið.

Sverrir Davíð Hauksson - Hvernig fer leikurinn?

Víkingur spilar í dag mjög svipaðan bolta og okkar leikmenn, þeir hófu tímabilið með smá brasi, þar sem við unnum þá m.a. 3:0 þegar við heimsóttum þá í Víkina.  Þeir eru á góðu skriði núna, eru líkt og við skeinuhætti fram á við.

Það eru veikleikar í varnarleiknum hjá okkur þessa stundina, ég á ekki von á öðru en þjálfarteymi okkar girði fyrir þann vanda sem er fyrir hendi, enda hafa þeir sýnt og sannað það fyrir okkur stuðningsfólki að það standast þeim fáir snúninginn.

Mín spá fyrir þennan leik er sú að hvorugt liðið muni taka mikla áhættu í byrjun, en þegar líður á leikinn þá fara hlutirnir að gerast, við munum vinna þeinna leik með einu marki, 2:1 fyrir okkur, Gísli verður með gott mark sem hann setur undir þverslánna og Ísak skorar hitt markið eftir fyrirgjöf frá hægri.

Með Blikakveðju,

Sverrir Davíð Hauksson

image

SpáBlikinn með sínu góða fólki á Gunnfríðarstöðum í Langadal

Dagskrá

Græna stofan opnar 18:00, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudag kl.19:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn munu keyra upp stemninguna í stúkunni. Við hvetjum alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kópavogsvelli.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

BlikarTV: Klippur úr fyrri leik liðanna í Víkinni 7. maí:

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

Til baka