BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fleiri mörk og stöðugleiki óskast

15.08.2017

Fallegt ágústkvöld – 12 stiga hiti og blankalogn.  Tilvalið að róa á kajak í farvötnum Skerjafjarðar eða skella sér á golfvöllinn.   Nei, ferðinni var heitið á Kópavogsvöllinn að horfa á Breiðablik gegn Víkingi Reykjavík í 15.  umferð Pepsi deildarinnar 2017.   Fyrir leikinn vorum við Blikar með 18 stig og Víkingur með 19 og leikurinn því mikilvægur fyrir bæði lið að skilja sig frá fallbaráttunni. Liðin þar fyrir neðan eru óþægilega nálægt okkur í töflunni.

Það voru ekki góðar fréttir að Elfar Freyr var ekki leiktækur vegna handarmeiðsla.  Í vörninni Dino, Damir, Þórður Steinar og Davíð.  Á miðjunni Yeoman, Gísli og Arnþór Ari.  Á vængjunum voru Martin og Kiddi Jóns en Aron var frammi.   Gulli auðvitað í markinu.

Blikar byrjuðu með látum og við vorum komnir með forystu eftir aðeins 3 mínútur.  Martin hóf skyndisókn og Arnþór Ari lagði boltann laglega til Arons til vinstri.  Hann stýrði knettingum fallega fram  hjá Róbert í Víkingsmarkinu. Vel gert hjá Aron og þetta leit vel út. 

En það eru einhver örlög okkar í sumar að halda forystu helst ekki lengur en 10 mínútur eftir skorað mark.  Eftir þann tíma fékk Þórður Steinar að finna illilega fyrir því að Geoffrey Castillon er getulega á öðrum stað en en flestir aðrir framherjar í Pepsi deildinni.  Hollendingurinn skildi okkar mann eftir á vinstri vængnum og afgreiddi boltann undir Gulla í markinu og jafnaði leikinn.  Við tók stöðubarátta á miðjunni en alger kaflaskil urðu á 37 mínútu þegar Kristinn Jónsson fékk sitt annað gula spjald og fékk óumbeðið leyfi til þátttöku í leiknum.  

Trúlega var síðara spjaldið verðskuldað en það fyrra var algerlega út úr korti.  Það spjald var reyndar bara ein af fjölmörgum ákvörðunum Guðmundar Ársæls dómara í leiknum sem virkaði tvímælis. Hann hefur í verið í frystikistu dómaranefndarinnar lengst af í sumar og hefði gjarnan mátt vera þar áfram.  Frá fyrstu mínútu hafði hann engin tök á leiknum og virtist hreinlega ekki í formi til að dæma leik í efstu deild. Yfirferð hans var lítil, ákvarðanir teknar seint og illa auk þess sem samræmi í dómum var ekkert.  Sennilega hefur þetta ekki breytt neinu varðandi úrslit leiksins en það á ekki að bjóða áhorfendum sem borgað hafa 2.000 krónur að horfa á knattspyrnuleik upp á slíkt. Betri sendingu næst á Kópavogsvöll, takk.

Þetta breytti gangi leiksins mikið – við færðum okkur til baka og vel spilandi Víkingar sköpuðu sér fleiri marktækifæri eðli málsins samkvæmt.  Sigurmarkið lá í loftinu og kom upp úr hornspyrnu – enn einu sinni í sumar.  Castillion - sem var besti maður vallarins - sneri á okkar menn og afgreiddi knöttinn uppi hægra megin. Gulli gerði heiðarlega tilraun en tókst ekki að verja.  Segja má reyndar að fyrirliðinn hafi bjargað okkur frá stærra tapi með frábærri markvörslu í leiknum, virkilega fínn dagur hjá honum og var hann besti maður Blika í leiknum ásamt Andra Rafn Yeoman sem barðist eins og ljón allan tímann að venju.  Mikil gæfa okkar að hann skuli hafa endurnýjað samning sinn við Breiðablik í síðustu viku. 

Við fengum færi úr skyndisóknum en Gísli og Aron náðu ekki að nýta þau helstu.   Blikar gerðu 3 skiptingar í leiknum. Sveinn Aron Guðjohnsen, nýliðinn Davíð Ingvarsson og Sólon Breki Leifsson komu inn fyrir Arnþór Ara, Dino og Þórð Steinar. Miklar stöðubreytingar urðu innan liðsins eftir skiptingarnar.  Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra og er áhyggjuefni.  Ljóst er að það vantar hryggjarstykki í varnarleiknum með fjarveru Elfars Freys en vonandi verður hann klár í næsta leik.  Það er heldur ekki ásættanlegt að eftir 15 umferðir skuli markahæsti leikmaðurinn okkar vera með 3 mörk – það nær ekkert lið árangri sem hefur ekki afgerandi markaskorara.

Næsti leikur er á sunndaginn kemur og þá förum við vestur í Ólafsvík og leikum gegn Víkingum sem hefur vaxið ásmegin undanfarið og munu bíta í skjaldarendur.  Það er því ekkert Kristnihald undir Jökli sem við erum að fara að heimsækja heldur dauðans alvara. Ef sá leikur fer illa erum við lentir í illvígri fallbaráttu sem er ekki það sem stefnt var að í vor.

Hákon Gunnarsson

Umfjallanir annarra netmiðla

Myndir í boði BlikarTV

Til baka