BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar fengu skell gegn nýliðunum

02.05.2017

Þá er boltinn farinn að rúlla á iðagrænum Kópavogsvelli í PEPSI deildinni á því herrans ári 2017. Mótherjar Blika voru nýliðar KA og eins og lesa má hér er giska langt frá siðust viðureign þessara liða í efstu deild.
Það var sannkallað skítaveður í dag, Austan og suðaustan slagviðri lengst af og sú gula vel og vandlega falin á bak við ský. Hiti 7°C og raki 83%. Skyggni lítið.

En veðrið var ekki það versta. Snúum okkur að leiknum sjálfum.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Guðmundur Friðriksson - Damir Muminovic - Gísli Eyjólfsson – Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason – Martin Lund Pedersen – Aron Bjarnason – Hrvoje Tokic
Varamenn:
Patrik Sigurður Gunnarsson(M) – Kolbeinn Þórðarson - Höskuldur Gunnlaugsson - Viktor Örn Margeirsson -  Sólon Breki Leifsson – Ernir Bjarnason – Willum Þór Willumsson

Sjúkralisti: Enginn
Leikbann: Enginn

Blikar mættu til leiks með nokkuð mikið breytt lið frá fyrra ári. Nokkrir lykilmenn undanfarinna ára horfnir á braut og Blikar hafa bætt við sig 3 framlínumönnum auk þess sem ungir og efnilegir menn eru að banka á dyrnar. Blikum hefur ekki gengið sérstaklega vel á undirbúningstimabilinu og það hafa sumir taugaveiklaðir Blikar af eldri kynslóðinni litið á sem góðan fyrirboða. Það er ekki gott að vera alltaf að vinna vorleikina, segja menn. Svona kjaftæði er mér alveg ómögulegt að skilja og þetta minnir á það sem sagt var um konu nokkra í fjarlægri sveit sem jafnan bar sig aumlega og fann fátt jákvætt í því sem betur fór. Um þá konu var sagt að henni liði sjaldan vel, nema illa.

Athygli vakti að Gísli Eyjólfsson hóf leikinn í miðvarðarstöðunni við hlið Damirs  þannig að sennilega hefur Viktor ekki verið klár í leikinn þrátt fyrir að vera á skýrslu. Gísli er ekki vanur þessari stöðu en getur náttúrulega spilað hvar sem er ef sá gallinn er á honum. Vonandi nær Viktor sér fljótt.
Leikurinn fór rólega af stað og leikmenn beggja liða áttu í mesta basli með aðstæður og sjálfa sig á upphafsmínútunum. Blikar áttu fyrsta færið eftir hornspyrnu en skot Davíðs fór í KA mann og naumlega framhjá . Skömmu síðar lentu Blikar í smáveseni eftir misskilning í varnarleiknum og það var aðeins of mikið um slíkt fyrir minn smekk og það var óöryggi yfir varnarleknum þegar KA menn komust  í námunda við okkar mark. Áfram var basl á leikmönnum beggja liða en vatnaskil urðu í leiknum þegar KA menn náðu forystunni á 18. mínútu. Blikar að gaufa með boltann við eigin vítateig og þar var hann einfaldlega hirtur af þeim og KA maður hljóp með sama bolta eftir víteigslínunni og komst þar á milli bakvarðar og miðvarðar og renndi boltanum inn fyrir þar sem annar KA maður kom á hlaupum og renndi boltanum undir Gunnleif. 0-1 fyrir gestina.  
Þetta mark skrifast alfarið á eigin klaufagang okkar manna og það sem verra var að leikur okkar manna fór nú í algera þvælu á sama tíma og KA menn hófu nú áætlunarferðir upp hægri vænginn og komust hvað eftir annað í  góða stöðu og fengu allan heimsins tíma til að dæla boltanum fyrir markið. Varnarleikur okkar manna í molum og mikið óöryggi í sendingum. KA menn gengu á lagið og efldust til muna og virtust alltaf vera fleiri inni á vellinum. Hvað eftir annað komu þeir með snöggar skiptingar, tvöföldu á bakverðina og djöfluðu boltanum fyrir. Gestirnir náðu þó ekki að nýta sér þetta og smám saman komust Blikar inn í leikinn aftur og áttu álitlegar sóknir sem því miður urðu flestar endasleppar. Þarna vantaði meiri gæði í sendingar og svo hefði kannski mátt láta reyna á markvörð gestanna og prófa skot á rennblautum vellinum þó ekki væri nema einu sinni. Okkar menn þó aðeins að klóra í bakkann á þessum kafla og maður bjóst alveg eins við jöfnunarmarkinu hvað og hverju þó það lægi ekki beinlínis  í loftinu, því lítið var jú um færi. En þó þetta væri skárra en áður hjá okkar mönnum, þá voru það samt gestirnir sem uppskáru. KA menn fengu aukaspyrnu rétt utan vítateigs okkar manna og þó þetta væri umdeilanlegur dómur í meira lagi þá breytir það því ekki að okkar menn sváfu gersamlega á verðinum þegar gestirnir tvöfölduðu forystuna í kjölfarið. Gersamlega steinrunnir. Nóg var samt af mannskap á svæðinu. Þetta var svo aulalegt að það tekur engu tali.
Með 0-2 á bakinu fóru menn inn í hálfleikinn.

Í þeirri von að Eyjólfur myndi etv. hressast í seinni hálfleik, slokruðu menn í sig kaffið í snarheitum, bölvuðu veðrinu og spilamennskunni. Einkum þó varnarleiknum og nánast algerum skorti á grimmd.

Síðari hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri. Gestirnir ákveðnari í öllum sínum aðgerðum og við náðum lítið að skapa fram á við.  Gestirnir léku hinsvegar á alls oddi og um miðjan hálfleikinn gerðu þeir harða hríð að okkar marki og það skilaði 3ja markinu þegar þeir löbbuðuð sig inn fyrir vörn okkar manna og það skal ekki tekið af KA manninum að hann kláraði færið vel en að sjá varnarmenn okkar skokka á eftir honum inn í teiginn var grátlegt og óboðlegt. Hvað er í gangi í hausnum á mönnum? Staðan orðin 0-3 fyrir KA Blikar vissu ekki sitt rjúkandi ráð.
Þegar þarna var komið var Höskuldur ný kominn inn fyrir Arnþór Ara og skömmu áður höfðu Blikar átt fyrsta alvöru skotið að marki gestanna en markvörðurinn varði.
Blikar minnkuðu muninn strax og þar varð að verki Andri Rafn sem ákvað að skjóta á markið eftir að KA mönnum mistókst að hreinsa frá, og viti menn, í netinu lá boltinn og sannaðist þar hið fornkveðna að þeir fiska sem róa. 1-3, og Blikar færðust nú allir í aukana en sem fyrr voru sendingar ónákvæmar þegar komið var upp að teig gestanna og þéttur varnarmúr fyrir. Blikar gerðu enn breytingar á liði sínu. Útaf fór markaskorarinn Andri Rafn, og inn kom bráðefnilegur ungur leikmaður, Kolbeinn Þórðarson sem lét strax finna fyrir sér og stimplaði einn gestanna fljótlega. Hlaut gult spjald að launum, en það er fyrirgefið því það var þó smá mannsbragur á þessu. Skömmu síðar þrumaði Oiver í þverslá úr aukaspyrnu og enn gerðu Blikar breytingu þegar Sólon Breki kominn fyrir Aron Bjarnason. Sólon var nálægt því að skora en aftur fór boltinn í slána. Þar fór síðasta færi Blika og skömmu síðar flautaði dómarinn til leiksloka í þann mund að Blikar heimtuðu víti, en fengu ekki.

Þetta var alls ekki ekki sú byrjun á mótinu sem menn voru að vonast eftir og ljóst að Blikar þurfa að lagfæra ýmislegt í sínum leik ef þeir ætla að standa við stóru orðin.  Varnarleikurinn var ósannfærandi og kraftlaus og liðið var sundurslitið og langt á milli varnar og miðju. Sendingafeilar margir og menn létu henda sér og ýta til og frá eins og heypokum. Það þarf að mæta í návígin og hnykla vöðvana aðeins því eins og sýndi sig er valtað yfir menn ef það vantar. Og það vantaði talsvert upp á það í gær. Og ég nenni ekki að hlusta á það að það sé ekki okkar stíll. Það er einfaldlega ómissandi partur af leiknum.

Menn munu ekki sækja mörg stig í Grafarvoginn í næsta leik með álíka spilamennsku og þurfa heldur betur að skerpa sig um allan völl. Bakið er upp að vegg og þá er bara eitt að gera. Eða ætla menn að hlusta á PEPSI sérfræðingana dósera lon og don um fyrirsjáanleika og andleysi Blikanna, enn og aftur? Ég er fyrir minn smekk löngu búinn að fá nóg af því. Nú girða menn sig í brók og ekkert helv.. kjaftæði.

Næsti leikur er á útivelli gegn Fjölnismönnum næstkomandi mánudag og hefst kl.19:15.

OWK

Umfjöllun netmiðla um leikinn. 

Til baka