BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Breiðablik - ÍBV

14.09.2022 image

Grafík - Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Tuttugasti og annar leikur okkar manna í Bestu deild karla 2022 > Blikar með 6 stiga forskot á toppnum > Fáum Eyjamenn í heimsókn > Miðasala á Stubbur > Sagan: 100. mótsleikur liðanna > Gamli leikurinn: Breiðablik - ÍBV 1980 > Blikahópurinn 2022  > Willum Þór er SpáBliki leiksins  > Dagskrá fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Breiðablik - ÍBV

Næsti leikur okkar manna í Bestu deild karla er heimaleikur geg frísku liði Eyjamanna. Þetta er síðasti leikur liðsins fyrir úrslitakeppnina sem hefst í október. Flautað verður til leiks kl.14:00 á laugardaginn. 

Fyrr í sumar slógu Blikar 23 ára met Eyjamanna þegar við unnum sextánda heimasigur okkar í röð á Kópavogsvelli. Fyrra metið átti gestaliðið í leiknum á laugardaginn sem vann 15 heimaleiki í röð á árunum 1997-1999. Leikur okkar manna við KR á Kópavogsvelli í lok júní var 16. heima­sig­ur okkar manna í röð í efstu deild og þar með var metið slegið.

Nánar um ganga mála hjá Blikum á árinu 2022 > Sagan

Miðasala á leikinn á Stubbur app: Stubbur 16 ára og yngri fá frítt á völlinn.

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá okkar fólk með í stuðið!

Þrátt fyrir enga stigauppskeru í leiknum gegn KA um síðustu helgi leiða Blikar deildina með 6 stiga forskot á liðið í Fossvoginum þegur einum leik er ólokið fyrir úrslitakeppnina sem hefst sunudaginn 2. október. 

Staðan í Bestu deild eftir 21 umferð - Blikar með 6 stiga forskot á toppnum:

image

Sagan & Tölfræði - 100. mótsleikur liðanna

Leikur ÍBV og Breiðabliks á laugardaginn verður 100. innbyrðis mótsleikur liðanna frá upphafi (1960). Eyjamenn leiða í leikjunum 99 með 42 sigra gegn 37 sigrum okkar Blika. Jafnteflin er 20. 

Allra fyrsti leikur liðanna var æfingaleikur í Vestmannaeyjum sumarið 1958 þegar Breiðabliksliðið var að stíga sín fyrstu skref á knattspyrnuvellinum - knattspyrnudeild Breiðabliks var stofnuð árið 1957.

Innbyrðis mótsleikir liðanna til þessa: A-deild 61 * B-deild 15 * Bikarkeppni KSÍ 7 * Deildabikar 10 * Fótbolti.net 6 * Samtals: 99 leikir. Þessum leikjum til viðbótar eru margir óskráðir leikir liðanna í svonefndri Bæjarkeppni - keppni sem var leikin heima og heiman vor og haust í kjölfar eldgossins í Eyjum 1973, en mikill vinskapur er á milli Kópavogs og Vestmannaeyja.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 61. Blikar leiða þar með 24 sigra gegn 21 sigri ÍBV. Jafnteflin eru 16. Markskorun er 163 mörk sem skiptast nokkuð jafnt: Blikar 82 mörk og ÍBV 81 mark. ÍBV féll niður um deild 2019 en félagið er aftur komið upp í deild þeirra bestu. 

Síðurstu fimm leikir í efstu deild á Kópavogsvelli gegn ÍBV:

Gamli leikurinn

Við leit að gömlum leik til að skrifa um var staldarð við fyrsta sigurleik Blika á ÍBV á Kópavogsvelli í efstu deild. Blikaliðið 1978 strögglaði allt sumarið en vann Eyjamenn 2:0 með mörkum frá Sigurjóni Rannverssyni og Vigni Baldurssyni. 

Blikar komu strax upp aftur og voru með hörku lið sumarið 1980.

Gamli leikurinn að þessu sinni er 2:0 sigurleikur okkar manna á liði ÍBV á Kópavogsvelli í júlí 1980:

Morgunblaðið 22.7.1980: "BREIÐABLIK sigraði ÍBV 2-0 á Kópavogsvellinum í 1. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu á laugardaginn. Er óhætt að segja að sá sigur hafi verið meira en sanngjarn og gefa tölurnar nokkuð góða mynd af gangi leiksins. Í heild var leikurinn ekkert sérstakur, en það sem sást af þokkalegri knattspyrnu, kom meira og minna frá UBK. Í sviðsljósinu voru þeir Helgi Bentsson og Sigurður Grétarsson, efstu menn í einkunnagjöf Mbl. um þessar mundir. þeir félagar slógu ekki slöku við og gerðu varnarmenn ÍBV gráhærða áður en yfir lauk."

Byrjunarlið Breiðabliks: Guðmundur Ásgeirsson - Gunnlaugur Helgason - Tómas Tómasson - Valdimar Valdimarsson - Einar Þórhallsson - Benedikt Guðmundsson - Vignir Baldursson - Þór Hreiðarsson - Sigurður Grétarsson - Helgi Bentsson - Ólafur Björnsson. 

Mörk Blika: Sigurður Grétarsson 42' og Ólafur Björnsson 85'.

image

Meðfylgjandi myndasyrpa er af síðara marki UBK gegn ÍBV. Ólafur Björnsson hefur sloppið úr gæslu og skotið að marki. Páll hefur hendur á knettinum, en ekki svo að gagni komi. Knötturinn skoppar að marki ÍBV og Ólafur fylgir fast eftir. Og fagnar ógurlega er knötturinn hafnar loks í netinu. Fyrsta mark Ólafs í 1. deild: 

image

Árið 1980 er Ólafur Björnsson á öðru ári með meistaraflokki og spilaði stöðu framherja þar til undir lok keppnistímabilsins 1980.

Blikahópurinn 2022

Tveir leikmanna ÍBV hafa spilað í grænu Breiðablikstreyjunni. Guðjón Pétur Lýðsson lék 156 leiki og skoraði 28 mörk með Blikum á 7 árum á tímabilinu 2007 til 2021. Árin 2013-2015 var GPL mjög öflugur með Blikaliðinu  - 105 mótsleiki og 25 mörk. Í júlíglugganum söðlaði Guðjón Pétur um og spilar nú með Grindvíkingum. Atli Hrafn Andarson spilaði 15 leiki með Blikum 2020-2021. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 22. umferðar er fimm barna faðir fæddur í Reykjavík en ólst upp í Kópavogi.

Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og cand.merc próf (meistargráðu) frá Handelshöjskolen (Copenhagen Business School) í Kaupmannhöfn í hagfræði. Þá er hann líka með kennarapróf og atvinnuþjálfararéttjndi.

Hann stundaði handknattleiksþálfun 1986–1995. Hann var kennari og yfirmaður hagfræði og tengdra greina við Menntaskólann í Kópavogi 1986–2013 Starfaði hjá Samvinnuferðum-Landsýn 1988–1995 og kenndi við Ferðamálaskólann 1993–2001.

Blikinn var valinn í ungmennalandslið í handknattleik, körfubolta og knattspyrnu.  Ekki margir sem leika það eftir. Hann  valdi svo knattspyrnuna fram yfir. Hann á fjölda leikja með KR og 104 mótsleiki og 25 skoruð mörk með Breiðabliki frá 1990 til 1995. SpáBlikinn á að baki gríðarlega farsælan þjálfaraferil með Þrótt R., KR, Val og Keflavík frá 1997–2013.  Sem þjálfari hampaði hann nokkrum Íslandsmeistaratitlum. 

Þau Ása Brynjólfsdóttir, eiginkona hans og rannsóknarstjóri Bláa Lónsins eiga fimm börn blikans sem öll hófu feril sinn í Breiðablik: Fjölskyldan býr  í göngufæri og með útsýni yfir Kópavoginn og Kópavogsdalinn þar sem Breiðablik á sitt heimili – og þau ólust öll þannig að Smárinn var þeirra annað heimili.   Willum Þór yngri er landsliðsmaður og atvinnumaður í einni bestu deild Evrópu og leikur með Go Ahead Eagles í Deventer í Hollandi. Brynjólfur Andersen er atvinnumaður í Kristiansund í Noregi og er fyrirliði U-21 árs landsliðsins. Þeir bræður voru meðal máttarstólpa meistaraflokks Breiðabliks áður en þeir fóru utan til atvinnumennsku fyrir nokkrum árum. Yngri börnin 3, þau Þyrí Ljósbjörg Andersen , Ágústa Þyrí Andersen og Þór Andersen æfa öll knattspyrnu með Breiðabliki og mikil efni þar á ferð. .

SpáBlikinn hefur setið á Alþingi Íslendinga  í 10 ár fyrir Framsóknarflokkinn – enda mjög hændur að græna litnum.  Hann gegnir núna starfi Heilbrigðisráðherra og hefur í mörg horn að líta þar.  Hann gaf sér þó góðan tíma til að spá fyrir um leik Breiðabliks gegn ÍBV um helgina.

Willum Þór Þórsson – Hvernig fer leikurinn?

Þetta verður hörkuleikur. Gengi ÍBV hefur ekki verið gott, sérstaklega framan af móti. Þeir hafa þó náð vopnum sínum og eru farnir að spila eins og maður þekkir þá. Þrátt fyrir mismunandi stöðu liðanna má alls ekki vanmeta Eyjamenn. Breiðablik er hinsvegar með töluvert öflugri hóp og alsterkasta heimavöll landsins. Að ógleymdum stuðningsmönnunum sem eru að verða þeir öflugust á landinu.   Við vinnum þetta á endanum 3-1 eftir mikla og harða baráttu og mótspyrnu frá ÍBV. 

Það er alltaf sérlega gaman að mæta Vestmannaeyingum. Fyrir mig er það lía persónulegt. Móðir mín er frá Eyjum og ég á þar frændgarð. Íslandsmót i efstu deild væri ekki það sama án þeirra. Það er líka gaman að vita til þess að það er taug á milli þessara liða.  Breiðablik hóf árlega vinakeppni við ÍBV á vorin strax eftir eldgosið 1973 og sú hefð hélst um árabil. Ég tók þátt í slíkum keppnum fyrir Breiðablik á tíunda áratugnum. Ég hef sjaldan þegið aðrar eins veitingar og þegar við fórum til Eyja þá. Hnallþórurnar og brauðterturnar svignuðu a borðunum.  Þá skilst mér að þetta sé 100. mótsleikur hjá þessum frábæru knattspyrnuliðum. Ég hlakka til að sjá leikinn“  

Willum Þór Þórsson

image

Willum Þór Þórsson SpáBliki 22. umferðar.

Dagskrá

Miðasala á leikinn á Stubbur app: Stubbur 16 ára og yngri fá frítt á völlinn.

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá okkar fólk með í stuðið!

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Svipmyndir frá fyrri leik liðanna í sumar sem fram fór í lok Goslokahátíðar í byrjun júlí:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka