Bitið í súrt!
11.08.2025


Það vantaði ekki sóllina og blíðuna í stúkunni að Hlíðarenda þegar Blikar mættu heimmönnum í 18.umferð Bestu deildarinnar í gærkveldi. Tæpar 15° í skugganum og sólgleraugun uppi. Notalegt.
Stífur vindur á eystra markið allan tímann og átti eftir að koma allnokkuð við sögu. Áhorfendur mættir snemma í blíðunni og góð stemmning. Trommur og gjallarhorn á sínum stað og Hilmar og félagar sömuleiðis. Blikar með 3 breytingar frá leiknum í Bosníu. Óli Valur, Arnór Gauti og Gabríel Snær komu inn fyrir Kristinn, Kristinn og Ásgeir Helga.
Það var ekki að sjá að Blikar ættu að baki erfiðan útileik og langt ferðalag í vikunni því okkar menn hófu leikinn af gífurlegum krafti og vissu heimamenn hvorki í þennan heim eða annan í upphafi leiks. Blábyrjunin var endurtekning frá leiknum við Víking, þ.e.a.s. Tobias þrumaði boltanum útaf úr upphafsspyrnunni og Blikar settu svo pressuna á Valsliðið hátt uppi á vellinum. Þetta gekk vel, og reyndar svo vel að á 3jú mínútu fengu Blikar horn og sendu fyrir markið þar sem Damir kom á fleygiferð og skallaði fast í fjærhornið. Staðan 1 – 0 fyrir Blika. Flott mark.
Áfram héldu Blikar og þjörmuðu að heimamönnum án þess að skapa góð færi en heimamenn komust lítt eða ekki áleiðis. Um síðir komust þeir þó inn að marki okkar manna og fengu t.d. 3 hornspyrnur í röð en Blikar bægðu öllu frá og er nú upptalin mesta hættan við okkar mark í fyrri hálfleik. En okkar menn fengu upplagt færi til að tvöfalda forystuna skömmu fyrir leikhlé þegar Tobias fékk boltann við markteigshornið og skaut á markið. Skotið var all fast en markvörður gestanna þvældist einhvern veginn fyrir og náði þar með að halda sínum mönnum á floti. Það sem eftir lifði hálfleiks var ekki margt um færi en Blikar fengu tækifæri til að herja á heimamenn úr aukaspyrnu en fóru ill með þann möguleika. Staðan í leikhléi því 1-0 og það var í allra, allra minnsta lagi miðað við yfirburði okkar manna í hálfleiknum.
Hálfleikskaffið var ósnert og ekkert vínarbrauð í boði, að ekki sé talað um snúð. Blikar samt kátir og aðallega með frammistöðuna en höfðu áhyggjur af færa- og markaleysinu. Svona frammistaða á að skila 2-3 mörkum minnst. Það er sjálfsagt að geta þess að báðir vallarhelmingar voru vökvaðir í leikhlénu. Það er framför frá í fyrra.
Seinni hálfleikur hófst á svipuðum nótum og þeim fyrri lauk. Blikar áttu í fullu tré við heimamenn og kæfðu allar tilraunir en náðu sjálfir ekki að skapa sér afgerandi færi. Fátt markvert að frétta. Blikar settu Davíð Ingvars inn fyrir Gabríel Snæ. Gabríel með góðan leik og ekkert út á hans leik að setja en að sama skapi mikilvægt að Davíð fái mínútur til að koma sér í stand. Valsmenn með tvær skiptingar um svipað leyti. Og svo gerðist það að heimamenn fengu hornspyrnu sem Blikar náðu að bjarga í horn, naumlega og önnur fylgdi í kjölfarið og nú lá boltinn í netinu. Mikill hamagangur í teignum og manni fannst Anton Ari hindraður, en ekki alveg gott að sjá en markið dæmt gott og gilt. 1-1 og nú fór það að bíta að hafa ekki nýtt tækifærið í fyrri hálfleik betur. Næstu mínútur tiðindalitlar, mikil barátta um allan völl og liðin skiptust á að sækja og í tví- eða þrígang fórum við illa með sénsana okkar með ónákvæmum sendingum við teig Valsmanna. Blikar settu nú Ásgeir Helga og Kristófer inn fyrir Tobias og Óla Val, en áfram var sami barningurinn fram til loka venjulegs leiktíma, án þess að liðin næðu að skapa sér alvöru færi en heimamenn náðu þó að þjarma einu sinni hressilega að okkar mönnum eftir hornspyrnu áður en þeir fengu svo aðra í uppbótartíma, sem þeir skoruðu úr.
Blikar vildu fá aukaspyrnu fyrir brot í aðdraganda seinna hornsins og vildu meina að brotið hafi verið á Damir. Það var hins vegar ekkert dæmt og breytir ekki því að varnarleikur okkar var ekki nægilega góður í þessum hornum. Því fór sem fór.
Blikar freistuðu þess að jafna leikinn en tíminn reyndist ekki nógur og við máttum bíta í það gallsúra epli eftir að hafa haft yfirhöndina bróðurpartinn af leiknum.
Þarna fóru 3 dýrmæt stig til Valsmanna, sem áttu þau alls ekki skilið, en sem fyrr eru það mörkin sem telja og við verðum einfaldlega að nýta tækifærin okkar betur ef við ætlum að hanga í toppnum. Ekki bara færin, heldur líka góðar stöður 3 á móti 3, 4 á móti 3 o.s.frv. Allt of oft klúðrum við þessu og náum ekki skoti á mark. Varnarleikur og barátta til fyrirmyndar ef frá eru taldar þessar afdrifaríku hornspyrnur. Armæðis svekkelsi og plagmæðis ergelsi eins og maðurinn sagði.
En nú er kominn mánudagur og stutt í næsta leik. Á fimmtudag kl. 17:30 mæta okkar menn Zrinjski Mostar í undankeppni Evrópudeildarinnar. Verkefnið er einfalt. Við þurfum að vinna þennan leik og það mun takast með öflugum stuðningi og kraftmikilli spilamennsku.
Áfram Breiðablik!
OWK.