BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla 2023. Úrslitakeppni. Valur - Breiðablik

27.09.2023 image

Valur - Breiðablik

Það er stutt í næsta leik í úrslitakeppninni. Við förum í heimsókn til Valsmanna á fimmtudaginn. Um er að ræða þriðju umferð af fimm í efri hluta úrslitakeppni Bestu deildar karla 2023.

Flautað verður verður til leiks á Origo vellinum kl.19:15!

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Okkar menn náðu sér í þrjú öflug stig í baráttunni um þriðja sætið með 3:1 sigri á Reykjavíkur Víkingum í síðasta leik. Valsmenn eru nokkuð öryggir með 2. sætið. 

Staðan í efri hluta Bestu þegar þrir leikir eru eftir:

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Vals í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1965 eru 102. Sagan fellur með Valsmönnum sem eru með 42 sigra gegn 39 - jafnteflin eru 21.Nánar

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild, fyrst árið 1971, eru 75 leikir. Valsmenn leiða með einum sigri. Hafa unnið 30 leiki gegn 29 sigrum Blika - jafnteflin eru 16. Nánar

Innbyrðisleikir liðanna eru markaleikir. Samtals skora liðin 226 mörk í þessum 74 leikjum - Valsmenn skora 115 mörk gegn 111 mörkum Blika.

Síðustu 5 viðureignir liðanna í efstu deild á Origo vellinum:

Leikmannahópurinn

Í leikmannahópi Blika eru tveir leikmenn sem hafa leikið með Valsmönnum. Anton Ari Einarsson á að baki 36 meistaraflokksleiki með Hlíðarendaliðinu. Og Ágúst Eðvald Hlynsson lék 30 mótsleiki með þeim í fyrra - þá sem lánsmaður frá AC Horsens.

Elfar Freyr Helgason söðlaði um í haust og leikur nú í rauðu. Hlynur Freyr Karlsson, sem er uppalinn Bliki, leikur einnig með Valsliðinu. 

Þjálfari Valsmanna, Arnar Grétarsson er uppalinn Bliki. Hann byrjaði að spila með meistaraflokki Breiðabliks í B-deildinni 1988 þá aðeins 16 ára gamall. Arnar er 6. leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi með 289 mótsleiki og 61 mark. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins ólst upp á Snælandi þar sem afi hans og amma voru með búskap.  Mikið var af krökkum á Snælandstorfunni og mikið spilaður fótbolti á Snælandstúnunum.  Það var síðan ekki fyrr en um 11/12 ára aldur að ég þorði að fara yfir í hinn stórhættulega vesturbæ á æfingar hjá Breiðablik, þar sem óvinaher gat legið í leyni.  Ég æfði síðan með Breiðablik uppí 2. flokk.  Það voru margar góðar stundir, Íslandsmeistartitlar, utanlandsferð til Glasgow, en þá var nú ekki algengt að menn væru að þvælst mikið til útlanda, ofl ofl.  

Þegar Augnablik var stofnað var ég einn af stofnfélögum þess félags, spilaði heilmikið af leikjum, tók þátt í stjórnum og öllu sprellinu sem fylgdi Augnablik.  Frábær félagsskapur með strákum sem höfðu verið á svipuðum tíma í Breiðablik og öðrum sem vildu spila fótbolta og hafa gaman.

 

Pétur Ómar og Andrés Pétursson voru á árum áður í forsvari fyrir knattspyrnudeildina. Vildu þeir reyna að auka stemmingu á leikjum Breiðabliks að erlendri fyrirmynd.  Þá var eiginlega bara einn stuðningsmaður sem lét vel í sér heyra og það var Hulda Pétursdóttir og síðan einn og einn kall sem hafði tekið nokkrum sopum of mikið úr vasapelanum.  Ég ásamt nokkrum öðrum lét til leiðast að reyna að taka þátt í þessari menningarbyltingu í Kópavoginum.  Pantaðar voru grænar stuðningsvörur frá Ameríku og reynt að hleypa lífi í áhorfendapallana.  Það gekk nú svona og svona og áfram var það nú Hulda sem leiddi vagninn og vasapelakarlarnir tóku undir en voru núna með græna húfu með þyrluspaða sem beyglaðist í rokinu.  Tími byltingarinnar var ekki upprunninn. 

image

Stjórn stuðningsmannaklúbbsins Æsis 1982: Frá vinstri: Hulda Pétursdóttir, Jóhann R. Benediktsson, Erla Traustadóttir, Helga Kristjánsdóttir og Vilmar Pétursson, formaður. 

Vilmar Pétursson - Hvernig fer leikurinn?

Þetta verður snúinn leikur.  Smá andrými skapaðist eftir góðan sigur á Víkingum en ekki má þó missa einbeitinguna.  Óskar mun koma á óvart með liðsvali sínu.  Staðan verður 1:1 lengi leiks en varamaður með sterkar Blikarætur mun koma inná og tryggja sigur 2:1.

image

Spáblikinn Vilmar Pétursson ásamt góðum blikavinum.

Dagskrá

Miðasala á leikinn gegn Val er á: Stubbur

Flautað til leiks á fimmtudag kl.19:15!

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Mætum í stúkuna á Origo vellinum og hvetum liðið okkar til sigurs. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Hápunktar úr leik liðanna í úrslitakeppni Bestu deildarinnar í október 2022: 

Til baka