BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Áramótakveðja 2021

30.12.2021 image

Forsvarsmenn blikar.is senda öllum Blikum og öðrum landsmönnum nær og fjær bestu óskir um farsæld og gleði á nýju ári.

Árið 2021 var á margan hátt okkur Blikum hagstætt. Yngri flokkarnir rökuðu að sér titlum og stelpurnar tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í haust. Svo komust þær áfram í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu fyrst íslenskra liða.

Karlaliðið stóð sig líka með sóma í sumar. Liðið þótti spila skemmtilegasta boltann í deildinni og með smá heppni hefðum við getað lyft Íslandsmeistarabikarnum. En silfrið var niðurstaðan og sæti í Evrópukeppninni næsta sumar tryggt. Það verður spennandi að sjá hvort við höldum ekki áfram að byggja ofan á þennan árangur næsta sumar.

Blikakonur hafa heldur betur glatt áhorfendur allt árið. Liðið var í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í sumar en gaf eftir á lokasprettinum. Blikaliðið bar hróður félagsins til Evrópu með því að tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Þar mættu þær stórliðum eins Real Madrid og PSG frá Frakklandi og stóðu sig með sóma.

Bikarmeistaratitilinn varð þeirra í sumar og var þetta þrettándi bikarmeistaratitill Breiðabliks í kvennaknattspyrnu.

image

Yfirlit 2021

Mfl kvenna: Fagrar grænar slaufur og Sagan skrifuð með fagurgrænu bleki og Þvílíkir meistarar

Mfl karla: Tölfræði og yfirlit 2021 - Samantekt

50 ár

Í ár voru 50 ár síðan Breiðablik tryggði sér fyrst sæti í efstu deild í knattspyrnu karla. Liðið hélt sæti sínu í tvö ár en varð síðan að bíta í það súra epli að falla aftur niður í næst efstu deild. Næstu 30 ári voru brokkgeng fyrir strákana. Liðið flakkaði reglulega á milli efstu og næst-efstu deildar og engin kom titillinn. Það var ekki síðan fyrr en árið 2005 að Blikaliðið kom af krafti upp í efstu deild og hefur verið þar síðan. Fyrsti titilinn kom árið 2009 þegar við urðum bikarmeistarar og svo árið 2010 þegar Íslandsmeistaratitill karla kom í Kópavoginn.

image

Síðan þá höfum við fimm sinnum lent í öðru sæti og ætið verið nálægt því að vera að keppa um titil. Blikar horfa nú björtum augum til framtíðar og verður gaman að fylgjast með meistaraflokkunum okkar árið 2022.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka