BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þvílíkir meistarar

02.10.2021

Ég hef alveg viðurkennt það áður; ég var nett stressaður fyrir þetta tímabil. Nokkrar stoðir í Íslandsmeistaraliði endasleppa mótsins 2020 farnar í atvinnumennsku til stórliða – Alexandra, Karólína, Sveindís – Sonný fyrirliði hendir hönskunum upp á efstu hillu (næst efstu kannski) og þjálfaraskipti. Hvernig verður þetta sumar 2021, spurði maður sig í vor. Síst grunaði mann þá að tímabilið stæði fram undir jól.

Ströng leið í úrslitaleikinn

Eftir annað sæti í deildarkeppninni, sem meðal annars hafði skilað 3-7 sigri á verðandi Íslandsmeisturum snemmsumars, hafði mergjaður 4-3 sigur á sömu Íslandsmeisturunum í undanúrslitum bikarsins skilað Breiðablikskonum í sjálfan úrslitaleikinn. Mikil mjólk átti eftir að renna úr spenum landsins kúa milli undanúrslita og úrslita. Undanúrslitin voru spiluð um miðjan júlí – úrslitaleikurinn í dag, 1. október. Það var feikisprækt Þróttarlið sem var andstæðingurinn. Köttarastelpur að spila sinn fyrsta úrslitaleik og höfðu verið langsamlega þriðju-bestar á Íslandsmótinu þrátt fyrir verulegan metnað víða um Suðurland að standa þeim og fleirum framar.

Áhorfendamet

Leikið var á Laugardalsvelli – í um 73ja metra fjarlægð frá heimavelli Þróttar – og mikil stemning var í herbúðum beggja. Fjölskylduskemmtanir fyrir leik hvorttveggja í Laugardal og Smáranum og um pizzuleytið á þessu föstudagskvöldi streymdi vonglatt fólk í dalinn, ýmist sleikjóröndótt eða frostpinnagrænt. Kópacabana hafði ákveðið að taka síðustu rútuna fyrir leik og rétt misstu af hátíðlegum Lofsöng Matthíasar Jochumssonar fyrir leik. Hafði smávægilegar áhyggjur af því að þeir hefðu ákveðið að vera frekar úti en inni. En viti menn! Mannskapurinn birtist og var inni en ekki úti. Heldur betur, takk!

Í bikarúrslitaleik er jafnan ekki að vænta óvæntrar uppstillingar liða og þjálfararnir stóðu alveg undir væntingum í kvöld.

Byrjunarliðið var svona skipað: Telma Ívarsdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Agla María Albertsdóttir, Heiðdís Lillýardóttir, Taylor Marie Ziemer, Ásta Eir Árnadóttir, Tiffany Janea McCarty, Karitas Tómasdóttir, Kristín Dís Árnadóttir, Hildur Antonsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir.

Yfirlýsing í byrjun

Breiðablik byrjaði feikivel. Þrýsti þétt upp völlinn fyrstu mínúturnar, bjuggu til stöður, hækkuðu spennuna hjá Þróttarstelpum, lækkuðu sína að virtist, en þetta áhlaup skilaði ekki marki. Þá fékk lægra skrifaða, fríska og pressulausa liðið kjarkinn og gerði sig gildandi um hríð. Okkar grænklæddu voru hinsvegar ekkert láta mikið undan síga og stýrðu leiknum áfram og lengst af. Karitas og Agla María sömdu saman mark um miðjan fyrri hálfleikinn. Mér fannst það breyta meiru í stúkunni en inni á vellinum því þótt Breiðablik væri með undirtök höfðum við ekki yfirburði. Telma mátti alveg hafa fyrir sínu í markinu en annað markið, skorað eftir að Þróttarkonur gera mistök undir pressu, fór langt með þetta, svona rétt fyrir hálfleik.

Telma mátti svo taka á henni stóru sinni í Breiðabliksmarkinu snemma í þeim seinni og úrslitin fannst manni þá langt í sjálfgefin. Myljandinn í Breiðabliksliðinu skilaði þó sínu og hann skilaði tveimur mörkum í síðari hluta seinni hálfleiksins. Öruggur sigur 4-0. Öruggur liðssigur þar sem fjölmiðlarnir velja tveggja marka konuna Karítas gjarna konu leiksins. Hún átti fínan leik en ef ég á að segja alveg eins og er, þá hef ég séð flestar í Blikaliðinu spila betur en í kvöld. -Sorrý 

Bikarmeistarar

Breiðablik bikarmeistari í 13. sinn! -Hrikalega vel gert. Traustur sigur. Fagmannleg frammistaða.

Myndaveisla 1 í boði Helga Viðars hjá Blikar TV

Myndaveisla 2 í boði Helga Viðars hjá Blikar TV

Maður fékk svo hreinlega aðvífandi ryk í augað þegar þau Borghildur og Gylfi Þór afhentu verðlaunagripina á pallinum í lokin. Borghildur hafandi haldið sjó í snúnustu málum KSÍ evör síðustu vikur og Gylfi verðugur heiðursgestur, nýlegur fyrsti handhafi Huldunælunnar, sem Blikar.is og Blikaklúbburinn veita framvegis á hverju ári dyggum stuðningsmanni knattspyrnuliða Breiðabliks.

Við erum svo vön

Venjulegast (af því við erum svo vön því að Breiðablik spili bikarúrslitaleiki) er manni skítsama hvernig liðið spilar, bara að leikurinn vinnist. Venjulegast er þetta síðasti leikur tímabilsins og hafi verið einhverjir annarkar á spilamennskunni þá lagi stelpurnar það örugglega fyrir næsta tímabil meðan við hin spilum bridds og drekkum kakó við arineldinn í vetur.

Þannig er það ekki núna. Núna þurfum við að hugsa um hvernig við bætum krossana, höldum aðeins betur kúli á boltanum, hreyfum miðjuna svolítið betur, bjóðum okkur betur við framherjann o.s.frv. o.s.frv. 

Þær eru að skrifa söguna

Þessar flottu konur (sem eins og hefur komið fram að ég var svolítið taugastrekktur yfir í vor) unnu nefnilega það einstaka afrek, svona á milli leikja í deild og bikar, að verða fyrsta íslenska knattspyrnuliðið til að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu – riðlakeppni fokkings Champions League.

Ekkert í íslenskum fótbolta virðist undir það búið að íslenskt lið komist í riðlakeppni meistaradeildar. Ekki KSÍ með félagaskiptaglugga, ekki við í klúbbnum með samningi við þjálfara, ekki bærinn með samþykktan völl og strax á miðvikudaginn er leikur við PSG, sæmilegt lið frá höfuðborg Frakklands sem við áttum ágæta leiki við 2019.

Ert þú klár í lengra tímabil?

Ekkert undir búið segi ég … Jú, Breiðabliksstelpur eru vel nestaðar í þennan sögulega leik með bikarmeistaratitli og sjálfur á ég hlý og góð föt og sæmilega rödd til að hvetja úr stúkunni. Vonandi eru fleiri þannig undir það búin að fylgja eftir afreki Breiðablikskvenna sumarið 2021. Meirihluti þessa hóps verður á vellinum á miðvikudagskvöldið.

Sjáumst!

Eiríkur Hjálmarsson

Eldri borgararnir klárir í að veifa hækjum og göngugrindum Breiðabliki til framdráttar. Eiríkur, Helgi, Guðrún, Ragnheiður og Pétur Már. 

Til baka