BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tvö töpuð stig gegn Selfossi

05.08.2016

Það vantaði ekki blíðuna á Kópavogsvelli í kvöld þegar spútniklið Selfoss kom í heimsókn til okkar Blika. Sólskin og rjómablíða, hitinn rétt tæplega 15 gráður og grænir fánar Breiðabliks blöktu tignarlega við áhorfendum.

Stemmingin fyrir leikinn var lágstemmd, tónlistin í takt við veðrið, rjómablíð. En það færðist fljótlega fjör í leikinn. Stelpurnar okkar voru gríðarlega ákveðnar enda stutt í Stjörnustelpur og mikilvægt að halda haus, hvert einasta stig telur!

Leikurinn var 20. leikur liðanna innbyrðis en fyrsti leikur þeirra var árið 1988, í 2. deildinni. Það ár mættust liðin tvisvar Selfoss skoraði ekki mark, en Blikastelpur settu á þær 26 mörk samtals. Þetta ár vann Breiðablik líka sinn stærsta sigur frá upphafi, 18-0, í leik sem fór fram á gamla Smárahvammsvellinum (ef mig brestur ekki minni). Breiðablik hefur unnið 16 af þeim 19 viðureignum sem lokið var, tvisvar sinnum hafa liðin skilið jöfn en einu sinni hefur Selfoss stelpunum tekist að bera sigurorð af okkar grænklæddu, í fyrri umferðinni árið 2014.

Þorsteinn þjálfari stillti upp hefðbundnu liði, Sonný Lára í markinu, Hallbera, Málfríður, Ingibjörg og Arna Dís í vörninni, Fanndís, Rakel, Svava og Fjolla á miðjunni og frammi hrekktu þær Olivia og Berglind Björg varnarlínu gestanna. Eina breytingin frá leiknum gegn KR var að Arna Dís kom inn í liðið í stað Ástu Eirar.

Selfoss stillti upp nokkuð breyttu liði frá síðustu leikjum, en meiðslavandræði hafa verið að hrjá liðið. Fjórir nýir leikmenn komu inní byrjunarliðið og þjálfari þeirra Valerie Nicole O'Brien stillti sjálfri sér upp á miðjunni.

Blikar sóttu ákaft fyrstu mínúturnar og fyrsta færið kom eftir fimm mínútna leik þegar Svava sendi boltann rétt framhjá markstönginni eftir góðan sendingu frá Berglindi Björgu. Skömmu síðar varði Sonný Lára vel í markinu skot frá þjálfara Selfysinga, Valorie Nicole O'Brien en hún fékk boltann í vítateignum eftir hornspyrnu frá hægri. Sonný greip aftur vel inní eftir aukaspyrnu Selfyssinga á 12. mínútu, greip boltann við vítapunktinn úr aðþrengri stöðu. Ákaflega vel gert hjá henni.

Á 17. mínútu geystist Fanndís upp vinstri kantinn, lék inní vítateig Selfyssinga þar sem hún sem hún sendi boltann fyrir á Oliviu Chance sem lagði boltann fyrir sig en átti afleitt skot sem Chante í marki Selfoss varði auðveldlega. Blikar héldu sókn sinni áfram og aðeins einskær heppni kom í veg fyrir að boltinn hafnaði í netmöskvum gestanna en þrumuskot frá Oliviu, Fanndísi og Berglindi Björgu rötuðu ekki rétta leið.

Varnarmúr gestanna var þéttur og greinilegt að þær voru ekki komnar í Kópavoginn til að sækja um of, skyndisóknir þeirra voru þó þokkalega beittar og eins gott að grænklæddar héldu einbeitingu í vörninni. Stelpurnar okkar sóttu nær látlaust að marki Selfyssinga og áttu fjölmörg færi sem ekki skiluðu sér í marki. Markalaust var í leikhléi.

Sjálfsagt hefur Þorsteinn Halldórsson haldið þokkalega góða ræðu í leikhléinu því stelpurnar okkar komu gríðarlega vel einbeittar til seinni hálfleiks og sóttu án afláts. En varnarlína Selfoss með Brynju Valgeirsdóttir, Katrínu Ýr Friðgeirsdóttur og Chante í markinu í broddi fylkingar stóðu af sér hverja sóknina á fætur annarri.

Það fjaraði dálítið undan sóknartilburðum okkar stelpna þegar leið á seinni hálfleikinn. Selfoss missti Katrínu Ýri meidda af velli á 56. mínútu og við það var eins og það slaknaði á ákefðinni í liðinu. Þorsteinn reyndi að hrista upp í liðinu og gerði tvöfalda skiptingu á 69. mínútu. Olivia Chance fór útaf fyrir Esther Rós Arnardóttur og Fjolla Shala út fyrir Kristínu Dís Árnadóttur. Bæði Esther og Kristín eru ungir sóknarlega þenkjandi leikmenn sem kunna að skora mörk og þola ekki að tapa.  

En skiptingin virtist ekki hafa tilætluð áhrif, leikmenn Selfoss vörðust af gríðarlegum krafti og Chante í marki þeirra hirti alla bolta sem komu of nærri markinu. Þeir 227 áhorfendur sem mættu á völlinn í kvöld voru farnir að örvænta um að sjá mark og gott ef okkar stelpur voru ekki líka farnar að örvænta. Það var að minnsta kosti þannig sem við í blaðamannaboxinu upplifðum stemminguna.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk urmul færa í mark- og vítateig Selfoss en skot hennar fóru ýmist framhjá eða í fangið á Chante í markinu. En Fanndís Friðriksdóttir var ekki á því að gefast upp og var hún stöðug ógn á vinstri vængnum. Hún sendi boltann ótt og títt fyrir markið en þar kom að hún gafst uppá því og fór að skjóta sjálf á markið.

Niðurstaðan markalaust jafntefli gegn liði í neðsta fjórðungi deildarinnar og tvö töpuð stig.

Selfossliðið fær hrós frá mér fyrir ódrepandi baráttuanda og gríðarlega vel skipulagðan varnarleik. Okkar stelpur vilja sjálfsagt ekki eiga þennan leik lengi í minningunni. Þær þurfa þó að setja hann í reynslubankann. Það þarf að teygja á varnarlínu mótherjanna, halda boltanum betur innan liðsins og spila sérstaklega agað þegar mótherjinn leggur leikinn upp eins og Selfoss gerði.

Bestu leikmenn Breiðabliks voru þær Sonný Lára, Málfríður, Fjolla og maður leiksins að mínu mati var Fanndís Friðriksdóttir.

Næsti leikur er gegn FH, þriðjudaginn 9. ágúst.

Ingibjörg Hinriksdóttir 

Til baka