BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Nik Chamberlain í viðtali við Blikahornið

29.02.2024 image

Nik Chamberlain, þjálfari meistaraflokks kvenna, er viðmælandi Blikahornsins að þessu sinni. Eins og flestir vita tók Nik við þjálfun Blika í haust eftir að hafa náð góðum árangri með meistaraflokk kvenna hjá Þrótti undanfarin ár. Í þessu áhugaverða viðtali við þennan geðþekka enska þjálfara rekur hann feril sinn frá því að vera ungur leikmaður í Englandi, til skóladvalar í Bandaríkjunum þar til hann kom til Íslands að leika með ýmsum neðri deildarliðum ásamt því að þjálfa bæði meistaraflokk kvenna og yngri flokka hjá Álftanesi, Fjarðabyggð, Aftureldingu, Þrótti og nú hjá okkur Blikum.

Blikahornið · Viðtal við Nik Chamberlain

Nik segir frá árunum sínum með Fjarðabyggð og viðurkennir að Seyðisfjörður sé í raun uppáhaldsbærinn sinn á Íslandi. Hann segir frá kynnum sínum við íslenska leikmenn í háskólaliði Alabama en þar voru meðal annars margir Blikar við nám. Nik fer yfir árin sín hjá Þrótti en segja má að það þjálfarastarf hafi komið honum á kortið yfir áhugaverða þjálfara á Íslandi. Hann segir það ekki hafa verið létta ákvörðun að yfirgefa Laugardalinn en eftir langa umhugsun hafi hann talið þetta rétt skref í þroska sínum sem þjálfari.

Nik segist vera mjög ánægður með fyrstu mánuðina í Kópavoginum. Breiðablik sé stórveldi og hann finni strax fyrir pressunni sem fylgi því að stýra liði sem ætli sér að vera það besta á Íslandi. Hann segist vera ánægður með hópinn og stefni að þvi að koma liðinu í efsta sæti í öllum keppnum í sumar. Þó vanti varamarkvörð í hópinn en það standi til bóta.

Nik ræddi einnig stöðu íslenska kvennalandsliðsins og samkeppnina við önnur landslið. Í hans huga þarf að huga að breytingum í skipulagningu í þjálfun yngri leikmanna ef við ætlum ekki að dragast aftur úr öðrum þjóðum á næstu árum. Þegar spurður hvar hann sæi sjálfan sig eftir 10 ár kvaðst hann stefna að þjálfun hjá erlendum kvennalandsliðum. Jafnvel að byrja sem aðstoðarþjálfari hjá einhverju sterku evrópsku kvennalandsliði.

Í lokin blés Nik á þá sögu að hann ætti í erfiðleikum með samskipti við leigusalann sinn í Kópavogi. Hann væri búinn að leigja hjá honum og fjölskyldu hans síðustu fimm ár og jafnvel þótt viðkomandi einstaklingur væri andstæðingur sinn á knattspyrnuvellinum þá gengju dagleg samskipti eins og í sögu! Til skýringar má upplýsa að leigusali Nik heitir Kristófer Sigurgeirsson og er nú aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Víkingum 😊

-AP

image

Til baka