BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Karólína Lea framlengir

26.10.2018

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við Breiðablik og er nú samningsbundin til næstu þriggja ára. Eftir að hafa komið frá FH síðasta vetur spilaði Karólína 27 leiki á sínu fyrsta ári með Blikum og skoraði í þeim 3 mörk. 
Karólína er fædd árið 2001 en hefur engu að síður þriggja ára reynslu úr í meistaraflokki eftir að hafa spilað 30 leiki með FH áður en hún gekk í raðir okkar Blika. Hún hefur einnig verið í lykilhlutverki í yngri landsliðum Íslands, spilaði 26 leiki fyrir U17 ára landsliðið og á 8 leiki að baki fyrir U19 ára liðið. Í þessum landsleikjum hefur hún jafnframt skorað 12 mörk.
Karólína var fljót að láta til sín taka í Kópavoginum eftir komuna frá FH. Hún vann sér inn fast sæti í liðinu þegar leið á Íslandsmótið í sumar og var mikilvægur hlekkur í því að tryggja bæði Íslands- og bikarmeistaratitilinn. 
Það eru mikil gleðitíðindi að Karólína hafi ákveðið að framlengja samninginn við Breiðablik enda er hér á ferðinni einn efnilegasti leikmaður landsins.

Til baka