BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jafntefli fyrir norðan

17.08.2016

Akureyri bauð upp á fullkomið fótboltaveður, logn, skýjað og 20 gráður.

Byrjunarlið Blika:

Sonný í markinu,

Arna Dís, Ingibjörg, Málfríður og Hallbera í vörninni,

Fjolla, Rakel og Olivia á miðjunni,

Svava og Fanndís á köntunum og Berglind uppá topp.

Hér er hægt að nálgast leikskýrslu og textalýsingu af leiknum.

Ekki verður sagt að leikurinn hafi farið fjörlega af stað. Það var ekki fyrr en á 9.min sem fyrsta skotið kom á mark. Var þar að verki Fanndís Friðriks en skotið fór framhjá.  Á 11. min fengu norðanstúlkur fyrsta horn leiksins en Sonný greip boltann af öryggi.  Á 19.min komust norðanstúlkur svo yfir með marki sem átti upptök sín langt fyrir utan teig. Gott skot og staðan 1 - 0. Strax upp úr miðjunni átti Fanndís gott skot á markið en yfir fór boltinn.  Á 20.min átti leikmaður nr 5 hjá Þór/KA stórhættulegt færi ein á móti Sonný en skot hennar fór yfir.  Á 29.min fékk Fjolla gult spjald fyrir brot á miðjum vallarhelmingi Blika. Upp úr aukaspyrnunni kom stórhættulegt færi Þórs/KA en skalli fór rétt yfir. Á 31.min fengu norðanstúlkur svo enn eitt dauðafærið þegar hættuleg fyrirgjöf endaði framhjá marki Blika. Það er ekki hægt að segja að mikið bit hafi verið í sóknarleik Blika þegar hér var komið en á 35.min átti Fanndís nokkuð hættulegt skot að marki en framhjá. Á 37.min fá Blikar fyrsta hornið sitt. Upp úr horninu barst boltinn að lokum til Rakelar sem skallar yfir.  Á 39.min jafna Blikastúlkur. Þar var að verki Berglind Björg eftir sendingu frá Fanndísi. Glæsilegt mark og staðan 1-1. Undir lok fyrri hálfleiks brýtur Fjolla á andstæðingi á miðjum vallarhelmingi Blika. Norðanstúlkur taka aukaspyrnu en Sonny ver í horn. Stuttu síðar flautaði dómarinn til leikhlés.

Norðanstúlkur byrjuðu með krafti í seinni hálfleik og áttu hættulegt færi strax á 46.min. Á 48.min átti Rakel gott skot en beint á markmanninn. Tveimur mínútum síðar átti Fanndís gott skot en það rataði einnig beint á markmanninn. Þegar þarna var komið sóttu Blikar mun meira án þess þó að skapa nein dauðafæri. Svoleiðis var staðan fram á 64.min þegar norðanstúlkur áttu gott skot sem hafnaði í þverslánni og Sonný varði svo yfir. Sonný var svo öryggið uppmálað og greip hornið beint. Blikastúlkur héldu svo áfram að sækja og átti Fanndís laust skot á markið eftir glæsilegt spil við Berglindi.  Á 78.min fékk Hallbera gult spjald fyrir að nota heldur kjarnyrta íslensku við að segja aðstoðardómaranum til. Setningin stóðst allar málfræðireglur en dómarinn dæmdi ekki eftir þeim. Å 80.mín var brotið á Oliviu rétt utan vítateigs. Fanndís tók aukaspyrnuna sem fór hárfínt framhjá.  Fyrsta skipting Blika kom á 82.min þegar Esther kom inná fyrir Svövu. Blikar héldu enn áfram að sækja en inn vildi boltinn ekki. Á 89.min kom Hildur inná fyrir Oliviu. Leikurinn var svo flautaður af án þess að fleiri mörk litu dagsins ljós. 1-1 jafntefli því staðreynd.

Næst tekur við Meistaradeild UEFA hjá stelpunum en spilað verður í Wales, meira um það síðar.

Áfram Breiðablik!

Til baka