BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grátlegt jafntefli á móti Val

19.07.2016

Það var ágætis veður þegar Blikar mættu Val á Kópavogsvelli í kvöld.  Völlurinn blautur sem bauð bara uppá hraðari bolta.

Blikarstelpur, sem voru komnar í annað sæti eftir sigur Stjörnunnar á FH í gær, ætluðu sér að sjálfsögðu að endurheimta toppsætið.

Byrjunarlið Blika var eftirfarandi:

Sonný í markinu,

Ásta, Guðrún, Fríða og Hallbera í vörninni

Fjolla, Rakel, Andrea á miðjunni

Svava og Fanndís á köntunum og Berglind uppá topp.

Textalýsingu af leiknum má sjá hér og leikskýrslu hér.

Blikar voru í raun mun sterkari allan leikinn og áttu fullt af góðum færum.

Strax á 7. mínútu átti Andrea skalla rétt yfir markið og stuttu síðar missti Sandra af boltanum og Berglind fékk frían skalla en boltinn fór yfir markið.

Það var svo á 16. mínútu að Svava gaf boltann fyrir markið þar sem varnarmaður Vals hitti ekki boltann sem barst til Fanndísar, hún tók við boltanum og stýrði honum fallega í fjærhornið.  1 - 0 fyrir Blika.

Berglind fékk svo frábæra sendingu frá Hallberu á 35. mínútu, Berglind var komin ein í gegn en missti boltann aðeins of langt frá sér þannig að Sandra náði honum.

Blikar áttu svo nokkur góð færi áður en dómarinn flautaði til leikhlés.  Blikar hefðu átt að setja fleiri mörk í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði með góðum sóknum Blika.  Eftir aðeins 3 mínútur fór Hallbera enn og aftur upp allan kantinn og átti frábæra sendingu fyrir markið á Berglindi sem var ein og yfirgefin beint fyrir framan markið en skallinn hennar fór rétt framhjá.

Það var svo á 56. mínútu að Hallbera átti frábæra sendingu á Fanndísi sem brunaði af stað en missti boltann sem barst til Berglindar sem var komin í fínt skotfæri en setti boltann yfir markið.

Á 63. mínútu fengu svo Blikar smá viðvörun þegar Valskonur skölluðu í slánna eftir hornspyrnu. 

Blikar áttu svo nokkur færi í viðbót og hefðu hæglega getað bætt við mörkum.

En það gerðist svo á 81. mínútu að Margrét Lára fékk boltann og lét óvænt vaða af 35 m færi, þéttingsfastur bolti sem endaði í markhorninu.  Það virtist ekki mikil hætta á ferð en staðan skyndilega orðin jöfn, 1 - 1.

Blikar settu allt í síðustu mínúturnar og skoruðu í raun mark á 88. mínútu þegar Esther Rós fékk boltann og stýrði honum í marknetið.  Markið var hins vegar dæmt af vegna rangstæðu, líklega réttur dómur.

Niðurstaðan í leiknum var því jafntefli í leik sem Blikar hefðu klárlega átt að vinna.

Blikar spiluðu á köflum mjög flottan fótbolta og mikil óheppni að vinna ekki þennan leik. 

Hallbera var valin maður leiksins enda virkilega flott í þessum leik.

Eftir þennan leik eru Blikar einu stigi á eftir Stjörnunni í 2. sæti og mikil spenna framundan í deildinni.

Næsti leikur er einmitt við Stjörnuna í bikarkeppninni og fer hann fram á Samsung-vellinum næsta föstudag kl. 19:15.

Nú þurfa allir að mæta og styðja stelpurnar okkar á föstudaginn enda toppliðin tvö að mætast og stefnir allt í spennandi leik.

Áfram Breiðablik.

Til baka