BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Engin afgangur!

24.09.2016

Blikar unnu mikilvægan 2:0 sigur á fallliði Skagakvenna. Ekki var neinn glæsibragur yfir sigrinum og geta Blikakonur þakkað krafti og dugnaði varamannsins Esterar Rósar Arnarsdóttir að við náðum að brjóta ísinn skömmu fyrir leikslok.  Hún náði knettinum inn í teig Skagakvenna og kom honum á Fanndísi Friðriksdóttur sem gerði vel að koma tuðrunni í markið átta mínútum fyrir leikslok. Skömmu síðar skallaði Málfríður Erna Sigurðardóttir knöttinn í netið eftir góða hornspyrnu Hallberu og þar með eigum við Blikar enn smá möguleika á því að verja Íslandsmeistaratitilinn.

 

Blikakonur byrjuðu leikinn af miklum krafti. Sóknirnar buldu á marki gestanna og en okkar stúlkum var gersamlega fyrirmunað að skora. Smám saman rann leikurinn út í óttalegt miðjumoð. Lykilmenn í liðinu voru að spila langt undir getu og einhvern veginn náðum við aldrei að brjóta niður sterka vörn Skagastúlknanna í hálfleiknum.

 

Áhorfendur voru nokkuð áhyggjufullir í Blikakaffinu í leikhléinu. Hvorugu liðinu hafði tekist á skora í Vesturbænum þannig að við urðum að sigra í leiknum til að halda Íslandsmeistaradraumnum á lífi.  Flestir voru þó á því að Steini þjálfari myndi blása Blikastúlkunum siguranda í brjósti í klefanum og við myndum landa þessum mikilvæga sigri.

 

En síðari hálfleikurinn var ósköp lítilfjörlegur. Þrátt fyrir góða baráttu Fjollu Shalla á miðjunni þá náðu Blikastúlkurnar ekki upp flæði í spili liðsins. Sóknarmenn Blika voru hvað eftir annað dæmdir rangstæðir og var áhorfendum hætt að lítast á blikuna. En þegar Fjolla Shalla þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla þá koma Ester Rós inn með hraða og kraft í sóknarleikinn. Skömmu fyrir leikslok náði síðan Fanndís að brjóta ísinn eins og þegar hefur verið lýst.

 

Blikaliðið var með knöttinn lungan af leiknum og áttu Skagakonur í raun ekki eitt einasta færi í leiknum. En það er ekki nóg að vera með knöttinn úti á vellinum ef ekki er hægt að koma honum í net andstæðinganna. Töluverð þreyta virtist hrjá landsliðskonurnar okkar og voru þær í raun ekki svipur hjá sjón. Að vísu sýndi Fanndís í hvað henni býr þegar hún skoraði markið en að öðru leyti vilja landsliðskonurnar okkar örugglega gleyma þessum leik. Það var svo sannarlega engin afgangur af þessum sigri í dag!

 

Sigurinn gerði það hins vegar að verkum að Íslandsmótinu er ekki enn lokið. Við leikum gegn Valsstúlkum á útivelli á meðan Stjarnan tekur á móti FH-dömum í síðustu umferðinni á föstudaginn. Það er stundum sagt að ekki eigi að yfirgefa sýninguna fyrr en feita konan syngur. Við tökum undir það og við skulum berjast fram á síðustu mínútu. Eins og sannaðist í Inkasso deildinni hjá Fáskrúðsfirðingum í dag þá er ekkert búið fyrr en það er búið!

Til baka