BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ekki búið fyrr en feita konan syngur!

25.08.2015

Það var einmunablíða í Kópavogi í kvöld þegar stelpurnar okkar tóku á móti Val í Pepsí-deildinni. Stuðningsmenn voru enn í sigurvímu eftir leikina gegn Stjörnunni bæði hjá strákunum og stelpunum og sjálfsagt hefur það sama verið uppi á teningnum hjá leikmönnunum okkar.  En það var þó ekki alveg augljóst í byrjun leiks því hann var ekki nema tæplega þriggja mínútna gamall þegar Andrea Rán var búin að koma Blikunum yfir með laglegu marki eftir flottan undirbúning frá Telmu Hjaltalín.  Valsliðið hefur sjálfsagt ekki búist við þessum móttökum en næstu mínútur var nokkuð jafnræði með liðunum, sem hvorugu tókst að skapa sér færi sem bragð var af.

Varnarlínan okkar var algjörlega mögnuð með þær Málfríði Ernu og Guðrúnu Arnardóttur í hjarta hennar og þær stóðu báðar undir nafni.  Það hlýtur að vera mikil hvatning fyrir yngri leikmenn okkar og annarra liða að vita til þess að þriggja barna móðir á fertugsaldri fer létt með að vera einn besti leikmaður deildarinnar.

Fanndís Friðriksdóttir, markamaskínan okkar, minnti á sig á markamínútunni, þeirri 43., og skoraði gull af marki. Svava fór þá upp að endamörkum hægra megin, sendi boltann þvert fyrir markið þar sem Fanndístók á móti honum vinstra megin í vítateignum, lék boltann út að vítateigslínu, sneri sér þar innað markinu og þrumaði boltanum í fjærhornið.  Virkilega vel gert hjá henni, 2-0, og þannig var staðan í hálfleik.

Fanndís kom funheit inní seinni hálfleik og sýndi okkur strax í upphafi hans að hún ætlaði sér að setja fleiri mörk.  Hún gjörsamlega fíflaði Valsvörnina uppúr skónum æ ofaní æ í seinni hálfleiknum og á 56. mínútu setti hún annað mark sitt á leikinn eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn Vals og renndi boltanum í autt markið.

Telma Hjaltalín bætti fjórða markinu við á 59. mínútu eftir virkilega góða sendingu frá Aldísi Köru sem kom inná fyrir Rakel Hönnudóttur í leikhléi.  En Fanndís hafði ekki sagt sitt síðasta. á 89. mínútu, þegar Valsliðið beið eftir því að flautað yrði til leiksloka fékk Fanndís sendinguupp vinstri kantinn og þar lék hún enn og aftur á varnarmenn og markvörð Vals og setti boltann í autt netið. Fimmtar markið var staðreynd og ljóst að flestir þeirra 362 áhorfenda sem mættu á Kópavogsvöll færu kátir og sælir heim.

En leikurinn er ekki búinn fyrr en feita konan syngur, eða dómarinn flautar til leiksloka og þegar leikklukkan sýndi 90. mínútur lokaði Svava Rós leiknum með flottu marki og KópaCabana liðar hreinlega trylltust af fögnuði. Enda engin furða, frábær leikur kominn á enda, dásemdar veður, liðið að spila eins og sannir meistarar og Íslandsmeistaratitillinn í seilingarfjarlægð.

Eins og áður er sagt þá var miðvarðarparið okkar alveg frábært í þessum leik. En liðsheildin er það sem máli skiptir og hana vantar sannarlega ekki í Breiðabliksliðið þetta árið.  Það var unun að horfa á stelpurnar, það er mikil hreyfing á liðinu, þær eru klókar að byggja upp sóknir og varnarvinnan hjá liðinu er til mikillar fyrirmyndar. Markarskorarinn Fanndís Friðriksdóttir er sannarlega betri en engin og reynsla hennar er klárlega að skila sér inní þennan hóp. Í kvöld átti hún virkilega góðan leik og var fremst meðal jafningja.

En eins og ég sagði áðan þá er þetta ekki búið fyrr en feita konan syngur. Hún er búin að undirbúa sig, komin í gallann og sviðið er tilbúið, en hún fær ekki að hefja upp rödd sína fyrr en þriðjudaginn 1. september þegar stelpurnar okkar eiga erfiðan útileik á Selfossi, gegn afar öflugu liði heimakvenna.  Það eru engir aukvisar í Selfossliðinu og full ástæða til að hvetja Blika til að fjölmenna á Selfoss þennan þriðjudag og standa við bakið á stelpunum okkar.

Ekki má gleyma hlut KópaCabana í leiknum í kvöld.  Þeir voru virkilega flottir, sungu og trölluðu í gegnum allan leikinn og voru m.a.s. með smá skemmtiatriði í miðjum leik þegar lítið var um að vera og sýndu heljarstökk í brekkunni að austanverðu. Þessi hópur er algjörlega ómetanlegur og fyllir okkur öll af stolti yfir því að vera Blikar.

Ég þakka stelpunum kærlega fyrir leikinn, þið eruð alveg magnaðar og minnið þá gömlu á gullaldarliðin frá árunum 1982 og 1996 og það er sko ekki leiðum að líkjast!

Áfram Breiðablik – áfram stelpur!

Ingibjörg Hinriksdóttir.

Til baka