BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ein fyrir allar, allar fyrir eina

10.06.2015

Það var ekki laust við smá spennu í maganum fyrir leik Breiðabliks og Stjörnunnar í kvöld. Liðin mættust á föstudag í bikarnum og þar hafði Stjarnan nauman sigur. Það var því hárréttur tími að hefna fyrir það í dag og rúlla þeim upp í deildinni.

Hér er hægt að nálgast Leikskýrslu og lýsingu Ingó á Facebook.

Leikurinn fór ansi fjörlega af stað. Stelpurnar okkar sóttu talsvert meira og sköpuðu sér nokkur færi. Okkar stelpur voru heldur meira með boltann en þær hvítklæddu vörðust ágætlega. Í stúkunni komu bestu stuðningsmenn landsins, snillingarnir í Kópacabana, sér fyrir og kyrjuðu söngvana sína.

Stelpurnar okkar léku frábærlega í fyrri hálfleik og þær Fanndís og Telma fífluðu Stjörnuvörnina nokkrum sinnum uppúr skónum á upphafsmínútunum. Blikavörnin fékk ekki nema örlitla ágjöf í fyrri hálfleiknum, en það er greinilegt að okkar stelpur eru vel samstilltar og átti sóknarlína Stjörnunnar ekki nokkra möguleika gegn þeim í fyrri hálfleik.

Á 41. mínútu vann Fanndís Friðriksdóttir boltann, bar hann upp vinstri kantinn og þegar hún var komin upp að endamörkum sendi hún boltann fyrir þar sem Telma Hjaltalín Þrastardóttir setti boltann í netið af stuttu færi. 1-0 í hálfleik. Snilldar gott mark sem reyndist verða munurinn á milli liðanna og tryggði okkur stigin þrjú og toppsæti deildarinnar.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði. Okkar stelpur sóttu fast að marki Stjörnunnar og sköpuðu sér nokkur afbragðs færi. Á köflum réðu þær lögum og lofum á vellinum og stjórnuðu því sem þær ætluðu sér. Í seinni hálfleiknum var sótt meira upp miðjuna og hægri kantinn, en í þeim fyrri var einstefna upp vinstri kantinn.

Liðsheildin hjá Breiðabliki er einstök. Það er vel skipað í allar stöður og liðið er að leika saman sem ein heild. Varnarmennirnir undir dyggri forystu Málfríðar Ernu Sigurðardóttur stígur vart feilspor, Guðrún var öflug í fyrra en með Fríðu sér við hlið eru þær hið fullkomna miðvarðapar. Í bakvörðunum standa þær Ásta Eir og Hallbera vaktina. Ásta er vaxandi leikmaður sem á klárlega eftir að banka fast á landsliðsdyrnar á meðan Hallbera er margreynd og mikill reynslubolti sem ekki kallar allt ömmu sína, enda vön því að vera með vindinn í fangið á Skaganum.

Á miðjunni sýnir Rakel Hönnudóttir hvers hún er megnug. Hún er límið sem bindur liðið saman, fyrirliði sem hvetur sitt lið áfram og er mikill dugnaðarforkur. Jóna Kristín er komin í rétta stöðu, djúp á miðjunni þar sem vinnusemi hennar fær að njóta sín. Andrea Rán er framtíðarleikmaður, aðeins 19 ára gömul en spilar eins og hún væri 29 ára og hokin af reynslu.

Á köntunum eru þær Fanndís og Svava. Þær eru ólíkir leikmenn að mörgu leyti, Svava er eins og Fanndís ákaflega vinnusöm en þó er ekki eins mikil fyrirferð í henni og Fanndísi, það er enda mun meira spilað upp vinstri kantinn í gegnum þær Hallberu og Fanndísi heldur en Ástu Eir og Svövu. Svo það er ekki skrýtið að fyrirferðinni sé ekki fyrir að fara. En hún vinnur alla sína vinnu óaðfinnanlega.

Á ég þá aðeins eftir að nefna senterinn okkar, Telmu Hjaltalín. Þessi tvítuga stelpa er sannarlega að slá í gegn. Þvílíkur nagli þó hún hafi ekki hæð eða þyngd með sér í liði. En kraftmikil er hún með afbrigðum, skotviss og dugleg.

Ein er ónefnd í þessu liði - markvörðurinn Sonný Lára Þráinsdóttir er klárega einn besti markvörður deildarinnar og hefur verið undanfarin ár. Þessi stelpa hefur allt það til að bera sem prýða þarf góðan markvörð. Hún er stór, hún hefur staðsetningar á hreinu og les leikinn virkilega vel.

Þorsteinn Halldórsson þjálfari og hans fólk er að gera frábæra hluti og fyrir gamlan Blika eins og mig er fátt skemmtilegra en að vita af stelpunum okkar á toppi deildarinnar, þar sem þær eiga heima. Til hamingju Steini og stelpur allar, takk fyrir leikinn þið voruð frábær í kvöld.

Til baka