BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Draumabyrjun hjá stelpunum

07.05.2018

Óhætt er að segja að Breiðablik hafi byrjað Pepsi-deild kvenna á flugeldasýningu þegar stelpurnar heimsóttu Stjörnuna í fyrsta leik sumarsins, þó veðrið hafi frekar bent til þess að veturinn væri að ganga í garð. Eftir rólega byrjun lifnaði heldur betur yfir leiknum. Fyrst komst Stjarnan yfir, en tvö mörk Blika á þremur mínútum sneru taflinu rækilega við. Fyrsta markið var skráð sjálfsmark, en Agla María átti þar allan heiðurinn áður en Áslaug Munda skoraði annað markið. Staðan 2:1 fyrir Blika í hálfleik.

Agla María var í stuði á sínum gamla heimavelli og kom Blikum í 3:1 snemma í síðari hálfleik, áður en Berglind Björg stimplaði sig rækilega inn. Hún hlóð í þrennu síðasta hálftíma leiksins, fyrst skoraði hún eftir sendingu Karólínu Leu, því næst úr vítaspyrnu áður en hún fullkomnaði svo þrennuna.

Lokatölur urðu 6:2 fyrir Blikastelpur sem áttu svo sannarlega innistæðu fyrir því að fagna vel og innilega í leikslok. Stórkostleg frammistaða hjá liðinu og ljóst að sumarið hefði varla getað byrjað betur.

Næsti leikur hjá stelpunum er fyrsti heimaleikur sumarsins á miðvikudaginn, 9. maí klukkan 19:15. Vonandi mæta sem flestir á Kópavogsvöll að styðja þessa snillinga. Áfram Breiðablik!

Til baka