BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik Íslandsmeistari í Pepsi MAX 2020

01.11.2020

Knattspyrnusamband Íslands hefur tekið ákvörðun um að Íslandsmótum í knattspyrnu sé lokið árið 2020.  Þetta er eðlileg niðurstaða eftir að sóttvarnarlæknir ráðlagði harðari aðgerðir í sóttvörnum næstu vikur á þessum undarlegu tímum og stjórnvöld ákváðu að fara að þeim ráðum.

Stóru tíðindin eru auðvitað þau að Breiðablik varð Íslandsmeistari í Pepsi MAX deild kvenna.  Sá titill var afar verðskuldaður en það er ljóst að Breiðablik var besta lið deildarinnar þetta árið.  Sigur liðsins gegn Val á Hlíðarenda var það sem tryggði okkur þennan titil sem við misstum til erkifjendanna á síðasta ári.  Breiðablik spilar gríðarlega vel um þessar mundir og það er góð blanda reynslumikilla leikmanna auk afar efnilegra ungra leikmanna sem hafa rækilega stimplað sig inn í kvennaknattspyrnuna hérlendis.  Sumar þeirra gegna orðið lykilhlutverki í landsliði Íslands sem er líklegt að nái að tryggja sér sæti í Evrópukeppni landsliða sem fer fram á næsta ári ef Guð lofar. Blikaliðið átti möguleika á að vinna tvöfalt í ár en við áttum eftir undanúrslitaleik við Selfoss í Mjólkurbikarkeppninni. Sigur í þeim leik hefði skilað okkur í úrslitaleik gegn KR eða Þór/KA, en bikarkeppnin var auðvitað blásin af vegna Covid 19 sömuleiðis.

Þetta knattspyrnuár fer auðvitað í sögubækurnar - en það kemur ekki til af góðu.  Við vonum öll að næsta leiktímabil verði meira hefðbundnara en þetta sem nú er að líða.

Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!

MARKASYRPA (smella á krækju)

pic.twitter.com/1Fht4cvm1p

Til baka