BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar bitu vel frá sér!

05.10.2016

Blikastúlkurnar geta verið stoltar eftir 0:1 tap gegn einu sterkasta kvennaliði Evrópu, Rosengard frá Svíþjóð í Evrópukeppni meistaraliða.  Sænska liðið var reyndar mun sterkara í fyrri hálfleik  og uppskar mark fljótlega í leiknum. Blikastúlkurnar báru of mikla virðingu fyrir stórstjörnum til að byrja með en í síðari hálfleik byrjuðu þær að bíta frá sér. Þegar upp var staðið voru þær grænklæddu í raun óheppnar að ná ekki í að minnst kosti eitt stig í leiknum. Þessi staðreynd gefur Blikastúlkunum byr undir báða vængi fyrir síðari leik liðanna í Svíþjóð í næstu viku.

Veðurguðirnir voru ekki í sparifötunum í Kópavoginum í dag. Rok og rigning barði á leikmönnum og þeim tæplega 300 áhorfendum sem mættu á leikinn. Vallaryfirvöld þurftu að færa varamannaskýlin í var við gömlu stúkuna og austannáttin blés rigningunni beint upp í nýju stúkuna.  Sænsku meistararnir létu samt ekki veðrið aftra sér frá því að láta boltann ganga og yfirspila þær grænklæddu fyrsta hluta leiksins. En sem betur fer brotnaði  Blikaliðið ekki þrátt fyrir þessa yfirburði. Smám saman náðum við vopnum okkar og rétt fyrir leikhlé fékk Esther Rós Arnardóttir dauðafæri en setti knöttinn framhjá a la Breidablik!

Leikmenn og áhorfendur flúðu í skjól í leikhléinu, svo ekki sé minnst á dómaratríóið frá Kýpur. Steini hefur greinilega blásið Blikastúlkunum eldmóð í brjóst í klefanum því það var allt annað Blikalið sem mætti til leiks í síðari hálfleik. Stúlkurnar börðust um hvern einasta bolta en létu samt knöttinn ganga lipurlega á milli sín í hávaðarigningunni. Einkum var Svava Rós hættuleg á hægri kantinum og réðu sænsku varnarmennirnar illa við hraðan og kraftinn í henni. Blikaliðið fékk nokkur þokkleg færi en svo fór fyrirliðinn Rakel Hönnudóttur illa með ágætt færi.  Vörnin steig hins vegar ekki feilspor í síðari hálfleik og var hrein unun að sjá hve miðverðirnir Málfríður og Ingibjörg héldu hinum þekktu sóknarmönnum Svíanna í skefjum. Einkum átti Ingibjörg sannkallaðan stórleik og gaf ekki tommu eftir í leiknum. Svo varði Sonný  það sem á markið kom.

Blikaliðið í heild á mikið lof skilið fyrir þennan leik. Stelpurnar börðust gríðarlega vel og sýndu það og sönnuðu að þær geta á góðum degi staðið bestu liðunum í Evrópu snúning. Ef liðið nær  hagstæðum úrslitum í seinni leiknum er ekki ólíklegt að einhverjar af Blikastúlkunum fái tilboð frá erlendum liðum. Það verður að minnsta kosti áhugavert að sjá hvernig liðinu gengur í Svíþjóð í næstu viku en þar mun eitthvað af stuðningsmönnum Blika fylgja með til að hvetja okkar stúlkur til dáða.

Til baka