BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Berglind Björg aftur í Breiðablik

18.07.2016

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Fylkir og Breiðablik hafa komist að samkomulagi um félagsskipti Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur í Breiðablik. Berglind skrifaði undir 3 ára samning og mun taka þátt í harðri keppni okkar sem framundan er á öllum vígstöðvum, deild, bikar og Evrópu.

Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikill liðstyrkur er í Berglindi hún hefur spilað 140 leiki í efstu deild frá því að hún spilaði sinn fyrsta leik með okkur Blikum árið 2007 þá aðeins 15 ára gömul og í þeim hefur hún skorað 82 mörk.

Berglind á 15 A landsleiki og fjöldann allan af leikjum með yngri landsliðum.

Breiðablik og Fylkir hafa átt gott samstarf í leikmannamálum á síðustu misserum og nokkrar ungar og efnilegir Blikastelpur hafa verið lánaðar til þeirra þar sem þær hafa stigið sín fyrstu skref í meistaraflokki. Það er ljóst að framhald verður á þeirri samvinnu á næstu árum. Við viljum jafnframt þakka Fylki fyrir fagleg og heiðarleg vinnubrögð í tengslum við félagaskipti Berglindar.

Við bjóðum Berglindi velkomna heim og hlökkum til að sjá hana í græna búningnum að nýju á vellinum sem allra fyrst.

Til baka