BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Baráttusigur í Fífunni

10.04.2015

Blikastelpur tóku á móti Þór/KA í Fífunni í kvöld.  Byrjunarlið Blika var þannig skipað:  Sonný í marki, Fjolla, Guðrún, Málfríður og Hallbera í vörninni, Jóna, Rakel og Aldís á miðjunni, Svava og Telma á köntunum og Fanndís uppi á toppi.

Leikurinn fór frekar rólega af stað, norðanstúlkur pressuðu nokkuð stíft og Blikarnir fengu lítinn tíma til að spila boltanum,  bæði lið áttu skot að marki en lítil ógn samt,. Blikar komust í álitlega sókn á 17 mínútu en náðu ekki að kára og Þórsarar brunuðu í framhaldinu upp völlin þar sem hin stórhættulega Sandra María Jessen slapp í geng og kom Þór yfir.  Eftir þetta hélt baráttan áfram og bæði lið fengu hálffæri, Blikar þó hættulegri en staðan í hálfleik 0-1 fyrir Þór/KA.  Alls ekki nógu góður leikur hjá okkar stelpum og ljóst að þær þyrftu að taka sig saman í andlitinu í síðari hálfleik.

Ein breyting var gerð á Blikaliðinu í hálfleik Fjolla fór af velli og María Rós kom í vörnina í hennar stað. Blikastelpurnar komu mun ákveðnari í síðari hálfleikinn og á 53 mínútu áttu þær góða sókn, Hallbera átti góða sendingu á Fanndísi sem náði að setja boltann út í teig þar sem Rakel var réttur maður á réttum stað og jafnaði leikinn.  En eitthvað kæruleysi kom í mannskapinn við þetta því það tók Þór aðeins 3 mínutur að komast yfir að nýju. Þar var á ferðinni Andrea Mist sem klárði vel góða sókn norðanmanna.  Staðan orðin 1-2 gegn gangi leiksins.  Á 61 mínútu leiksins tók Telma sig til og prjónaði sig í gengnum vörn Þórsari og skoraði glæsilegt mark og staðan orðin 2-2.

Á sjötugustu mínútu kom Selma Sól inná fyrir Svövu og  áfram var leikurinn algerlega eign Blika, og undir lok leiks kom Elena inn fyrir Aldísi.  En það var ekki fyrr en á 87 undu mínútu sem sókn Blika bar árangur, þegar Thelma kemst upp að endamörkum og nær að koma boltanum til Rakelar sem hamraði boltan í netið og kom okkur í 3-2.  Fanndís fór siðan útaf og Sunna kom inn og nokkrum mínútum síðar var flautað til leiksloka.

Góður sigur og stelpurnar búnar að tryggja sér efsta sæti riðilsins en það kemur síðan í ljós þann 21. apríl hverjir verða mótherjar okkar í undanúrslitum.  Þangað til eigum við reyndar eftir að mæta Fylkisstúlkum en sá leikur verður Laugardaginn 18 apríl.

Til baka