BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Agla María framlengir!

24.03.2019

Íþróttakona Kópavogs 2018, landsliðskonan Agla María Albertsdóttir, hefur skrifað undir nýjan samning við Breiðablik og er nú samningsbundin félaginu til næstu þriggja ára.

Agla María er 19 ára gömul og spilaði upp yngri flokka Breiðabliks. Hún sneri aftur til félagsins í fyrra og var gríðarlega mikilvægur þáttur í því að Breiðablik varð Íslands- og bikarmeistari í fyrra, strax eftir endurkomu hennar til félagsins, en hún skoraði níu mörk í 22 leikjum í deild og bikar síðasta sumar.

Agla María hefur þar að auki fest sig vel í sessi í A-landsliðinu og hefur spilað 23 leiki og skorað í þeim tvö mörk. Áður átti hún að baki 27 leiki með yngri landsliðum og tíu mörk.

Agla María var vel að því komin að verða kjörin íþróttakona Kópavogs 2018 og Blikar eru í skýjunum með að hún hafi framlengt samning sinn við félagið. Hér er á ferðinni einn besti leikmaður deildarinnar, fyrir utan hvað hún spilar stórt hlutverk í landsliðinu, og er mikilvæg fyrirmynd í herbúðum félagsins.

Til baka