BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Örugg 3 stig og spennan magnast

07.09.2016

Í dag tóku stelpurnar okkar á móti eyjastúlkum.  Þetta er þriðji leikur þessa liða í sumar en við munum vel eftir öruggum sigri okkar í bikarúrslitaleik í ágúst og einnig vannst góður útisigur í eyjum í lok júní.  Steini gerði eina breytingu á byrjunarliðinu frá síðasta leik en Berglind kom aftur í inn og Esther Rós fékk sér sæti á tréverkinu.

Byrjunarlið Blika var þannig skipað:

Sonný í marki, 

Arna Dís, Ingibjörg, Fríða og Hallbera í vörninni,

Fjolla, Rakel, Hildur á miðjunni, Svava og Fanndís á köntunum og Berglind uppá topp.

Hér er hægt að nálgast leikskýrslu og texta lýsingu af leiknum.

Leikurinn byrjaði af krafti, bæði lið létu vel finna fyrir sér og greinilegt var að bæði lið vildu þessu þrjú stig sem voru í boði.

Á 8. mín brunaði Fanndís upp kantinn, gaf boltann fyrir þar sem bæði Svava Rós og Berglind komu á ferðinni en á síðustu stundu náði eyjastúlkur að hreinsa frá markinu.  Áfram sóttum við og á 19 mín var Rakel alveg við það á sleppa ein í gegn en var óheppin að missa af boltanum.  Það var svo á 23. mín sem Svava Rós kom með frábæra fyrirgjöf þar sem Rakel gerði vel, fór framfyrir varnarmann ÍBV og skoraði með góðum skalla.  Mjög vel gert hjá okkur stúlkum, frábær fyrirgjöf og vel klárað. 

Á 25 mín var brotið á Rakel á miðjum vallarhelmingi IBV.  Fanndís tók spyrnuna og kom með fínan bolta inná vítateig þar sem Rakel nær að sneiða boltann afturfyrir sig og með smá heppni dettur boltinn fyrir fætur Berglindar sem klárar svona færi auðveldlega og staðan orðin 2 – 0.   Mikil gleði og léttir fyrir alla blika og svei mér ef poppið og kókið hafi ekki bragðast betur eftir þessi frábæru mörk.

Með bullandi sjálfstraust héldum við áfram að sækja,.  Bæði Svava og Fanndís áttu góðar skottilraunir og vorum við miklu nær því að bæta við þriðja markinu heldur en ÍBV að minnka muninn.  Greinilegt að þessi mörk slógu eyjastúlkur aðeins út af laginu.   Varnarleikur okkar stúlkna öruggur og góður og Sonny hafði það bara nokkuð náðugt í markinu.  Staðan í hálfleik 2 – 0 og allir kátir.

Seinni hálfleikurinn var  heldur rólegri.  Sonný gerði vel og varði ágætt skot eyjastúlkna á 50. mín en svo héldum við áfram  að sækja án þess þó að ná að skapa okkur dauðafæri.  Hornspyrna Hallberu endaði í stönginni á 63 mín, Svava var svo við það að koma sér í góða stöðu á 68 mín en á síðustu stundu náði varnarmaður ÍBV að komast fyrir skotið.  Á 70 mín kom fyrsta skiptingin hjá okkur, Esther Rós kom inn fyrir Fanndís sem kveinkaði sér aðeins eftir samstuð, vonandi ekkert alvarlegt.  Svava átti svo gott skot rétt yfir markið á 73 mín og Rakel átti gott skot en framhjá markinu á 80 mín.  Á 83 mín var punkturinn settur yfir i ið.  Esther Rós vann boltann, sendir hann á Rakel sem kom með góða fyrirgjöf á Svövu sem setti boltann í bláhornið.  Glæsileg spilamennska og vel klárað hjá Svövu sem hefur verið að spila frábærlega í sumar, svövuílandsliðið J.  Á 88 mín koma svo þær Kristín Dís og Oliva inn fyrir Svövu og Rakel.  Eyjastúlkur áttu svo síðasta færi leiksins en ágætt skot Lacassa endaði í stönginni.

Örugg og góð þrjú stig í höfn.  Eftir að fyrsta markið kom var það aldrei spurning hvort liðið myndi fara með sigur af hólmi. 

Stutt í næsta stórleik sem verður á laugardag gegn Stjörnunni í Garðabæ þar sem við ætlum okkur 3 stig og ekkert annað.  Algjör skyldumæting er þar fyrir alla blika.

Til baka