BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

3 góð stig í safnið eftir sigur á KR stúlkum

26.07.2016

Stelpurnar fóru í vesturbæ Reykjavíkur í kvöld til að sækja þrjú stig.  Steini gerði tvær breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik því þær Andrea Rán og Guðrún Arnars eru farnar til náms í Bandaríkjunum og komu þær Ingibjörg Sig og Oliva Chance í þeirra stað.

 

Textalýsingu frá leiknum má skoða hér og leikskýrslu hér.

 

Stelpurnar stjórnuðu leiknum frá fyrstu mínutu. En það var samt ekki fyrr en á 24 mín leiksins sem sem fyrsta færið leit dagsins ljós.  Olíva fékk þá dauðafæri , fékk frían skalla á markteig en skalli hennar rataði beint á Ingibjörgu markmann KR stúlkna.  Áður höfðu þær Ásta Eir og Fanndís átt skot fyrir utan teig en í bæði skiptin fór boltinn framhjá markinu. 

Áfram herjuðu stelpurnar okkar að markinu og nú fóru skot frá Rakel Hönnu og Olivu framhjá markinu.  Svava komst svo ein i gegn á 31 mín leiksins sem hún kláraði örugglega en því miður var hún dæmt rangstæð.  Það var svo rétt fyrir lok fyrrihálfleik sem Hallbera tók góða aukaspyrnu en boltinn smaug framhjá. 

Við eins og áður sagði með alla stjórn á leiknum en boltinn hefði mátt ganga hraðar á milli manna og með færri snertingum hefðum við getað skapað okkur enn fleiri og betri marktækifæri.

 

Seinni hálfleikurinn byrjaði af krafti því strax á 48 mín skoraði Fjolla Shala fallegt mark. Lyfti boltanum  fallega yfir markmann KR stúlkna frá vítateig, virkilega vel gert hjá Fjollu sem hefur verið að spila frábærlega undanfarið.   Aðeins mínutu seinna áttum við að fá vítaspyrnu þegar Fanndís var fellt inni í teignum en á óskilanlegan hátt flautaði dómarinn aldrei í flautuna eftir að hann setti hana upp í munn J  Berglind fékk svo tvö dauðafæri með stuttu millibili en náði ekki að skora, annað var skalli sem markmaðurinn varði og síðan komst hún ein í gegn  en skaut framhjá en allt er þegar þrennt er og eftir góða sendingu frá Olívu á 66 mín náði hún að brjóta ísinn og lagði boltann snyrtilega í markið.  á 68 mín kom svo Arna Dís inná fyrir Ástu Eir  en þetta var síðasti leikur Ástu á tímabilinu sem heldur náms í Bandaríkjunum á fimmtudag. á 79. mín átti Fanndís gott skot rétt yfir markið og Berglind átti svo síðasta færi leiksins þegar hún skallaði boltann rétt yfir markið á 90 mín.

 

Góð þrjú stig í safnið til okkar og baráttan heldur áfram. 

 

Næsti leikur er á Kópavogsvelli 9. ágúst þegar FH stúlkur koma í heimsókn

Til baka