BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Vonbrigði í Víkinni 2019 – Seinni hluti

16.08.2019

Það er ekki hægt að biðja um betri aðstæður til að leika knattspyrnu en þegar Víkingur tók á móti Breiðablik í undanúrslitum Mjólkurbikarkeppninnar 2019 fimmtudagskvöldið 15. ágúst. Nánast blankalogn og hitastigið 13 gráður. Meira að segja höfðu máttarvöldin af tillitssemi sent hinu nýlagða gerfigrasi í Víkinni hitaskúr þannig að völlurinn gat ekki verið betri til iðkunar á boltasparki.

Þetta var líka tímamótaleikur að því leyti að notuð voru ný flóðljós í Fossvoginum þannig að annað árið í röð fengu Blikar þau forréttindi að vígja slíka lýsingu í höfuðborginni. Í fyrra var sama uppi á teningnum í Árbænum þar sem Blikar vígðu slíka lýsingu á Fylkisvellinum.

Byrjunarlið Breiðabliks sem sjá má hér var nánast óbreytt frá leiknum á Akranesi í Pepsi MAX deildinni á sunnudaginn var þar sem fyrri hálfleikur var einn sá albesti sem liðið hefur sýnt í sumar. Damir kom inn fyrir Viktor Örn en að öðru leyti var það hið sama. Síðustu 2 leikir hafa unnist (gegn KA og ÍA) og var það afar kærkomið eftir mjög svo rýran júlímánuð þar sem liðið lék 6 leiki - tapaði 4 og gerði 2 jafntefli.

KSÍ Leikskýrsla    Úrslit.net      Upphitunarpistill Blikar.is fyrir leik

En að leiknum:

Hann var í jafnvægi framan af en Blikar voru með yfirhöndina þegar leið á fyrri hálfleikinn. Það var því í samræmi við leikþróunina að Blikar komust yfir með marki úr vítaspyrnu sem Thomas Mikkelson skoraði úr – en hann hafði verið felldur í teignum í dauðafæri eftir gott skot Davíðs Ingvarssonar. Það var reyndar stórmerkilegt að um leið og við tókum forystu í leiknum var eins og að kvíðbogi hafi læðst að manni um að það væri erfitt að halda þessari forystu. Það hefur gerst oft á tíðum í sumar að við höfum fengið á okkur mark strax í kjölfarið að við höfum skorað. Síðast í Víkinni fyrir nokkrum vikum síðan gerðist það í tvígang reyndar. Kannski það hafi lifað í undirmeðvitundinni hjá okkar mönnum og sóknarmaður þeirra komst í dauðafæri en Gunnleifur sá við honum með heimsklassa úthlaupi. En þá gerðist undarlegur atburður. Leikmaður Víkings tók þá furðulegu ákvörðun að beygja sig niður og skalla boltann í hnéhæð rétt fyrir utan vítateig Blika. Það er auðvitað gagnstætt reglum í knattspyrnu enda býður það mikilli meiðslahættu heim og er alla jafna túlkað sem “háskaleikur”. Höskuldur Gunnlaugsson var að hreinsa burt frá markinu en boltinn varð boltinn á milli höfuðs Víkingsins og spyrnunnar frá Höskuldi sem eðlilegt er. Það sem hinsvegar er alls ekki var eðlilegt var sú ákvörðun Þorvaldar dómara að Höskuldur hafi gerst brotlegur við knattspyrnlögin. Og það sem meira var. Hann hlaut gult spjald að launum!
Þetta minnir á söguna af Sigurði nokkrum, bónda í Skagafirði sem varð fyrir því að stolið var úr búri hans af vetrarforðanum. Hann hlaut í kjölfarið viðurnefnið “Sigurður þjófur” og var þekktur um allt Norðurland sem slíkur.

Úr aukaspyrnunni jöfnuðu Víkingar með fallegu marki og ótti okkar sessunautanna reyndist því miður ekki ástæðulaus. Og þetta átti bara eftir að versna því vörnin galopnaðist vinstra megin á síðustu mínútu hálfleiksins og eftirleikurinn hjá Víkingnum var auðveldur. Staðan því 2-1 fyrir Víking í hálfleik og á brattann að sækja.

Seinni hálfleikurinn var með kunnuglegu mynstri, Blikar meira með boltann en það vantaði alla grimmd og ákveðni fram á við. Í einni af örfáum skyndisóknum Víkinga skora þeir gott mark á 69. mínútu og leikurinn fjaraði út.

Leikurinn leystist síðan upp í mikla hörku. Víkingarnir töfðu leikinn og höfðu uppi leikræna tilburði sem minnti mann stundum á ítalskan fótbolta með tilheyrandi látbragði – sem auðvitað er bara óþolandi leikaraskapur. Þetta á ekki að sjást hjá fullorðnum mönnum og hljóp í skapið á Blikum. Svo mikið að Elfar Helgason gerðist illa brotlegur á 83. mínútu og fékk beint rautt spjald að launum. Sennilega verðskuldað og á ekki að sjást hjá jafn greindum pilti og Elfar er. Öllu verra er að hann þreif spjaldið af dómaranum og fleygði því í grasið. Þetta kann að hafa eftirmála. Það er hinsvegar með ólíkindum að landsliðsmiðvörðurin Kári Árnason fékk ekki að líta gult spjald í þessum leik. Honum leyfist meira en aðrir greinilega.

Síðan fjaraði leikurinn út – Andri Yeomann átti reyndar hörkuskot á mark Víkings á lokamínútunni en það var vel varið. Niðurstaðan er því sú að Víkingur mætir FH í úrslitum Mjókurbikarsins þetta árið.

Það er umhugsunarefni að við Blikar teljum okkur hafa efni á að hafa kjölfestuleikmann borð við Andra Rafn á varamannabekk. Ef við ætlum að vinna stóru leikina – þá þurfum við á reynslu hans og kröftum að halda. Það er eitthvað að sem þarf að laga þarna. Held reyndar að það sé mikið til í kollinum á mönnum.

Víkingarnir áttu þennan sigur sennilega skilið – en þeir leika nú í fyrsta sinn í 48 ár til úrslita í bikarkeppni KSÍ og er ástæða til að óska þeim til hamingju með árangurinn. Úrslitaleikurinn árið 1971 var einmitt gegn Breiðabliki og greinarhöfundur man vel eftir þeim leik. Ég var nemandi í Kópavogsskóla og leikmaður í 5. flokki Breiðabliks. Gunnleifur handavinnukennari sleppti hefðbundinni kennslu sama dag og við smíðuðum í staðinn stuðningsskilti af miklum móð sem við fórum vopnaðir á Melavöllinn með Strætisvögnum Kópavogs. Því miður tapaðist sá leikur 1-0 og voru það mikil vonbrigði. Við máttum síðan bíða til 2009 að komast í úrslit og þá vannst fyrsti stóri titill félagsins gegn Fram 7-6 eftir vítaspyrnukeppni. Nánar um leikinn 1971.

Við eigum erfitt verkefni fyrir höndum í Pepsi MAX deildinni sem nú á okkar athygli óskipta. Við tökum á móti Íslandsmeisturum Vals á Kópavogsvelli á mánudagskvöldið. Við erum í harðri baráttu um Evrópusætið og hvert stig hefur sjaldan verið mikilvægara en nú. Ef við misstígum okkur enn frekar líkt og í kvöld stefnir í að þetta ár verði keppnistímabil vonbrigða. Vonbrigði - það var tilfinningin eftir leikinn í kvöld í gönguferðinni í góða veðrinu í gegnum Fossvogsdalinn yfir í Kópavoginn. Hún var ekki góð vegna þess að við hefðum getað gert svo miklu, miklu betur.

HG

Umfjallanir netmiðla.

Myndaveisla í boði .net

 

 


 

Til baka