BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mjólkurbikarinn 2019 undanúrslit ! Víkingur R. - Breiðablik fimmtudag kl.19:15!

13.08.2019

Þá er komið að einum mikilvægasta leik sumarsins. Undanúrslitaleiknum gegn Víkingum í Mjólkurbikarkeppni KSÍ 2019.

Stutt er á milli heimsókna Blikamanna í Víkina þetta árið. Það eru ekki nema 2 vikur rúmar síðan við spiluðum við Reykjavíkur Víkinga í Pepsi Max deildinni. “Vonbrigði í Víkinni” skrifaði tíðindamaður blikar.is sem lesa má Hér.

Þrátt fyrir tap í síðustu heimsókn í Víkina var Blikaliðið að spila flottan fótbolta. Boltinn fékk að fljóta vel með jörðinni og liðið skapaði sér góð tækifæri. Og það má ekki gleyma því að við skoruðum tvo góð mörk og í flestum tilfellum hefði það dugað til að fá þrjú stig – eins og til dæmis í leiknum gegn ÍA á Akranesvelli á sunnudaginn var.

Ef Blikar loka búrinu á fimmtudaginn og spila sama bolta og í undanförnum 2-3 leikjum er farseðillinn í úrslitaleik Mjólkurbikarkeppni KSÍ 2019 í okkar hendi!

Tölfræði

Bæði lið hafa unnið Bikarkeppnina einu sinni, Víkingur árið 1971 og Breiðablik árið 2009, og freista þess nú að vinna sigur á fimmtudaginn og tryggja sér þannig sæti í úrslitaleik Mjólkurbikarsins 2019, gegn FH á Laugardalsvelli 14. september.

Blikar hafa þrisvar leikið til úrslita í Bikarkepnni KSÍ: 1971, 2009, 2018 og Víkingur tvisvar: 1967, 1971.

Hinsvegar eiga liðin að baki töluvert marga undanúrslitaleiki í bikarnum - Breiðablik 12 leiki og Víkingar 8 leiki, samtals 20 leikir:

Breiðablik – 12 undanúrslitaleikir: 1971 Fram 1:0 / 1976 Valur 0:0 og Valur 0:3 / 1978 ÍA 0:1 / 1980 ÍBV 3:2 / 1983 ÍA 4:2 / 1998 ÍBV 2:0 / 1999 KR 3:0 / 2007 FH 3:1 / 2008 KR 1:1 (1:4 vít.) / 2009 Keflavík 2:3 / 2013 Fram 2:1 / 2018 Víkingur Ó 2:2 (6:4 Vít.).

Víkingur – 8 undanúrslitaleikir: 1667 ÍA 1:0 / 1971 ÍA 2:0 / 1974 Valur 2:2 og 2:1 / 1982 ÍA 1:2 / 990 Valur 2:0 / 2006 Keflavík 4:0 / 2014 Keflavík 0:0 (4:2 vít).

Bikarkeppni KSÍ

Keppnin var fyrst leikin árið 1960 og hefur Breiðablik tekið þátt í bikarkeppninni óslitið síðan. Blikamenn tóku fyrst þátt í móti á vegum KSÍ árið 1957 en órofin þáttaka Breiðabliks í knattspyrnumótum hefst ekki fyrr en árið 1960 - félagið sendi ekki lið til keppni í mótum árin 1958 og 1959. Árið 1957 spilaði Breiðablik 4 mótsleiki í B-deildinni þar af einn leik gegn Víkingum – sem var jafnfram fyrsti innbyrðis keppnisleikur liðanna frá upphafi. Leikið var á Melavellinum 17. júlí.1957. Blikar töpuðu leiknum 6:2. Það var stíll yfir blaðaskrifum á þessum tíma. Tökum dæmi úr skrifum Þjóðviljans eftir leikinn 1957. Þar segir m.a. „Lið Kópavogs er sýnilega lítið æft og kann ekki mikið í listum knattspyrnunnar, en þeir eiga mikinn kraft og flýti en það er ekki einhlítt. Leiknin og skilningur á því hvað knattspyrna er, verður að vera með, annars fara menn í flýtinu framhjá knettinum og skilja hann eftir. Vafalaust geta þessir ungu Kópavogsmenn náð miklum árangri en það kemur ekki nema með mikilli vinnu og elju“.

Fyrsti stórleikur Breiðabliks og Víkings var úrslitaleikur Bikarkeppni KSÍ á Laugardalsvelli í september 1971 – Víkingar unnu leikinn 1:0. Breiðablik var með fantalið árið 1971. Leiðin í úrslitaleikinn gegn Víkingum var ekki auðveld. Blikar unnu lið Keflvíkinga 1-2, Val 2-1 og Fram 1-0 en töpuðu úrslitaleiknum gegn Víkingum 1-0.

Árið 1971 er ekki síður merkilegt vegna þess að það ár spilaði Breiðablik í fyrsta sinn í efstu deild - eftir mikla eljusemi og vinnu á þeim rúma áratug sem leið frá fyrstu þáttöku félagsins í opinberu knattspyrnumóti árið 1957.

Innbyrðis bikarleikir

Samkvæmt talningu blikar.is eiga liðin 10 leiki að baki í Bikarkeppnni KSÍ. Skráning á vef KSÍ segir innbyrðis leiki liðanna vera átta. Munurinn liggur í því að KSÍ skráir ekki leiki B-liða Breiðabliks og Víkings í bikarkeppninni 1968 og 1969.

1962 – 1. umferð. Þrjá leiki þurfti til að knýja fram úrslit í þessari rimmu:

Leikur #1 - 2.8.1962: Fyrsti leikurinn var á Melavellinum, heimavelli Víkinga, en gefum blaðamanni Þjóðviljans orðið “…. leiknum lauk með jafntefli hvorugu liðinu tókst að skora mark, og með réttu lagi hefði átt að framlengja leiknum, þar sem um útsláttarkeppni er að ræða. En myrkur var skollið á og taldi dómarinn ekki ráðlegt að halda leiknum áfram, þessi lið verða því að keppa að nýju. Meira>

Leikur #2 - 29.8.1962:Annar leikurinn fór fram í Hafnarfirði - hlutlausum velli. Gefum blaðamanni Vísis orðið “Enn lauk leiknum með jafntefli og varð að hætta við svo búið, og verður að koma þriðja leiknum á til að fá úr því skorið hvort liðanna fær að halda áfram í keppninni. Víkingar skoruðu fyrsta markið í leiknum, en Kópavogspiltarnir jafna fljótlega og komast svo marki yfir. Í hálfleik var staðan 2.1 fyrir Breiðablik. Víkingar jöfnuðu í síðari hálfleik, en Breiðablik skorar 3:2 og Víkingur jöfnuðu aftur 3:3. Leikurinn var oft harður og glannalegur á báða bóga og undir lokin var harkan orðin svo mikil að eingu munaði að upp úr syði”. Nánar>

Leikur #3 - 4.9.1962: Mjög lítið af upplýsingunm er að finna um þriðja leik liðanna í rimmunni. Blikar vinna leikinn 3:0 og fara áfram í 2. Umferð keppninnar og mæta þar liði Í.B.H (Íþróttabandalag Hafnafjarðar). Breiðablik vinnur leikinn við Hafnfirðinga 4:5 á Hvaleyrarholtsvelli. Og aftur er skortur á flóðljósum að trufla. Hafnfirðingar höfðu í hyggju að kæra leikinn þar sem komið var næstum svarta myrkur í leikslok.  Nokkur kurr var í Hafnfirðingum einkum vegna þess að leikið var með dökkum knetti í myrkri! Nánar> Blikar detta svo út í þriðju umferð eftir stórt tap gegn Keflavík í brjáluðu veðri á Framvellinum “og var það furðuleg sjón að sjá leikmennina kappklædda með slæður bundnar yfir höfuð og sokka á höndum til að halda hita á sér, línuverði með glasaþurrkur o.s.frv. skrifar blaðamaður Vísis. Upphaflega átti leikuinn að fara fram á Melavellinum, en hann reyndist ekki í leikhæfu ástandi vegna polla.

1967 – 2. umferð: Breiðabliksliðið tapar 3:2 í jöfnum og skemmtilegum leik. Víkingsliðið fór alla leið í keppninni árið 1967 en tapar í úrslitum fyrir KR 3:0. Nánar>

1968 – 3. umferð: B-lið. Víkingur R vinnur leikinn 4:0.  

1969 – 3. umferð: B-lið. Víkingur R vinnur leikinn 4:1.  

1971 – Úrslitaleikur: Fyrsti stórleikur liðanna var svo auðvitað úrslitaleikurinn í Bikarkeppni KSÍ á Laugardalsvelli í 9. september 1971 sem Víkingar unnu 1:0. Blikar voru með fantalið árið 1971 – fyrsta ár liðsins í efstu deild. Leið liðsins í úrslitaleikinn gegn Víkingum var ekki auðveld. Blikar unnu  Keflvíkinga 1:2, Valsmenn 2:1 og lið Fram 1-0. Meira>

Í upphafi þessa peppmyndbands frá 2009 er töluvert af myndum frá leikjum árið 1971

1983 – 8-liða úrslit: Blikar slá Íslandsmeistara Víkings út í 8-liða úrslitum með glæsilegu sigurmarki Sigurðar Grétarssonar í byrjun seinni hálfleiks. Meira>

1991 – 16-liða úrslit: Blikar tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum með 2:0 sigri á Sandgrasvellinum í Kópavogi. Grétar Steindórsson skoraði strax á 8. mín og besti maður vallarins, Arnar Grétarsson, skoraði skemmtilegt mark eftir góða samvinnu við Rögnvald “Gogga” Rögnvaldsson. Meira>

2013 – 8-liða úrslit: 1:5 stórsigur á 1. deildarliði Víkings R á Víkingsvelli tryggði Blikum sæti í undanúrslitum Borgunarbikarsins árið 2013. Meira>

Leikurinn

Sjáumst í Víkinni á fimmtudaginn. Mætum snemma og hvetjum Blikaliðið áfram.

Mjólk og kleinur í boði MS og það verða gefnir boltar fyrir leik.

Slepptu biðröðinni á fimmtudaginn og kauptu þinn miða í Stubbi! Sæktu Stubb hér. 

Sigur tryggir okkur farseðil í úrslitaleik Mjólkurbikarsins – annað árið í röð.

Flautað verður til leiks kl. 19:15!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka