BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

UNGU STRÁKARNIR VELJA

29.05.2020 image

Gaurarnir í meistaraflokki karla völdu Evrópulið Breiðabliksstráka nú á dögunum. Þú sérð liðið hérna og hann Eiríkur Hjálmarsson, sem var fyrsti formaður Blikaklúbbsins og er kominn af léttasta skeiði, hafði auðvitað skoðun á vali strákanna. Djúp greining hans á valinu fer hér að neðan.

Það er ferlega skemmtilegt að sjá hvernig Evrópuúrval Breiðabliksstrákanna lítur út. Gömlu brýnin eru gleymd og við blasa gaurar sem eru að gera frekar góða hluti víðsvegar um evrópska efnahagssvæðið og jaðar þess.

(Ef þú heldur að hér sé einhver spælingur á ferðinni þá er það misskilningur. Það er hlutverk okkar gömlu mannanna að muna eftir hverjum öðrum – gömlu mönnunum – og skjóta nöfnum þeirra að þeim yngri þegar við sjáum færi á því án þess þó að reikna með því að það verði fest í minni, frekar en fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar eða ártal Kópavogsfundarins.)

Nokkrar glósur

Í þessu liði er ekki fumkvöðull atvinnumennskunnar úr Kópavogi, Siggi Grétars, né heldur Addi bróðir hans, en þeir bræður í boðhlaupi héldu grísku efnahagslífi á floti árum saman. Þarna er ekki Einar Þórhalls, tengdapabbi borgarstjóra lýðveldisins, sem fór til náms í Skaufanum í Svíþjóð en ákvað að gerast betri læknir og pabbi en fótboltamaður. Þarna eru ekki heldur nokkurn veginn jafnaldrar mínir sem stigu upp úr því að vera efnilegir um það leyti sem bjórinn var leyfður; Sigurjón Kristjáns, Helgi Bents og Trausti Ómars. Þeir fóru líka út og fengu borgað fyrir að sparka bolta.

Eftir að Kópavogur óx úr því að þorp í að vera bær og svo í að vera borg kom fram mökkur mergjaðra leikmanna sem eitthvað fólk útlöndum var til í að borga peninga fyrir að spila fótbolta fyrir sig. Sumir þeirra hafa komist í þetta Evrópulið Breiðabliks, aðrir ekki. Eins og gengur.

Hverjir eru í liðinu

Elías Rafn er efnilegur markmaður hjá MidtJylland. Hann er svo ungur að það er gott að vita af Legolandi þarna í grenndinni.

Alfons munum við sem einn snarpasta bakvörð Breiðabliks frá því Gulli Helga var og hét. Hann er að ferðast á milli Covid-frírra Norðurlanda á milli sem hann kíkir heim og bjargar málum.

Sverrir Ingi er með fleiri stimpla í vegabréfinu en aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur tekið við af þeim Grétarssonum að bjarga gríska hagkerfinu og fáir hafa sent þyngri andardrátt niður hálsmálið á þeim Ragga og Kára í landsliðinu.

Elfar Freyr er enn einn Kópavogsbúinn sem hefur numið stóísk rósemdarfræði í Aþenu. Á bak við yfirvegaðar tæklingar bærist kvikur hugur og ólgandi skap. Það er sagt að hann muni ekki eiga í Basli með skapið í sumar. Elfar er Íslandsmeistari í fótbolta.

Davíð Kristján þurfti ekki að eiga marga leiki með meistaraflokki Breiðabliksí kindagötunum eftir vinstri kantinum sem Kiddi Jóns hafði grafið, áður en honum var boðið á norskan olíuborpall. Olíuverðið fer lækkandi, loftslagsáhrif vaxandi og við bjóðum hann velkominn heim í hagann þegar hann vill. 

Arnór Sveinn gafst uppá vegan í vetur og það er spursmál hvenær hann gefst upp á KR og kemur heim. Það er sagt að í Blikum séu slagæðar og grænæðar. Arnór á nóg af þeim síðarnefndu. Sumir segja að Arnór sé enn á leið heim frá Hönefoss í Noregi og væri í Breiðabliki hefði flugvélin ekki lent á REK frekar en KEF.

Kolbeinn var feikigóður í fyrrasumar, svo góður að hann var sjanghæjaður til Belgíu á miðju síðasta tímabili. Covid hefur farið illa með það land og við vonum að Kolbeinn standi keikur eftir og hann er alltaf velkominn heim til Þórólfs, Ölmu og Víðis.

Willum er eini fótboltamaðurinn sem við þekkjum sem hefur verið að spila fótbolta síðustu mánuði. Liðið hans, BATE Borisoff, þekkjum við úr meistaradeildarkeppnum árum saman og strákurinn hefur staðið sig svo vel að hann er ein helsta ljóstýran í lífi föður hans, sem er formaður fjárlaganefndar Alþingis í Kóvídsamdrætti.

Höskuldur er hetja sem hefur séð brekkur eða tvær. Það er engin tilviljun að þessi gaur, sem sneri heim frá Svíaríki í fyrra, er tekinn við fyrirliðabandinu. Engin tilviljun.

Jóhann Berg hefur þá sérstöðu að eiga langan yngriflokkaferil á Englandi, með Fulham og Chelsea. Það er nú samt Smárinn sem á mest í uppeldi Jóa sem var svo óheppinn að vera farinn út að spila áður en við urðum Bikarmeistarar 2009 og Íslandsmeistarar 2010.

Alfreð var hinsvegar í báðum liðum; Bikarmeistaraliðinu og Íslandsmeistaraliðinu og markahæsti og besti maður deildarinnar 2010. Hann er enn einn Blikinn sem hefur stutt við gríska hagkerfið og tryggði Olympiakos fyrsta sigur liðsins á enskri grundu með marki á móti Arsenal. Hann reyndar tryggði okkur jafntefli á móti Argentínu líka á HM. Það var gaman

Myndböndin 22 sem leikmennirnir gerðu sjálfir eru virkilega skemmtileg. Hámhorf hér.

image

Evrópublikar Breiðabliks 1980 - 2020

Um 50 leikmenn meistaraflokks karla hjá Breiðablik hafa farið, verið seldir eða lánaðir til liða erlendis síðustu 40 ár.

image

Pistlahöfundur blikar.is að þessu sinni er fyrsti formaður Blikaklúbbsins, Eiríkur Hjálmarsson

image

Til baka